Föstudaginn 16. apríl lagði samgönguráðherra fram frumvarp til laga á Alþingi um þriðju kynslóð farsíma. Meðfylgjandi er framsöguræðan sem hann flutti við það tilefni.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um þriðju kynslóð farsíma.

Markmið þessa frumvarps er að afla heimildar til að úthluta tíðnum fyrir þriðju kynslóð farsíma, tryggja hagsmuni neytenda og virkja samkeppni á íslenskum farsímamarkaði.

Ríflega 9 af hverjum 10 Íslendingum nota farsíma í daglega lífinu og Internetnotkun hér á landi er meðal þess hæsta sem þekkist í heiminum. Margir spá að þriðja kynslóð farsíma muni leysa hefðbundna farsímatækni af hólmi.

Með þriðju kynslóðinni er aukin áhersla lögð á gagnaflutning og nýir möguleikar opnast fyrir samskipti með háum sendingahraða. Til eru nokkrir staðlar fyrir þriðju kynslóðar farsímakerfið, sem eru notaðir í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu. Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa ákveðið að nota UMTS (Universal Mobile Telecommunications System) farsímastaðlana og gerir frumvarpið ráð fyrir að þeir verði notaðir hér á landi.

Frumvarpið, sem hér er lagt fram, er nokkru seinna á ferðinni en víðast annars staðar í Evrópu. Þegar litið er til reynslunnar í Evrópu við úthlutun tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma ætti mönnum að vera ljóst að það var hárrétt ákvörðun að flýta sér hægt í þessu máli. Víða í Evrópu voru tíðnir fyrir þriðju kynslóð farsíma boðnar hæstbjóðenda. Mörg uppboðanna fóru fram árin 2001-2002 þegar óhófleg bjartsýni um afkomumöguleika net- og hátæknifyrirtækja ríkti. Þessi mikla bjartsýni á möguleikum fjarskipta- og upplýsingatækninnar leiddi til óraunhæfra tilboða í tíðni fyrir þriðju kynslóð farsíma. Mörg fjarskiptafyrirtækin lentu svo í vandræðum þegar bólan sprakk og það kom á daginn að langt var í land að þjónusta sem byggði á þriðju kynslóðar farsímum næði fótfestu á markaðinum. Við þetta urðu fyrirtækin skuldsett og hafa skerta fjárhagslega burði til þess að byggja upp net og þjónustu sem krefst mikils fjármagns. Auk þess hafa þessi uppboð leitt til dýrari þjónustu vegna mikils kostnaðar af leyfunum. Þetta er mjög svo í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingaþjóðfélagið og aðgengi fyrir alla. Því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að önnur leið verði farin þ.e. haldið svokölluð „fegurðarsamkeppni“ þar sem keppt er um hraða uppbyggingar og gæði þjónustu.

Í dag býr fjarskiptamarkaðurinn við allt önnur skilyrði. Notendabúnaður fyrir þriðju kynslóðar farsíma er kominn á markað. Einnig er markaðssett þjónusta sem krefst afkasta þriðju kynslóðarinnar s.s. myndsímaþjónusta, margmiðlun og gagnaflutningsþjónusta. Markaður fyrir slíka þjónustu er frumskilyrði fyrir velgengni þriðju kynslóðar farsímakerfisins. Í Bretlandi var þriðju kynslóðarþjónusta sett á markað fyrir rúmlega ári síðan eða í mars 2003 og þar eru nú um 320 þúsund áskrifendur. Hins vegar hefur þriðju kynslóðar farsímaþjónusta náð meiri útbreiðslu í Asíu nánar tiltekið í Japan. Þar eru aðrir staðlar notaðir en miðað er við í Evrópu og var þjónustan fyrst boðin árið 2001. Eftir erfiða byrjun er nú mikill vöxtur í fjölda áskrifenda og hefur áskrifendum þar fjölgað um ríflega 1 milljón það sem af er ári. Fjöldi áskrifenda stefnir í að fara vel yfir 2,4 milljón á þessu ári.

Frumvarpið sem hér er lagt fram kveður á um nokkur atriði er varðar þriðju kynslóð farsíma. Að öðru leyti gilda fjarskiptalögin um þriðju kynslóð farsíma.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnunin úthluti tíðnum. Þetta er í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar samkvæmt fjarskiptalögum en eitt hlutverk stofnunarinnar er að úthluta tíðnum til fjarskipta s.s. sjónvarpssendinga, útvarpssendingar, til notkunar fyrir talstöðvar, útsendingu leiðsögumerkja og fyrir farsímanotkun.

Í frumvarpinu er sett fram það skilyrði að rétthafar tryggi útbreiðslu 3ju kynslóðar farsímaþjónustu til 60% íbúa eftirfarandi svæða hvers um sig:

a. Höfuðborgarsvæðis,

b. Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra,

c. Norðurlands eystra og Austurlands,

d. Suðurlands og Suðurnesja.

Rétthöfum er heimilt að hafa samstarf um að uppfylla þessa kröfu að uppfylltum skilyrðum fjarskiptalaganna um reiki og samkeppni. Nái þeir ekki samningum um reiki verða þeir að byggja upp þjónustuna sjálfir. Í frumvarpinu er miðað við að tíðnigjald verði 190 m.kr. á leyfi en afsláttur verður veittur fyrir aukna útbreiðslu utan höfuðborgarsvæðis. Veittur er 10 m.kr. afsláttur fyrir hvern hundraðshluta yfir 60% útbreiðslu og er hann veittur strax í upphafi leyfistímans. Leyfisgjald verður þó aldrei lægra en 40 m.kr. Þessu ákvæði er ætlað að stuðla að aukinni útbreiðslu þjónustunnar. Til þess að fá hámarksafslátt af tíðnigjaldi þ.e. greiða 40 m.kr. í tíðnigjald þarf rétthafi að tryggja a.m.k. 75% útbreiðslu á hverju svæði. Miðað við kröfur laganna er ljóst að útbreiðslan verður mun meiri miðað við þessar forsendur. Það gefur auga leið að afslátturinn hvetur til aukinnar útbreiðslu og uppbyggingu þjónustunnar á landsbyggðinni og er það markmiðið með að veita hann. Miðað er við að þessi atriði komi fram í viðskiptaáætlun bjóðanda sem er hluti af tilboðsgögnum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir allt að fjórum tíðniúthlutunum. Miðað er við að úthlutun tíðna fari fram að undangengnu almennu útboði. Ekki er gert ráð fyrir í útboðinu að boðið verði í tíðnirnar eins og vikið var að hér að framan. Frumvarpið, sem hér er mælt fyrir, gerir ráð fyrir að önnur leið verði farin eða útboð í formi svokallaðrar „fegurðarsamkeppni“. Nokkrar ástæður eru fyrir þessu vali. Í fyrsta lagi má benda á reynsluna í Evrópu þar sem niðurstaða útboðanna leiddi til fjárhagslega veikari fyrirtækja sem getur leitt til dýrari þjónustu og hægari uppbyggingu vegna skerts fjárhags samanber orð mín hér fyrr. Tíðnin fyrir farsímaþjónustu er verðmæt. Íslensku fyrirtækin eru misjafnlega fjárhagslega burðug og vel í stakk búin til þess að bjóða í tíðnirnar. Því er ekki ástæða til þess né heldur rétt að keppa um tíðniúthlutunina á fjárhagslegum forsendum. Það er einnig vilji núna að frumvarpið stuðli áfram að hagkvæmum gjöldum fyrir fjarskiptaþjónustu hér eftir sem hingað til. Með því að rétthafar greiði hóflegt gjald miðað við 75% útbreiðslu er stuðlað að því að helstu farsímafyrirtækin ráði við að tryggja sér tíðni. Einnig að þeir hafi, eftir sem áður, góða burði til þess að byggja upp þjónustuna enn frekar af þeim metnaði, sem felur það í sér að tryggja hér bestu fjarskiptaþjónustu.

Frumvarpið miðar því við að tíðnir fyrir þriðju kynslóðar farsímaþjónustu verði boðnar út með það að markmiði að tryggja bestu fáanlegu þjónustu sem víðast á landinu. Miðað er við að tíðniúthlutanir hvers rétthafa takmarkist við þær þarfir sem hann getur sýnt fram á. Gert er ráð fyrir að bjóðendur sendi inn viðskiptaáætlun um hvernig þeir ætli að haga uppbyggingu þjónustunnar. Í útboðslýsingu verða settir fram þeir þætti sem ráða munu vali á bjóðendum og vægi þeirra skilgreint. Þó er ljóst, eins og fram kemur í greinargerð, að tilboðin verða annars vegar metin á grundvelli hversu mikil útbreiðslan verður og hins vegar hvenær áskrifendur umsækjenda muni njóta aðgangs að UMTS-neti hans. Þessar upplýsingar skulu koma fram í viðskiptaáætlun bjóðanda sem er hluti af tilboðsgögnum hans. Með þessu er best tryggt að sem flestir landsmenn njóti þjónustunnar sem fyrst.

Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að þeir sem verða hlutskarpastir í útboðinu beri kostnaðinn af verkefninu. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun innheimti fyrir kostnaði útboðs af handhöfum tíðna við úthlutun þeirra.

Frumvarpið miðar við að gildistími leyfanna takmarkist við 15 ár, sem er nokkru lengri en leyfi fyrir ýmsa aðra þjónustu. Mikill kostnaður fylgir því að byggja upp þriðju kynslóðar farsímaþjónustu. Fimmtán ára gildistími eykur líkur á að fjarskiptafyrirtækin vinni að frekari uppbyggingu farsímaþjónustunnar og að fjárfestingin beri sig.

Ég vil leggja til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstvirtrar samgöngunefndar.