Sturla Böðvarsson samgönguráðherra boðaði til fundar um samgöngu og fjarskiptamál á Café Riis á Hólmavík í gærkvöld, miðvikudagskvöldið 10. janúar. Um áttatíu manns mættu til fundarins sem hófst á því að ráðherra fór yfir umræðuna í samfélaginu að undanförnu og undirstrikaði mikilvægi þess að traustir stjórnmálamenn létu ekki hrekjast undan vindi í glórulítilli umræðu heldur sýni styrk sinn í verkum sínum.

Í ræðu sinni rakti ráðherra helstu viðfangsefni samgönguráðuneytisins og skýrði meðal annars tilkomu fjarskiptaáætlunar sem gildir til ársins 2010 en sú áætlun byggist á því að ríkið fjármagnar fjarskipti þar sem fyrirtæki geta ekki keppt um viðskipti. Í því samhengi nefndi ráðherra nýlegt útboð á fyrsta hluta gsm farsímakerfisins á þjóðvegum þar sem markaðsbrestur hefur orðið. Einnig hefur þegar farið fram útboð á útsendingum á Ríkissjónvarpinu í gegnum gervihnött. Með útsendingum um gervihnött eiga útsendingar Ríkissjónvarpsins að ná bæði til sjómanna og þeirra sem hingað til hafa ekki notið útsendinga Sjónvarpsins.

Ráðherra fór einnig yfir verkefni sem unnið er að eða er að ljúka í landshlutanum svo sem  framkvæmdir við Vestfjarðarveg í Gufudalssveit og Djúpveg um Mjóafjörð og Reykjanes. Að lokum tilkynnti ráðherra að á allra næstu dögum verði vegur um Arnkötludal boðinn út og stefnt að því að verklok verði undir lok ársins 2008.

Að lokinni ræðu tóku við umræður sem ráðherra stýrði sjálfur. Umræðurnar voru málefnalegar þar sem meðal annars var rætt um háhraðatengingar, ökurita, samgöngur og fjarskipti við Bjarnarfjörð, Arnkötludal. Fundinum lauk um klukkan 22.






Fjölmennt var á fundinum og fundarmenn mættu tímanlega