Þingflokksformaður Framsóknar, Kristinn H. Gunnarsson, virðist eiga erfitt með að skilja hvernig það gerðist að fjárveiting kom inn á samgönguáætlun til lengingar flugbrautar á Þingeyri.
 

Líklega var rangt af mér að setja fram full einfalda skýringu á framgangi málsins, þ.e. að segja fjármagn það sem á sínum tíma var eyrnamerkt til lýsingar við Ísafjarðarflugvöll væri nú nýtt til lengingar Þingeyrarflugvallar. Það gat Kristinn H. Gunnarsson ekki sætt sig við sem skýringu.

Til að upplýsa Kristinn H. og aðra áhugamenn um þessi mál þá skal undirstrikað að framganga þessa máls var þessi:

Fjármagn hafði verið tryggt til uppsetningar næturflugsbúnaðar á Ísafirði – næturflugslýsing reyndist ekki raunhæfur kostur og gekk því ekki eftir að svo komnu máli. Því gátu þeir fjármunir runnið annað.

Flugráð, sem skipað er af samgönguráðherra og er honum til ráðuneytis, ályktaði um frestun snertilendingarflugbraut í nágrenni Reykjavíkur.

Samgönguráðherra felur Flugráði að skoða möguleika þess að lengja flugbrautina á Þingeyri og fara í endurbætur í Grímsey með því að færa til fjármuni í áætluninni.

Flugráð ályktar um málið og leggur til við ráðherra að fjármagn verði fært til innan ramma samgönguáætlunar, svo unnt verði að fjármagna lengingu flugbrautarinnar á Þingeyri og endurbætur í Grímsey.

Samgönguráðherra gerir tillögu til samgöngunefndar Alþingis, í góðu samstarfi við formann nefndarinnar, að samgönguáæltun verði breytt í meðförum þingsins.

Tillaga samgönguráðherra, og þar með tillaga samgöngunefndar Alþingis, er samþykkt í meðförum Alþingis og framganga verkefnisins er þar með tryggð.

Annað: Þingflokksformaðurinn hefur, líkt og undirritaður, áhuga á jarðgangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Mín áhersla hefur alla tíð verið sú að í kjölfar þeirra jarðganga sem nú er unnið að, kæmu næst göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það var skýr tillaga mín við gerð jarðgangaáætlunar. Þingflokksformaður Framsóknarflokksins veit það væntanlega manna best, að það var hans eigin þingflokkur sem fékk þeirri tillögu minni breytt í þá veru að rannsóknir myndu jafnframt hefjast fyrir austan. Þar með var áherslum í jarðgangagerð dreyft. Ef þingflokksformaðurinn er nú sammála mér um þá forgangsröðun að göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar séu næst í röðinni fagna ég því.

Sem samgönguráðherra hef ég verið svo lánsamur að hafa meira framkvæmdafé til samgöngumála og hafa tryggt málaflokknum enn aukið fjármagn á næstu árum en dæmi eru um í samgöngusögu þjóðarinnar. Það að fjármagnið sé tryggt, tryggir framkvæmdir. Þegar liggur fyrir að farið verði í rannsóknir til undirbúnings jarðgangaframkvæmdum fyrir vestan. Að rannsóknum loknum, og að loknum þeim jarðgangaframkvæmdum sem nú eru í útboði, liggur beinast við að hafist verði handa við gerð ganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.