Svar samgönguráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um umferð hjólandi vegfarenda.

Kolbrún lagði eftirfarandi fyrirspurn fyrir Sturlu nú fyrir skömmu:


„Hvaða áform eru uppi um umferð hjólandi vegfarenda um Vesturlandsveg eftir tvöföldun hans? Óskað er upplýsinga um breytingar á framkvæmdinni eftir fram komnar athugasemdir frá samtökum hjólreiðafólks“.

Hér á eftir fer munnlegt svar ráðherrans:

Vesturlandsvegur er nú þegar fjórar akreinar frá vegamótum við Suðurlandsveg norður fyrir vegamót við Víkurveg. Kaflinn, sem verið er að tvöfalda í dag, er í beinu framhaldi tvöfalda kaflans við Víkurveg og nær að hringtorginu við Skarhólabraut. Mat á umhverfisáhrifum þessarar tvöföldunar fór fram s. l. vetur. Í greinargerð umhverfismatsins, sem unnin var í samráði við tæknideildir Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar, var gerð grein fyrir skipulagsmálum á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Þar kemur fram, að stofnstígur fyrir gangandi umferð liggur á og meðfram hitaveitustokknum austan vegarins, en jafnframt tekið fram, með vísan til 20. gr. vegalaga, að göngustígur sé ekki hluti framkvæmdarinnar. Reyndar kemur fram í greinargerðinni, að sveitarfélögin vinni að endurskoðun stígakerfis á svæðinu.
Vegna þess að göngustígur og reiðstígur liggja meðfram Úlfarsá og þvera Vesturlandsveg reyndist nauðsynlegt að byggja nýja brú á núverandi akbraut, þar sem of lágt er undir núverandi brú. Brýrnar fyrir báðar akbrautir verða lengri og hærri en núvarandi brú.

Á athugasemdartíma matsáætlunar komu fram óskir frá Landssambandi hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbnum um að lagður yrði sérstakur hjólreiðavegur meðfram Vesturlandsveginum, en þeim var vísað til sveitarfélaganna, sbr. áður tilvitnaða 20. gr. vegalaga nr. 45/1994 með síðari breytingum.