Sturla Böðvarsson svarar hér ritstjóra Fréttablaðsins þar sem fjallað var um afgreiðslu samgönguáætlunar á Alþingi og afleiðingar þess að tólf ára áætlunin var ekki samþykkt.

Leiðarar Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, eru oftast góðir og breyttu Fréttablaðinu. Laugardaginn 24. mars bregst ritstjóranum bogalistin. Hann lætur birta mjög undarleg skrif eftir sigríði@frettabladid.is í dálkinum Frá degi til dags þar sem rétt eina ferðina enn er veist að undirrituðum og skrifar sjálfur leiðara sem er byggður á misskilningi sem ég vil leyfa mér að fara orðum um hér í þessari grein. Leiðarinn ber yfirskriftina ,,Stóra bókhaldshjáleiðin” og heldur höfundur því fram að því sem var hafnað í gær á  Alþingi með því að afgreiða ekki 12 ára samgönguáætlun sé samþykkt í dag. Af þessu tilefni er rétt að upplýsa ritstjórann um eftirfarandi.  1. Samkvæmt sérstökum lögum voru lagðar fyrir Alþingi samgönguáætlun til tólf ára sem er stefnumarkandi rammaáætlun og fjögurra ára áætlun sem er framkvæmdaáætlun þar sem fjárveitingum er skipt niður á verk eftir árum.  Samgönguáætlun til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi fyrir þinglok. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að leggja 8,1 milljarð til framkvæmda við Sundabraut á árunum 2007-2010. Þessi fjárveiting er hluti af ráðstöfun söluandvirðis Símans og var gert ráð fyrir því að það sem á vantaði væri fjármagnað með sérstakri fjáröflun í tengslum við einkaframkvæmd. Það kom fram við afgreiðslu laga um ráðstöfun söluandvirðis Símans og jafnframt í greinargerð með 12 ára áætluninni. Í gildandi langtímaáætlun er jafnframt gert ráð fyrir heimild til framkvæmda að upphæð 2,5 milljarðar til viðbótar. Sú heimild hefði fallið niður ef 12 ára áætlunin hefði verið afgreidd. Rétt er að taka það fram að samgöngunefnd þingsins hafði afgreitt báðar áætlanirnar til síðari umræðu. Alþingi hefur því samþykkt heimildir sem ættu að duga fyrir þeim framkvæmdum sem að er stefnt í fyrsta áfanga. Það er ofsögum sagt hjá ritstjóranum að Alþingi hafi ekki ,,séð sér fært” að samþykkja langtímaáætlunina. Afgreiðsla hennar var stöðvuð af stjórnarandstöðunni eins og stundum gerist og ritstjórinn þekkir vel hvernig stjórnarandstaðan notar afl sitt við þinglok til að stöðva mál. Jafnvel mál sem sátt ríkir um. Afstaða ríkisstjórnarflokkanna var skýr. Það er vilji til þess að leggja Sundabrautina á forsendum einkaframkvæmdar og öllum sem fylgjast með er ljóst að það verk verður ekki bæði undirbúið og unnið til loka á næstu þremur eða fjórum árum. Þess vegna var gert ráð fyrir 12 milljörðum til Sundarbrautar á tímabilinu 2011-2014 sem sérstakri fjáröflun. Það er því rangt að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum miklu framkvæmdum í áætlunum stjórnvalda.     Það eru fullar heimildir til þess að setja þessa miklu framkvæmd af stað.  1. Með nýsamþykktum vegalögum er heimilað að fela einkaaðilum einkaframkvæmdir bæði við byggingu og rekstur vegamannvirkja. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir þessum kosti. Það er því rangtúlkun hjá ritstjóranum að farin sé ,,stóra bókhaldshjáleiðin” eins og hann velur að kalla einkaframkvæmdir. Tvö félög hafa lýst áhuga á þátttöku í einkaframkvæmdum. Tryggingafélagið Sjóvá hefur sýnt áhuga á vegagerð á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi og Faxaflóahafnir hafa lýst vilja til þátttöku í framkvæmdum og fjármögnun Sundabrautar. Áhugi stjórnar Faxaflóahafna er sprottinn af hagsmunum hafnanna og áhugi  tryggingafélagsins er vegna umferðaröryggisaðgerða. Það er því ekkert óeðlilegt við stöðu málsins. Allir verða að gera sér grein fyrir því að fara verður að reglum um útboð, enda tryggja þau best hagsmuni ríkisins bæði við framkvæmdir og fjáröflun vegna verka, en gert er ráð fyrir sérstakri fjáröflun til þessara verka eins og fram kemur í samgönguáætlun. Hin sérstaka fjáröflun sem áformuð er gengur út á þrjá valkosti: Svokölluð skuggagjöld koma til skoðunar, lántaka frá verktaka eða lán frá öðrum aðilum og síðan hefðbundin fjármögnun úr ríkissjóði sem stendur mjög vel um þessar mundir. Þá er vert að minna á að allar skuldbindingar eru síðan háðar fjárlögum hverju sinni. Það er því fjarri öllu lagi að farin sé ,,bókhaldshjáleið” eins og ritstjórinn velur að nefna svo hugvitsamlega. Það má fremur líkja þeim áformum sem fram koma í samgönguáætlun um sérstaka fjáröflun við það þegar samþykkt voru sérstök lánsfjárlög. Þá framkvæmd þekkir ritstjórinn vel frá gamalli tíð.  1. Í dálkinum í Fréttablaðinu sem nefndur er Frá degi til dags er vitnað í tvö bréf stjórnar Faxaflóahafnar til samgönguráðherra. Annað er skrifað 10. janúar 2006 af þáverandi formanni stjórnar Faxaflóahafnar, Árna Þór Sigurðssyni, eftir að hann hafði átt fund með forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, um áhuga stjórnar hafnanna fyrir samstarfi og viðræðum um leiðir til að fjármagna Sundabraut og stækkun Hvalfjarðarganga. Hitt bréfið sem er dagsett 21. mars s.l. er í tilefni samþykktar stjórnar Faxaflóahafna undir forystu núverandi formanns. Þar koma fram viðbrögð eftir að ný vegalög hafa verið sett. Þar kveður við allt annan tón enda fylgdi hugur ekki máli hjá Árna Þór Sigurðssyni sem í raun var og er á móti einkaframkvæmdum í vegagerð eins og aðrir Vinstri grænir. Það kom berlega í ljós við afgreiðslu vegalaganna við þinglokin. Vinstri gænir gerðu ítrekaða tilraun til þess að stöðva afgreiðslu laganna vegna ákvæða um einkaframkvæmdir sem þeir voru á móti og ætluðu að stöðva málið. Það tókst sem betur fer ekki. Sama var með samgönguáætlunina og þeim tókst með hótunum um málþóf að stöðva afgreiðslu tólf ára áætlunarinnar. Vegna þessa bréfs sem Árni Þór Sigurðsson skrifaði í ársbyrjun 2006 taldi ég það ómaksins vert að láta hafa samband við hann og gera tilraun til þess að fá hann til þess að koma vitinu fyrir þá Ögmund og Steingrím J. í þinginu. Það bar ekki árangur. Það er því með ólíkindum að nú skuli hann koma fram í fjölmiðlum og vísa til bréfsins fá 10. janúar 2006 sem reyndist vera marklaus yfirlýsing. Hann vildi ekki þegar á reyndi tryggja einkaframkvæmd vegna Sundabrautar. Viðbrögð mín við því bréfi á sínum tíma voru byggð á því að ég vildi láta á það reyna rétt eina ferðina að hægt væri að treysta afstöðu þessara manna. Að vilji þeirra til samstarfs væri meira en orðin tóm. Að þeir áttuðu sig á því að fyrsta skrefið væri að skapa lagaleg skilyrði fyrir einkaframkvæmd og aðkomu Faxaflóahafna að gerð Sundabrautar. Svo reyndist ekki vera. Yfirlýsingar þeirra eru því jafn marklausar núna sem fyrr. Það er bágt til þess að vita að Fréttablaðið skuli ekki hafa áttað sig á þessu þegar Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður stjórnar Faxaflóahafna, gekk á fund ritstjórnar blaðsins til að koma sjónamiðum sínum á framfæri svo blaðið gæti haldið uppteknum hætti í skrifum sínum um samgöngumál.