Samgönguráðherra hefur skrifað Póst- og fjarskiptastofnun bréf og lagt til við stofnunina að hún veiti tilraunaleyfi til stafrænna sjónvarpsútsendinga hér á landi.
Samgönguráðherra hefur nokkrum sinnum að undanförnu, t.d. bæði í ræðu sinni á Fjarskiptaþingi 2001 og eins á aðalfundi Landssíma íslands hf., gert grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið að hálfu ráðuneytis hans og Póst- og fjarskiptastofnunar við undirbúning stafræns sjónvarps á Íslandi. Nýverið sendi ráðherra Póst- og fjarskiptastofnun bréf þar sem hann leggur til við stofnunina að hún veiti tilraunaleyfi til útsendinga á stafrænu sjónvarpi. Í bréfi ráðuneytisins til stofnunarinnar sagði:

Í bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar [til ráðuneytisins], dags. 12. mars 2001 var þess farið á leit við samgönguráðuneytið að afstaða yrði tekin til óska stofnunarinnar um heimild til að úthluta tilraunaleyfum til útsendinga á stafrænu sjónvarpi.
Vaxandi áhugi er á dreifingu fræðslu- og afþreyingarefnis með stafrænum miðlum. Einn þátturinn í því að gera Ísland allt sigurstranglegt í samkeppni um búsetu er öruggur og greiður aðgangur að menningu og fréttum alls staðar að úr heiminum. Til að ná verulegum árangri í þessu efni er þörf á að nýta nýjustu tækni en víðtækt samstarf þeirra sem selja sjónvarpsþjónustu og þeirra sem reka fjarskiptanet hér á landi er til þess fallið að efla útbreiðslu sjónvarpssendinga. Stafrænt sjónvarp er á næsta leyti og núverandi tækni við útbreiðslu sjónvarps því væntanlega á undanhaldi. Með stafrænu og gagnvirku sjónvarpi mun verða mikil breyting á núverandi hlutverki framleiðslu- og dreifingaraðila sjónvarpsefnis og dreifingaraðila annarskonar gagnaflutnings.
Samkvæmt fjarskiptalögum nr. 107/1999 og lögum nr. 110/1999 um Póst- og fjarskiptastofnun skal stofnunin hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins. Ákvæði útvarpslaga nr. 53/2000 mæla hins vegar fyrir um að við útgáfu allra nýrra útvarpsleyfa og við endurnýjun annarra útvarpsleyfa skuli sett að skilyrði að með reglugerð megi mæla fyrir um breytingu á merkjum útvarpsstöðvar í stafrænt form, enda verði slík breyting ákveðin með eðlilegum fyrirvara að teknu tilliti til tæknilegra og fjárhagslegra ástæðna. Þessu ákvæði er ekki ætlað að raska gildissviði fjarskiptalaga.
Með hliðsjón af mikilvægi fjarskipta- og upplýsingatækni hér á landi telur samgönguráðuneytið mjög æskilegt að Póst- og fjarskiptastofnun veiti umbeðin tilraunaleyfi til útsendinga á stafrænu sjónvarpi við fyrstu hentugleika.