Þjóðhátíðarræða Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, flutt á Ísafirði 17. júní 2007.

Ágætu þjóðhátíðargestir .

Mér er það sérstakt fagnaðarefni að ávarpa ykkur hér á Ísafirði í þessu stórbrotna  umhverfi í tilefni þjóðhátíðar okkar Íslendinga.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að óska ykkur til hamingju með menningarhúsin ykkar sem hafa verið tekin í notkun, nú síðast Edinborgarhúsið sem mun setja ríkulegan svip á menningarlífið í bænum.

Fæstir núlifandi Íslendinga gera sér grein fyrir því hvílíkt kraftaverk það hefur verið fyrir frelsishetjuna okkar, Vestfirðinginn Jón Sigurðsson að standa gegn ofurefli hins danska valds. Hæst reis styrkur hans á Þjóðfundinum sem haldinn var í  Reykjavík árið 1851.

Hann reis gegn erlendu valdi og kjarkur hans og sannfæring endurómar í þeirri þekktu setningu ,,vér mótmælum allir“ þegar hinir kjörnu þjóðfundarfulltrúar voru ofurliði bornir af embættismanni dönsku stjórnarinnar. Með þrotlausri vinnu og trú hugsjónarmanna á möguleika landsins og á íslenska menningu fengust réttindi íslensku þjóðarinnar og sjálfstæði með stjórnarskránni  árið 1874, með fullveldinu 1918 og síðan með fullu sjálfstæði við  lýðveldisstofnunina  17. júní 1944.

Við minnumst þessa mikla viðburðar í sögu þjóðarinnar í dag.

Í tilefni afmælis lýðveldisins er ástæða til þess að litast um í samfélagi okkar Íslendinga og ráða í rúnir framtíðar okkar í þessu dreifbýla landi sem landnámsmaðurinn Hrafna Flóki gaf það kuldalega en tignarlega nafn, Ísland.

Nafnið Ísland lýsir e.t.v. vel þeirri hörðu lífsbaráttu sem um aldir hefur verið háð í landinu af kynslóðum sem nú hafa skilað okkur samfélagi í fremstu röð þjóða heimsins. Á hvaða mælikvarða sem hagsæld okkar er mæld erum við Íslendingar  vel settir og breytingin til framfara hefur orðið hvað mest síðustu tvo áratugi.
Engu að síður er margt ógert sem við viljum koma í framkvæmd til hagsbóta fyrir land og lýð.

Því verður ekki á móti mælt að okkur Íslendingum hefur tekist að skapa aðstæður sem gefa okkur mörg tækifæri. Okkur hefur tekist að nýta auðlindir okkar á þann veg að lífskjörin hafa verið að batna ár frá ári. Fjárfesting í menntun og þekkingu hefur skilað sér í aukinni hagsæld og nýtingu mikilvægra tækniframfara svo sem fjarskipta og upplýsingatækni sem færir okkur nær mörkuðum stórþjóðanna og viðskiptum sem skapa nýja vídd og aukna möguleika fyrir okkur hvar sem við búum í landinu.

Uppbygging í innviðum samfélagsins hefur verið mikil. Hrein bylting er að verða í fjarskiptum og ekki síður í samgöngum hér á Vestfjörðum á grundvelli þeirra áætlana sem ég fékk samþykktar sem samgönguráðherra.

Nýr vegur um Djúpið um Mjóafjörð, nýr vegur um Arnkötludal verður að veruleika á næsta ári og jarðgöng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur eru í sjónmáli. Með þessum mikilvægu framkvæmdum breytast aðstæður ykkar Vestfirðinga mikið og eykur öryggi vegfarenda jafnt að sumri sem vetri.

Á suðurfjörðum Vestfjarða eru jafnframt miklar vegabætur framundan. Stefna verður að því að tengja suður- og norðurfirði á sem skemmstum tíma að öðrum kosti tapast þau tækifæri sem fást með því að byggðirnar séu tengdar saman með góðum samgöngum allt árið. Breyttar aðstæður atvinnumála vegna fyrirsjáanlegra minnkandi þorskveiða kallar á hraðari uppbyggingu samgöngukerfisins en ætlað var. Undan því verður ekki vikist.

Áform okkar um að byggja upp fiskistofnana með kvótakerfinu sem stjórnkerfi fiskveiða virðist hafa mistekist. Sú staða  kallar á allsherjar uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu ef marka má niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar. Staðan í sjávarútvegsmálum er því mjög alvarleg og kallar á breytingar ef sjávarbyggðirnar eiga ekki að hrynja. Margt bendir til þess að aflaheimildir safnist á hendur fárra útgerða sem leggja skipum sínum til löndunar í útflutningshöfnunum og herða enn frekar á þenslunni í atvinnulífinu þar,  allt í nafni hagræðingar sem mun koma hart niður á þeim byggðum sem allt eiga undir veiðum og vinnslu sjávarfangs.

Ástandið og horfurnar í minni sjávarbyggðunum eru mjög alvarlegar ef draga verður úr veiðum og sú staða kemur flestum á óvart. Miðað við aflabrögðin við Breiðafjörð á síðustu vertíð hvarflaði það ekki að nokkrum manni þar að við ættum eftir að standa frammi fyrir því að skera enn niður veiðiheimildir á næsta fiskveiðiári.

En hvað er framundan á Vestfjörðum við þessar aðstæður. Umræðan  um atvinnumál á Vestfjörðum og þróun byggðanna hefur verið áberandi.

Sveiflur í þorskveiðum og framsal aflaheimilda milli verstöðva ógnar nú atvinnulífinu og byggðunum. Við það verður ekki búið. Við verðum að snúa vörn og undanhaldi í sókn.

Við verðum að skapa skilyrði hér til þess að unga fólkið sem á hér rætur jafnt sem nýbúar geti búið hér og starfað við þau verkefni sem þau hafa menntað sig til að sinna. 

Og ég lít á það sem hlutverk stjórnvalda í samstarfi við atvinnulífið að skapa  þau skilyrði sem þarf til þess að atvinnulífið geti staðið undir þeirri samfélagsgerð sem við viljum að þróist hér á Vestfjörðum til jafns við aðra landshluta ef fram fer sem horfir með sjávarútveginn.

En hvað er til ráða. Ég fullyrði að þingmenn kjördæmisins eru samstíga í því að vilja vinna saman að lausn mála. Leiðirnar sem þingmenn vilja fara eru hinsvegar ólíkar. Þau sjónarmið þarf að leiða saman til farsælla lausna svo íbúarnir finni sér farveg til framtaks og aðgerða því framtak einstaklinganna er lykillinn að framförum. Við eigum að nota afmælisdag lýðveldisins til  að strengja þess heit að vinna sem best saman í þágu gróandi þjóðlífs. 

Nú verða allir að láta verkin tala og ganga til samstarfs við það öfluga fólk sem þið Vestfirðingar hafið valið til þess að leiða bæjarfélögin á Vestfjörðum og ekki síður að leita samstarfs við forystumenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar um lausnir sem duga til þess að efla atvinnulífið á Vestfjörðum til frambúðar.  Það verður ekki gert með úthlutun byggðakvóta. Um það verður aldrei sátt til frambúðar.

Í umræðum um þróun byggðar og eflingu fjölbreytts atvinnulífs hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að fjölga opinberum störfum. Allt er það eðlilegt og nauðsynlegt. Stjórnvöld eiga að færa sem mest af störfum hins opinbera út í landshlutana og skapa til þess skilyrði. Ekki síst þau störf sem er ætlað að sinni þjónustu við fólkið úti á landsbyggðinni. Ég tel augljóst að Háskólasetrið hér á  Ísafirði þróist til þess að verða háskóli með öllum þeim möguleikum sem slíkri starfsemi fylgir. Stórefla þarf rannsóknir tengdar þeim stofnunum og háskólastarfsemi sem nú þegar er til staðar hér á Ísafirði.

En vöxtur í heilum landshluta verður ekki byggður upp með þeim einum sem eru opinberir starfsmenn.  Heimamenn með eðlilegum stuðningi stjórnvalda verða að efla aðra hluta atvinnulífs á Vestfjörðum með aukinni hlutdeild í sjávarútvegi svo nærri gjöfulum fiskimiðum sem byggðir Vestfjarða eru;  með því að efla ferðaþjónustuna sem ég tel að eigi sér mikla möguleika á Vestfjörðum;  með hverskonar þjónustustarfsemi og iðnaðaruppbyggingu.

Ég  tel nauðsynlegt að gengið verði úr skugga um það að þeir kostir sem tengjast olíuhreinsunarstöð verði til skoðunar. Það má ekki minna vera en að stjórnvöld leggi til fjármuni til þess að láta meta staðarvalskosti á Vestfjörðum fyrir slíka starfsemi sem auðvitað verður að uppfylla allar ýtrustu kröfur um öryggi og umhverfisvernd sem gilda um slíka starfsemi hér á landi. En við megum engan tíma missa. Við verðum að leggja til hliðar fordóma gagnvart slíkri iðnaðarstarfsemi og við verðum að skjóta styrkum stoðum undir atvinnulífið til þess að tryggja afkomu okkar sem þjóðar.

Aðrir landshlutar svo sem höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og  miðausturland munu eflast með stóriðjunni og vegna vaxandi fjármálastarfsemi, stjórnsýslu, þjónustu opinberra stofnana sem starfa á landsvísu mun höfuðborgarsvæðið stöðugt eflast. Þeir landshlutar verða að gefa eftir hlutdeildina í sjávarútvegi til þeirra landshluta sem geta best nýtt fiskimiðin á hagkvæman hátt og skapað vinnu við sjávarútveginn. 

Til þess að auka hagkvæmni atvinnulífsins hér á Vestfjörðum þarf að tryggja hraða uppbyggingu innviða svo sem samgöngukerfisins og tryggja með löggjöf greiðari aðgang að fiskimiðunum frá sjávarbyggðunum sem allt eiga undir nýtingu sjávarfangsins t.d. með auknum veiðiheimildum dagróðrabáta og almennum aðgerðum sem muni leiða til þess að útgerðin færist aftur til þeirra svæða þar sem spennan er minni á vinnumarkaði og hagkvæmast er að gera út frá. Slíkar aðgerðir hljóta að koma til skoðunar við endurskoðun og endurmat á sjávarútvegskerfinu hjá okkur sem er óhjákvæmilegt.

Ágætu hátíðargestir

Á þessum degi lítum við yfir sviðið og horfum til framtíðar okkar sem þjóðar.
Við eigum að spyrja spurninga sem varða hagsmuni okkar sem heildar.
Í hverju eru mestu verðmæti okkar fólgin og hverjar eru hætturnar.

Hver eru verðmæti þess að eiga tungumál sem á í varnarbaráttu gagnvart áhrifum enskrar tungu og þar með bókmenntaarfur okkar, hvers virði er  aðgangur að auðlindum til lands og sjávar sem við getum nýtt með sjálfbærum hætti,  hvers virði er það sjálfstæði okkar á vettvangi alþjóðasamfélagsins sem við eigum á hættu að glata í skiptum fyrir viðskiptahagsmuni, hvar liggur styrkur okkar sem vopnlaus þjóð sem gæti staðið frammi fyrir ofurvaldi hryðjuverkamanna.

Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að velta upp ekki síst  á vettvangi þingsins.

Sem smáþjóð mitt á milli Evrópusambandsríkjanna og Bandaríkja Norður-Ameríku verðum við að vera á verði um sjálfstæði okkar og hagsmuni. Bæði gagnvart ofurvaldi stórþjóðanna, en einnig gagnvart þeim einstaklingum og stórfyrirtækjum sem vilja drottna í krafti stærðar eða viðskiptalegra aflsmuna. Það sannaðist við brottför varnarliðsins að stórþjóðirnar sýna smáþjóðum takmarkaða virðingu.

Sterkasta  varnarlið okkar er fólgið í sjálfstæði og stefnufestu í alþjóðasamstarfi, ráðdeild, efnahagslegum stöðugleika og fyrirhyggju við uppbyggingu atvinnuveganna og samstöðu um að byggja landið allt og nýta auðlindirnar frá byggðunum sem næstar eru.

Við verðum að sækja styrk okkar inn á við með sama hætti og frelsishetjan
Jón Sigurðsson gerði á sínum tíma. Hann sótti fylgi sitt og styrk til fólksins á Vestfjörðum og úr byggðum Breiðafjarðar. Þar stóðu rætur hans djúpt þegar á reyndi. Hann byggði hugmyndir sínar um framfarir á verslunarfrelsi og trú á einstaklinginn. Hann náði árangri vegna þess að hann hafði stuðning fólksins. 

Með sama hætti verða stjórnmálamenn í dag að sækja fram til sóknar og varnar í nánu samstarfi við íbúa kjördæmisins í þjóðarþágu.

Sem forseti Alþingis mun ég beita áhrifum mínum í ykkar þágu ágætu Vestfirðingar og víkja hvergi fyrir þeim sem er Þrándur í götu hagsmuna  kjördæmisins. Hér eiga að geta verið öll skilyrði til vaxtar og velgengni.
Við skulum sameinast um að Ísafjarðarbær og nærliggjandi byggðir eflist  á komandi árum.

Ég óska öllum Vestfirðingum til hamingju með daginn. Gleðilega þjóðhátíð.