Að taka ákvörðun, að höggva á hnúta í umdeildum málum er oft viðfangsefni stjórnmálamannsins. Sem samgönguráðherra hef ég þurft að takast á við nokkur umdeild mál, sem vakið hafa umræðu í þjóðfélaginu eins og oft vill verða á vettvangi stjórnmálanna. Til fróðleiks fyrir lesendur heimasíðu minnar vil ég, nú þegar nokkuð er um liðið, rifja upp þrjú mál, sem voru mikið í umræðunni til þess að varpa skýrara ljósi á viðkomandi mál og meta stöðu þeirra nú þegar nokkuð er um liðið.

Af öllum þeim fjölmörgu málum, sem hafa verið til meðferðar í samgönguráðuneytinu, hafa sprottið upp deilur um þrjú ákveðin mál. Þessi mál voru blásin upp af fjölmiðlum og urðu öll til þess að valda deilum og árásum af hálfu stjórnarandstöðunnar og meiri og óvægnari umfjöllunar í fjölmiðlum en títt er. Mínir nánustu samstarfsmenn og fjölskylda mín stóð oft berskjölduð í þeim mikla darraðardansi. Mikill stuðningur, sem ég fékk frá mínu fólki og samherjum í stjórnmálunum, auðveldaði mér að standast þá orrahríð. Eftir stend ég reynslunni ríkari sem forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Sala Landssímans

Einkavæðing ríkisfyrirtækja er vandmeðfarin og líkleg til þess að valda deilum vegna mikillar andstöðu vinstri manna eins og þekkt er. Dæmi um það má nefna sölu SR-mjöls á sínum tíma, sölu Áburðarverksmiðjunnar, sölu á hlutum í Landssímanum og síðast sölu bankanna. Miklar vonir voru bundnar við sölu á hlut í Landssímanum. Með opnun fjarskiptamarkaðarins þótti eðlilegt að ríkið drægi sig út úr rekstri á fjarskiptamarkaði og því var og er gert ráð fyrir sölu Símans. Væntingar voru miklar um verðmæti símafyrirtækja um allan heim og gert var ráð fyrir að nýta þá fjármuni, sem fengjust fyrir Símann, til þess að lækka skuldir ríkisins, leggja vegi og efla upplýsingasamfélagið. Sala Landssímans átti sér langan aðdraganda og málið hafði verið rækilega undirbúið af hópi innlendra og erlendra sérfræðinga. Virt fyrirtæki og banki tóku að sér að selja hlutabréf í tilteknum áföngum. Löggjöfin hafði verið sniðin að þessum miklu breytingum þar sem skyldur markaðsráðandi fyrirtækis voru skýrt skilgreindar og sett ákvæði inn í starfsleyfi Símans, sem tryggðu margvíslega hagsmuni neytenda, ekki síst á landsbyggðinni. Þá hafði verið gerður samningur milli stjórnar Símans og samgönguráðuneytisins, sem tryggði verulega lækkun kostnaðar við gagnaflutninga og jöfnuð milli landshluta. Stjórn Símans, undir forystu stjórnarformanns, hafði unnið af miklum áhuga að nauðsynlegum breytingum á rekstri fyrirtækisins, sem verið var að færa frá því að vera ein stærsta ríkisstofnun landsins yfir í það að vera fyrirtæki á kröfuhörðum markaði. Eftir rækilegan undirbúning hófst sala hlutabréfa. Aðstæður breyttust hins vegar mikið eftir 11.september þegar markaðir hrundu. Og jafnframt varð hrun í verðmætum fjarskipta og Internet fyrirtækjum um allan heim. Þau höfðu fjárfest um of og leyfin fyrir þriðju kynslóðar farsíma höfðu auk þess verið seld á uppsprengdu verði, sem var með öllu óraunhæft. Ekkert hafði hinsvegar breyst í umhverfi Landsímans frá því verðmat var gert og því ekki talin ástæða til þess að lækka verð á hlutabréfum að mati einkavæðingarnefndarinnar, sem sá um allan undirbúning. Sala á hlutabréfum í Landssímanum til almennings og minni fjárfesta, sem Búnaðarbankinn sá um, varð dræm og má ekki síst kenna um neikvæðri umræðu og fullyrðingum fjárfesta um að verðið væri of hátt. Öllum má ljóst vera að aðstæður voru þannig að ekki var forsenda til að selja kjölfestufjárfesti á þeim kjörum sem markaðir gáfu tilefni til. Því var ekki um annað að ræða en að fresta frekara söluferli uns markaðir stæðu betur. Aldrei kom til greina að selja nema ásættanlegt verð fengist fyrir hluti í Landssímanum, þessu stönduga fyrirtæki, sem hefur einstaka markaðsráðandi stöðu.

Mikill óróleiki skapaðist í kringum stjórn og forstjóra Símans og því var óhjákvæmilegt að gera breytingar á yfirstjórninni. Sá tími var mjög óheppilegur, þar sem söluferilið stóð yfir. Í viðtali sem Egill Ólafsson hjá Morgunblaðinu tók við mig þann 17.febrúar 2001 gerði ég grein fyrir aðdraganda þess og tel ekki ástæðu til þess að fara yfir þau mál hér. En þær breytingar voru hinsvegar óhjákvæmilegar. Kosning nýrrar stjórnar og stjórnarformanns ásamt ráðningu nýs forstjóra tókst mjög vel og hefur komist ró á hjá fyrirtækinu.

Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna Símans var gagnrýnd. Um þá ákvörðun fjallaði ég á heimasíðu minni á sínum tíma. Það er mitt mat að það hafi verið rétt ákvörðun að skipta um alla menn í stjórn við þær aðstæður sem höfðu skapast, ekki síst þegar einstaka stjórnarmenn, líkt og Flosi Eiríksson, mátu meira ímyndaða pólitíska hagsmuni en hagsmuni fyrirtækisins. Jafnframt var eðlilegt að viðurkenna þá miklu vinnu sem stjórnarmönnum var ætluð í undirbúningi þeirra breytinga sem blöstu við, og greiða fyrir hana til samræmis við þær miklu kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna í stórfyrirtækjum á borð við Símann. Þegar á allt er litið fer ekki á milli mála að deilurnar um sölu Símans og stjórnendur hans hafi gengið úr öllu hófi. En þær sýndu að miklu máli skiptir að stjórnmálamenn séu staðfastir þegar á móti blæs. Með því að halda fast við verðlagningu á hluta Símans og láta ekki undan kröfu um sölu á undirverði, líkt og heyrðist hjá ýmsum fjárfestum, var haldið rétt á hagsmunum ríkisins sem eiganda Símans. Val á nýrri stjórn undir forystu Rannveigar Rist og ráðning forstjóra tókst vel. Þessi ágæti hópur hefur svo sannarlega staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar sem stjórnarmanna. Nú bíðum við betri tíðar og undirbúum næsta áfanga þeim mun betur. Stjórn og forstjóri Símans hafa unnið vel að þeim breytingum á rekstri og stjórnkerfi fyrirtækisins sem voru nauðsynlegar. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum skilar rekstur hans góðum hagnaði og 30% arður verður greiddur fyrir síðasta ár.

Ein mikilvægasta ákvörðun mín í málefnum fjarskiptanna, og þar með Símans, var að fresta úthlutun á leyfum vegna þriðju kynslóðar farsíma, sem nú hafa sligað mörg símafyrirtæki um alla Evrópu vegna hárra leyfisgjalda. Sú ákvörðun gerir nú íslensk símafyrirtæki bæði verðmætari og öflugri til að takst á við þjónustu við símnotendur á forsendum þeirrar nýju tækni sem ný kynslóð farsíma mun bjóða uppá. Um þessar mundir er mikil gerjun á fjarskiptamarkaði. Símafyrirtæki hafa verið að sameinast og í kjölfar þess mun samkeppni aukast. Það skiptir því miklu máli fyrir eigendur Símans að hin trausta stjórn Símans haldist. Niðurstaða mín er því sú að siglingin í gegnum brimgarðinn tókst og Síminn siglir nú lygnan sjó og getur orðið verðmætari þrátt fyrir minnkandi markaðshlutdeild sem er fyrirsjáanleg.

Flugöryggismál

Flugslysið hörmulega í Skerjafirði 7. ágúst 2000 leiddi til mikillar umræðu á sínum tíma í fjölmiðlum. Málið var til meðferðar hjá lögreglu og Ríkissaksóknara, sem hefur afgreitt málið. Einnig mun sérskipuð rannsóknarnefnd taka málið upp samkvæmt kröfu Rannsóknarnefndar flugslysa. Mun ég því ekki fjalla nánar um það efnislega hér. Samkvæmt íslenskri löggjöf og alþjóðlegum reglum er mikil ábyrgð sem hvílir á flugrekendum og flugmönnum um að tryggja ítrasta öryggi í flugrekstrinum. Á þessu kjörtímabili hef ég beitt mér fyrir margháttuðum endurbótum í flugöryggismálum og einnig flugslysarannsóknum. Það sem ég vil sérstaklega nefna og varðar allt flugöryggi er eftirfarandi:

  1. 1. Reykjavíkurflugvöllur hefur verið endurbyggður ásamt flugöryggisbúnaði við völlinn.

  2. 2. JAA reglur um rekstur minni flugvéla tóku gildi, sem er tímamóta ákvörðun í þágu aukins flugöryggis.

  3. 3. Lögum um loftferðir hefur verið breytt, þar sem auknar kröfur eru gerðar til flugöryggismála, flugverndar og heimildir Flugmálsatjórnar til aðgerða gagnvart flugrekstraraðilum eru styrktar til muna.


  1. 4. Starfsmönnum flugöryggissviðs Flugmálastjórnar hefur fjölgað og auknum fjármunum varið til þess sviðs og aðstaða þar öll stórbreytt.

  2. 5. Aukið hefur verið við fjárveitingar til Rannsóknarnefndar flugslysa og starfsemi endurskipulögð undir forystu nýrra starfsmanna nefndarinnar.

  3. 6. Óskað var eftir sérstakri úttekt Alþjóða flugmálastofnunarinnar á Flugmálastjórn og starfsaðferðum Rannsóknarnefndar flugslysa.

7.Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir flugslysa sem felur í sér margvíslegar úrbætur.

Allar þessar margháttuðu aðgerðir á vegum ráðuneytisins hafa miðað að því að auka og tryggja öryggi í fluginu og skapa trausta umgjörð um þessa mikilvægu atvinnustarfsemi. Með því að skipa sérstaka rannsóknarnefnd um fluglsysið í Skerjafirði er, af minni hálfu, kallað eftir endanlegri niðurstöðu um málið, sem gæti orðið til þess að skapa sátt um þær aðgerðir sem unnið hefur verið að í öryggisátt. Einnig að leita eftir rannsóknarniðurstöðu sem gæti orðið liður í að tryggja aukið öryggi.

Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar

Útgáfa flugskírteina er ábyrgðarstarf og um hana gilda strangar reglur hvað varðar heilbrigði flugmanna. Í langan tíma hafa staðið deilur milli Félags atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugmálastjórnar vegna útgáfu flugskírteinis til flugstjóra hjá Flugleiðum sem hafði veikst, en var talinn hafa náð heilsu á ný. Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar hafði gefið honum heilbrigðisvottorð til að fljúga, en með takmörkunum sem flugmaðurinn og FÍA sætti sig ekki við. Í gildi eru skýrar reglur um hvernig bregðast eigi við þegar slíkar deilur koma upp. Til þess að gæta fyllsta öryggis og til að ganga ekki á rétt flugmanna, gildir sú regla að skipuð er þriggja lækna úrskurðarnefnd sérfræðinga, sem fer yfir mál flugmanna og gefur umsögn um heilsufar viðkomandi flugmanns, eins og gert var í þessu tilviki. Niðurstaða úrskurðarnefndar á að vera endanlegur úrskurður sem trúnaðarlækni ber að fara eftir sem hann gerði ekki. Málið var kært til ráðuneytisins sem stjórnsýslukæra og var niðurstaða ráðuneytisins sú að fara ætti að niðurstöðu úrskurðarnefndar læknanna og gefa út skírteini án fyrirvara. Þessari niðurstöðu vildi trúnaðarlæknirinn ekki sæta.

Trúnaðarlæknir Flugmálastjórnar veittist að samgönguráðherra í fjölmiðlum og í frægu forsíðuviðtali í DV hélt hann því fram að samgönguráðherra hefði haft pólitísk afskipti af útgáfu flugskírteinis til flugstjóra Flugleiða. Þessi uppákoma varð ekki til að bæta umræðuna um flugöryggismálin og ráðuneytið mátti sæta stöðugum árásum vegna málsins. Til þess að vinna faglega að málinu skipaði ég þriggja manna hóp til þess að skoða embættisfærslu trúnaðarlæknis og aðkomu ráðuneytisins að málinu. Í hópnum voru tveir virtir hæstaréttarlögmenn þeir Andri Árnason og Gestur Jónsson auk landlæknis Sigurðar Guðmundssonar. Niðurstaða þeirra varð sú að ráðuneytið og ráðherra hefði farið í einu og öllu eftir stjórnsýslureglum og trúnaðarlækni hefði borið að gefa út vottorð án fyrirvara í kjölfar úrskurðar læknanefndarinnar. Árásirnar á ráðherra höfðu því verið tilefnislausar enda skrifaði trúnaðarlæknirinn bréf til ráðuneytisins þar sem hann dró ummæli sín til baka. Sættir náðust og samkomulag varð um að læknirinn snéri til baka til starfa hjá Flugmálstjórn, reynslunni ríkari um skyldur sínar og ráðherra um meðferð mála. En deilur læknanna um heilbrigði flugmannsins standa enn. Er það nokkurt umhugsunarefni, sem félag atvinnuflugmanna ætti að taka á gagnvart sínum félögum. Að fenginni þessari reynslu er nauðsynlegt að tryggja betur í lögum aðkomu ráðuneytisins að slíkum málum svo komið verði í veg fyrir deilur. En umfram allt þurfa reglur að vera þannig að við getum treyst því að útgáfa flugskírteina sé hafin yfir allan vafa. Umræður um þetta mál voru erfiðar, eftir að tilraun var gerð til þess að koma því inn hjá almenningi að ráðherra hefði tekið fram fyrir hendur læknisins og hlutast til um útgáfu flugskírteinis. Með faglegri umfjöllun var því hnekkt. Vonandi læra flugmenn og fluglæknar nokkuð af þeirri lexíu sem þetta mál er.

Ég set þessi þrjú mál hér fram á heimasíðu minni með þessum hætti, lesendum mínum til hugleiðingar, nú þegar vindana sem leikið hafa um um þessi mál hefur að mestu lægt. Öll hafa þessi mál hrundið af stað umræðu í þjóðfélaginu um ráðherraábyrgð. Vissulega er hún rík, en hún er ekki síður rík, ábyrgð þeirra er segja frá málum sem þessum og fjalla um þau á opinberum vettvangi.

Sturla Böðvarsson