Það er vissulega ástæða til þess að fagna því að framkvæmdir eru hafnar við tvöföldun Reykjanesbrautar. Tvöföldun brautarinnar eykur afkastagetu umferðarmannvirkjanna og það sem meira er hún mun auka umferðaröryggi. Líklega má telja að umferðin aukist, því með þessari breiðu braut mun höfuðborgarsvæðið ná allt til byggðanna á Reykjanesi, sem hýsa Keflavíkurflugvöll, stærsta samgöngumannvirki okkar.

Því verður ekki á móti mælt að frá lýðveldisstofnun, á rúmum fimmtíu árum, hefur landið okkar tekið miklum stakkaskiptum. Íslendingum hefur tekist að lyfta Grettistaki við að byggja upp öflugt samfélag. Í dag er Ísland meðal ríkustu þjóða veraldar og nýtur hvarvetna trausts. Með samningum um stóriðu er enn frekar verið að skjóta stoðum undir velferðarsamfélagið okkar. Þjóðartekjur munu aukast og betri færi skapast við að tryggja velferð í landinu og auka kaupmátt tekna hins vinnandi manns. Jafnframt mun afrakstur hagvaxtar verða nýttur til þess að hraða framkvæmdum í vegagerð.

Samgöngukerfið var til skamms tíma vanþróað. Hröðum skrefum höfum við verið að byggja það upp í þessu stóra dreifbýla landi og nú liggja fyrir áætlanir um meiri framkvæmdir við vegagerð en nokkru sinni fyrr. Ef þau áform, sem ný samgönguáætlun gerir ráð fyrir að nái fram að ganga, verður bylting á vegakerfinu næstu fjögur árin, tala nú ekki um næstu tólf árin. Við sjáum því fram á betri tíð með bættu vegakerfi og öruggari umferðarmannvirkjum. Við skulum nota tækifærið nú þegar framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar eru hafnar, til þess að hvetja ökumenn að taka tillit til aðstæðna í umferðinni. Bæði á hinum mörgu malarvegum um landið, sem eftir á að byggja upp, sem og á nýju velbyggðu vegunum, er eiga og verða að auka öryggi í umferðinni. Bætt vegakerfi má ekki verða til þess að skapa hættu vegna hraðaksturs og glannaskapar í umferðinni.


                 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Páll Ketilsson/Víkurfréttir