Sturla Böðvarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi sem Umferðarstofa boðaði til vegna nýútkominar skýrslu um umferðarslys á Íslandi á árinu 2004.
Í skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 2004 kemur í ljós að árangur stendur að mörgu leyti undir markmiðum stjórnvalda í umferðaröryggismálum og reyndar gott betur en það.
Þegar málaflokkur umferðaröryggismála var færður undir samgönguráðuneyti frá dómsmálaráðuneyti þann 1. janúar 2004 settu stjórnvöld sér það markmið að fjöldi látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en það sem lægst gerist hjá öðrum þjóðum fyrir árið 2016. Að fjöldi látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016, sé tekið mið af meðatali 5 ára.
Skýrslan sýnir að þeim sem slasast af völdum umferðarslysa hefur fækkað. Á árinu 2004 var fjöldi alvarlega slasaðra í sögulegu lágmarki. Árið 2004 fækkaði alvarlega slösuðum um rúmlega 20% frá árinu á undan, en þess má geta að þar á undan hafði orðið 11,6% fækkun á milli ára. Árið 2004 átti sér stað fækkun alvarlega slasaðra í samanburði við árið 1995 sem nemur tæplega 52%.
Markmið stjórnvalda hvað varðar fjölda látinna í umferðinni árið 2004 náðist ekki. Banaslys voru 23 talsins árið 2004 og er það sami fjöldi og var árið 2003.
Samgönguráðuneytið, Umferðarstofa og Vegagerð munu halda áfram með þau verkefni sem nýlega voru sett fram í umferðaröryggisáætlun og er ætlað að stuðla að því að fækka alvararlega slösuðum og banaslysum í umferðinni.
Skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 2004 má nálgast hér (PDF-11.000KB)
Einnig vísast til heimasíðu Umferðarstofu, www.us.is, til frekari upplýsinga.