Sturla Böðvarsson samgönguráðherra
svarar grein Kristófers Más Kristinssonar leiðsögumanns
Kristófer Már Kristinsson leiðsögumaður skrifar í Morgunblaðið 30. júní s.l. Greinin ber yfirskriftina ,,Menningartengd ferðaþjónusta“. Þar kvartar hann réttilega um vondan veg milli Þingvalla og Laugarvatns sem hann vill fremur kalla Bláskógaheiði en Lyngdalsheiði. Í Samgönguáætlun er hins vegar nafnið Lyngdalsheiði notað. Kristófer þessi er væntanlega sá hinn sami og hefur gefið sig til þeirra verka að sitja þætti Egils Helgasonar, Silfur Egils, og gefa stjórnmálamönnum þjóðarinnar leiðbeiningar um það hvernig landinu skuli stjórnað, auk þess að hafa skoðun á flestum hlutum. Fyrir nokkrum árum gaf umræddur Kristófer kost á sér til að verða þingmaður Vestlendinga. Þá bauð hann sig fram fyrir Bandalag jafnaðarmanna. Það ágæta fólk ætlaði sér stóra hluti í íslensku samfélagi en hafði ekki erindi sem erfiði. Þar lauk stjórnmálaþátttöku Kristófers Más ef ég man rétt.
Í greinarkorninu nefnir Kristófer Már það sem skýringu á vondum vegi um Bláskógaheiði að hann sé ekki í kjördæmi samgönguráðherra. Hann bætir um betur, eins og Gróa á Leiti hefði gert, þar sem hann segir ,,Einhver sagði mér að það vantaði suðvesturhornið á kort samgönguráðuneytis, kannski er það satt, að minnsta kosti skýrir það ýmislegt í gerð og framkvæmd vegaáætlunar“. Svo mörg voru þau orð!
Kristófer Már hefur dvalið langdvölum erlendis og verður því að virða honum það til vorkunnar að þekkja lítt til þess sem hefur verið að gerast í samgöngumálum síðustu sex árin eða svo. Hefði Kristófer Már kannað stöðu mála hefði hann geta fengið þær upplýsingar að samgönguráðherrann hefur lagt til að nýr vegur verði lagður um Bláskógaheiði. Fjármunir eru tryggðir og Vegagerðin hefur unnið sitt verk við undirbúning í samræmi við vilja ráðherrans. Framkvæmdir hafa hins vegar ekki hlotið framgang. Ástæðan er sú að tillögur um legu vegarins, sem sveitarstjórn Bláskógarbyggðar hefur fallist á, hefur ekki verið samþykkt enn sem komið er af til þess bærum aðilum. Ástæðan er að skipulag vegarins og samþykki Skipulagstofnunar var kært. Hefur ákvörðun Skipulagstofnunar verið felld úr gildi af umhverfisráðuneyti. Það er því ekki samgönguráðherra sem stöðvar framkvæmdir heldur liggur ekki fyrir heimild skipulagsyfirvalda til að hefja framkvæmdir og til eru þeir sem vilja ekki að vegurinn verði lagður eins og kröfur eru gerðar um í dag þar sem umferðaröryggi er haft að leiðarljósi við hönnun vega. Um stöðu mála hefði Kristófer Már geta fengið upplýsingar hefði hann lesið nýleg grein mína í Morgunblaðinu þar sem ég skýrði gang mála eða ef hann hefði haft samband við Vegagerðina og fengið skýringar. En það virðist ekki henta leiðsögumanninum að hafa það sem sannara reynist. Ég vona bara að þeir ferðamenn sem hann leiðir um landið fái traustari lýsingu á hlutunum en lesendur greina hans í Morgunblaðinu fá.