Tveir ágætir Ísfirðingar sendu mér tóninn í BB fyrir stuttu. Blaðamaðurinn H.J. sá ekki ástæðu til þess að grennslast fyrir um afstöðu mína til umræddra mála sem er að jafnaði háttur góðra fréttamanna. Ég vel því þann kostinn að senda þessar línur til lesenda BB og óska eftir að fá þær birtar.
Guðni Geir saknar Djúpsins
Guðni Geir Jóhannesson bæjarfulltrúi gerði að umræðuefni í viðtali við BB ræðu sem ég flutti á fundi á Patreksfirði þar sem ég gerði grein fyrir afstöðu minni til vegagerðar á Vestfjarðarvegi um Barðaströnd. Í viðtalinu segist Guðni Geir sakna mjög að samgönguráðherra hafi ekki minnst á framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi. Í viðtalinu segir Guðni m.a. „Af fréttum að dæma af fundinum mætti ætla að handan hornsins sé ný leið fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Því fer hins vegar víðs fjarri að mínu áliti. Það var mótuð stefna af samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga að lokið yrði sem fyrst við leiðina um Djúp með þverun Mjóafjarðar og vegi um Arnkötludal.“
Í þessu viðtali greinir Guðni Geir ekki frá því að sú hin sama samgöngunefnd Fjórðungssambandsins ályktaði um Vestfjarðaveg og ég veit ekki annað en að um það hafi ríkt sátt að jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar ættu að vera á dagskrá sem næsti jarðgangakostur á Vestfjörðum. Í ræðu minni í Vesturbyggð fjallaði ég ekki sérstaklega um þverun Mjóafjarðar, en hef gert ráð fyrir að sú framkvæmd væri á dagskrá. Mun það skýrast þegar Samgönguáætlun verður lögð fram. Vestfirðingar eru margir áhugasamir um bættar samgöngur eins og sjá má á skrifum í BB um samgöngumál. Því fagna ég sem samgönguráðherra og vænti góðs stuðnings við það mikilsverða verkefni að ljúka framkvæmdum við veginn um Djúp, yfir Arnkötludal og Vestfjarðaveg úr Dýrafirði allt suður að Bjarkarlundi. Með því tryggjum við best sameiginlegt atvinnu- og þjónustusvæði á Vestfjörðum og góða tengingu milli Strandasýslu og Reykhólasveitar og Dalasýslu. Það verða síðan íbúarnir og vegfarendur sem velja sér þá leið sem þeir kjósa helst.
Úlfar Ágústsson kaupmaður á Ísafirði ræðir um siglingar um Norður Íshafið.
Úlfar Ágústsson kaupmaður á Ísafirði var einnig í viðtali við H.J. Haft er eftir honum að „Greinilega beðið eftir að síðasti maðurinn flytji héðan“. Þessi fyrirsögn er ekki málefnaleg að mínu mati og gefur ekki rétta mynd af ákvörðunum stjórnvalda.
Úlfar Ágústsson kaupmaður á Ísafirði og áhugamaður um siglingar á norðurslóð segir Vestfirði liggja beinast við siglingum skipa af norðurslóð til Ameríku og hagkvæmast verði að byggja umskipunarhöfn slíkra flutninga á Vestfjörðum. Hann segist hafa óskað eftir því við samgönguráðherra að hann hlutaðist til um að Vestfirðingar fengju að koma að starfi nefndar utanríkisráðuneytisins um siglingar á norðurslóðum en ekki fengið neinar undirtektir. Úlfar segir ljóst af vinnu nefndarinnar að í stjórnkerfinu sé beðið eftir því að síðasti Vestfirðingurinn flytji burt.
Ekki veit ég hvernig kaupmaðurinn getur komist að þessari niðurstöðu. Það er vissulega rétt að hann gekk á minn fund í samgönguráðuneytinu og kynnti hugmyndir sínar um siglingar og siglingadaga, en þó einkum siglingar milli Íslands og Grænlands. Sú nefnd, sem hann vitnar til, var skipuð af fyrrverandi utanríkisráðherra. Í nefndinni sátu fulltrúar samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Eimskips, Samskipa, Veðurstofu Íslands, Skipulags-, arkitekta- og verkfræðistofunnar ehf, Siglingastofnunar og Háskólans á Akureyri, en formaður starfshópsins var Gunnar Pálsson, sendiherra.
Einstakir landshlutar, áhugamenn um siglingar eða sveitarfélög áttu þar ekki sérstaka fulltrúa. Engar ákvarðanir hafa raunar verið teknar um það hvaða hafnir verða fyrir valinu sem þjónustuhafnir, komi til þess að siglingar opnist um svokallaða norður –Íshafsleið, sem gæti tengt Evrópu og Ameríku við Kyrrahafið með siglingum um Norður Íshafið með umskipunarhöfn á Íslandi. Það er í fyllsta máta ótímabært að gefa slíkar yfirlýsingar um afstöðu ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra til þess hvort Vestfirðir geti orðið fyrir valinu sem landshluti fyrir umskipunarhöfn verði af siglingum þessa leið, sem ég vona svo sannarlega að verði. Það eina sem liggur fyrir er skýrsla nefndarinnar þar sem kostir eru kynntir. Við Íslendingar munum væntanlega ekki ráða úrslitum um framvindu þessara hugmynda. Við eigum hins vegar að kynna kosti hafna okkar sem umskipunarhafna.
Það mun síðan væntanlega koma í hlut samgönguráðherra að móta stefnuna um uppbyggingu slíkra hafnarmannvirkja sem þarf ef til þess kemur að þessar siglingar verði að veruleika. Það verður hins vegar að gerast í samráði við viðkomandi hafnarstjórnir sem beri síðan ábyrgð á rekstri hafnanna. Munu þær væntanlega þurfa að setja upp trúverðuga viðskiptaáætlun um slíkar fjárfestingar sem þarf bæði í hafnarmannvirkjum og gámavöllum í hektara vís er gætu tekið við umskipunargámum og þeim varningi sem leggja þyrfti á land í umskipunarhöfn. Við slík áform þarf mikla fyrirhyggju og marga ábyrgðaraðila sem ættu hagsmuna að gæta í starfseminni. Að þeim kafla er ekki komið.
Ég hvet lesendur BB til þess að kynna sér umrædda skýrslu sem er mjög vönduð og gefur góða mynd af þessu risavaxna verkefni sem er til skoðunar. Í það verður ekki ráðist á næstu mánuðum. Hins vegar ættu hafnarstjórnir að kynna sér þá möguleika sem í þessu geta falist. Að lokum vil ég segja að það er mjög svo virðingarvert hversu mikinn áhuga Úlfar hefur sýnt þessu máli og vona ég að hann haldi áfram að vekja athygli á málinu. Hann er velkominn í samgönguráðuneytið til þess að fá allar þær upplýsingar sem þar er hægt að veita honum.
Sérfræðingar Siglingastofnunar og samgönguráðuneytisins í siglingamálum munu halda áfram að fylgjast með því sem er að gerast í rannsóknum á þessari merkilegu siglingaleið framtíðarinnar.