Samgönguráðherra svaraði fyrirspurn Björgvins Sigurðssonar m.a. um breikkun Suðurlandsvegar á Alþingi í dag

Frá Björgvini Sigurðssyni til samgönguráðherra um Suðurlandsveg


„1.  Hvaða fyrirætlanir eru uppi um breikkun Suðurlandsvegar, samanber nýlegar yfirlýsingar ráðherra í málinu.“

Í vegáætlunarhluta Samgönguáætlunar fyrir árin 2005 – 2008 er á árinu 2007 311 m.kr. fjárveiting til Hringvegar, merkt Hellisheiði – Sandskeið. Þessi fjárveiting verður notuð til breikkunar á veginum. Ljóst er að frekari fjárveitingar til þessa verkefnis þurfa að koma til skoðunar við endurskoðun áætlunarinnar á þessu ári.  Ég legg áherslu á að þessu verki megi ljúka með næstu 4 ára áætlun.

„2.  Hvenær er áætlað að breikkun vegarins frá Rauðavatni til Selfoss verði lokið?“

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvenær breikkun vegarins milli Rauðavatns og Selfoss verður lokið, sbr. Tilvísun til samgönguáætlunar vegna svars við 1. lið.

„3.  Hvaða kaflar vegarins verða þríbreiðir og hvaða vegkaflar fjórar akreinar?“

Í sambandi við hönnun næsta áfanga vegarins á næsta ári er verið að skoða veginn í heild milli Rauðavatns og Hveragerðis og verða þá gerðar tillögur um tilhögun breikkunar. Skoða þarf áframhaldið milli Hveragerðis og Selfoss í framhaldi af því.
Í þessu samhengi hef ég talið skynsamlegt að nálgast málið á þeim forsendum að vegurinn milli Rauðavatns og Hveragerðis verði svokallaður 2+1 vegur eins og við þekkjum úr Svínahrauninu.  Veginn milli Hveragerðis og Selfoss tel ég síðan skynsamlegt að nálgast sem fjögurra akreina veg.  En eins og ég sagði áðan þá er núna verið að skoða málið í heild sinni.

„4.  Er uppi áætlun um breikkun vegarins um Þrengsli til Þorlákshafnar?“

Engar áætlanir eru um breikkun vegarins um Þrengsli til Þorlákshafnar. Umferðin um þann veg gefur ekki tilefni til þess. Samkvæmt umferðartalningu er árdagsumferð um Þrengslaveg 2005 1.230 bílar en á Hellisheiði 5.990 bílar.  Þess má geta til samanburðar að árdags umferð um Vesturlandsveg sunnan gatnamóta Þingvallavegar var árið 2005 10.260.  Umferð Reykjanesbrautar sunnan Straumsvíkur var á sama tíma 9.320 og á Hellisheiði 5.990.