Frumvarpið felur í sér tímabærar breytingar á þingsköpum Alþingis og er markmið þess að færa starfshætti Alþingis til nútímalegra forms, líkt því sem tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar

Þann 3. desember síðastliðinn lagði ég, ásamt formönnum fjögurra af fimm þingflokkum á Alþingi, fram frumvarp um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis.  Frumvarpið felur í sér tímabærar breytingar á þingsköpum Alþingis og er markmið þess að færa starfshætti Alþingis til nútímalegra forms, líkt því sem tíðkast í flestum nágrannalöndum okkar, ásamt því að styrkja Alþingi og störf þess.  Í umfjöllun um frumvarpið hafa borið hæst breytingar á ræðutíma, en vissulega felur frumvarpið í sér mörg önnur nýmæli, sem að mati undirritaðs verða til mikilla bóta fyrir starf Alþingis.

Lengri starfstími og færri kvöld-/ og næturfundir

Eitt af meginmarkmiðum þeirra breytinga á þingsköpum sem lagðar eru til í frumvarpinu, er að lengja reglulegan starfstíma Alþingis.  Lagt er til að þingið hefji störf í byrjun september og að reglulegum þingstörfum ljúki í maílok eða júníbyrjun, án þess að fjölga þingfundadögum.  Þessi breyting gefur nefndum þingsins kost á auknum starfstíma og þingmönnum betri tíma til að sinna skyldum í kjördæmi.  Þá er, með lengri starfstíma, mögulegt að dreifa starfi þingsins jafnara yfir árið og getur Alþingi gefið sér meiri og betri tíma til að athuga þau mál sem liggja fyrir.
Með frumvarpinu er jafnframt stefnt að fækkun kvöld- og næturfunda, sem geta vart talist til fyrirmyndarvinnubragða.  Alþingismenn eiga rétt á eðlilegum tíma til samvista við fjölskyldu og tómstunda, en langir og síðbúnir kvöldfundir hafa ekki gert Alþingi mjög fjölskylduvænan vinnustað.  Það er von mín að þær breytingar sem eru í farvatninu auðveldi samþættingu vinnu og einkalífs þingmanna.  Þannig er stefnt að því að þingfundir standi að jafnaði ekki lengur en fram að kvöldmat og lengri fundum verði beint á eitt kvöld vikunnar.  Það mun einnig auðvelda þingmönnum skipulag vinnu sinnar, ef betri regla kemst á lengd þingfunda.  Báðar þessar breytingar  munu stuðla að því að færa starfsemi Alþingis til nútímavegar.

Bætt eftirlitshlutverk Alþingis og auknar upplýsingar til þingnefnda

Alþingi hefur því veigamikla hlutverki að gegna að veita framkvæmdavaldinu aðhald og fylgjast með störfum þess.  Þær breytingar á þingsköpum sem nú eru lagðar fram efla eftirlitshlutverk Alþingis umtalsvert.  Þannig er gert ráð fyrir að ráðherrar komi á fundi þingnefnda á fyrstu vikum þings og geri grein fyrir þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fram.  Einnig getur þriðjungur nefndarmanna óskað eftir fundi ráðherra í þinghléum.  Þetta nýmæli bætir upplýsingaflæði milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds og veitir nefndum Alþingis betra tækifæri á að fylgjast með störfum ráðherranna.

Markvissari umræður á Alþingi

Frumvarpið felur í sér veigamiklar breytingar á umræðutíma sem hafa það að markmiði að gera umræður markvissari og styttri en nú er.  Með þessu er í raun verið að auka málfrelsi þingmanna; í stað þess að einstaka þingmenn geti einokað umræðuna með löngum ræðum er ræðutími styttur í 2. og 3. umræðu um lagafrumvörp, en á móti verða engar takmarkanir á því hve oft þingmenn geta tekið til máls.  Til samanburðar er ræðutíminn sem lagður er til í frumvarpi mun rýmri en gengur og gerist á þjóðþingum annarra Norðurlanda.
Að mati undirritaðs hafa umræðuhættir þeir á Alþingi, sem í daglegu tali eru nefndir málþóf, verið veigamikill þáttur í slakri útkomu Alþingis í könnunum á afstöðu þjóðarinnar til þingsins.  Málþóf hefur verið tiltölulega algengt hér á landi, en heyrir til undantekninga í þjóðþingum  nálægra lýðræðisríkja.  Allir flokkar hafa gert sig seka um málþóf, en engum þeirra hefur það verið til sæmdar.  Hvergi er prýði að slíku; umræðan er ekki málefnaleg og með málþófi er verið að misnota reglur þingskapa um umræður. 
Það er óeðlilegt að minnihluti á þingi geti umturnað þinghaldinu vegna óánægju með einstök mál.  Slíkt ofríki minnihlutans er með réttu hægt að kalla ranghverfu á lýðræðinu.  Málþóf stuðlar ekki að markvissum umræðum og má færa fyrir því rök að með því að gera umræður markvissari á Alþingi skapist starfsumhverfi sem betur hentar fjölskyldufólki, ekki síst konum sem oftar bera hitann og þungann af umönnun ungra barna.

Bætt starfsaðstaða

Frumvarp til breytingar á lögum um þingsköp Alþingis nýtur víðtæks fylgis allra flokka á Alþingi, nema eins.  Frumvarpið er mikilvægt skref að því marki að styrkja Alþingi og störf þess.  Samhliða frumvarpinu er samkomulag milli þingflokka sem að því standa, að bæta starfsaðstöðu þinmanna, ekki síst þingmanna í stjórnarandstöðu.  Ég mun gera lesendum Morgunblaðsins grein fyrir þeim breytingum í annarri grein.