Slysin í umferðinni á síðasta ári eru okkur öllum sorgarefni. Þrjátíu manns dóu í umferðarslysum og yfir 140 eru alvarlega slasaðir. Við hljótum að spyrja: Hvað fór úrskeiðis? Er hægt að koma í veg fyrir slíkar hörmungar?

Slysaalda sem þessi snertir okkur öll. Í litlu samfélagi þekkjum við áreiðanlega til einhverra sem syrgja látinn ástvin eða þurfa að endurskipuleggja líf sitt vegna meiðsla og örkumla. Við getum kannski huggað okkur við að árið 2005 létust mun færri í umferðarslysum eða 19. En skiptir sá samanburður einhverju máli? Tölfræðin færir okkur enga huggun.

Skiptir máli af hvaða orsökum slysin verða? Við vitum að þær eru margar og getum kennt um vegum, veðri, aðstæðum, hraða, ölvun, ónógum öryggisráðstöfunum af okkar hálfu sem ökumanna. Slíkar vangaveltur skipta engu máli fyrir þann sem syrgir. Hann fær enga huggun með því.
Skipta endurbætur máli? Við viljum betri vegi, færri einbreiðar brýr, meiri löggæslu, meiri áróður, meiri fjármuni í vegagerð, heildarstefnu og forgangsröðun. En þetta skiptir heldur engu máli þegar slys hefur orðið. Mannslífin verða ekki bætt. Allt eru þetta þó þættir sem geta dregið úr hættu á slysum og þess vegna berjumst við fyrir slíkum framförum og forvörnum sem felast í bættri umferðarmenningu.

Siðferðisvandi
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, gerði slysaölduna á vegunum að umræðuefni í nýársprédikun sinni.. Hann sagði ekki aðeins samgönguvanda á ferð þegar slys væru annars vegar heldur siðferðismein, vaxandi yfirgangur og æsingur í þjóðfélaginu. ,, Fregnir af háttsemi vegfarenda sem komu þar að sem stórslys urðu á þjóðvegum, og með frekju og óþolinmæði trufluðu störf lögreglunnar og þeirra sem hlynntu að slösuðum, eru ótrúlegar og skelfilegar,” sagði biskup og síðar sagði hann: ,,Spennufíkn er ein birtingarmynd hraðablindunnar og er vaxandi vandamál og ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig hún grípur um sig meðal ungs fólks, umfram allt ungra karla.”

Endurskoðum hegðunina

Það sem skiptir máli í þessum efnum er að líta í eigin barm. Unglingar með bílpróf, ungt fólk í blóma lífsins, miðaldra fólk og roskið; við þurfum öll að líta í eigin barm. Við þurfum að endurskoða hegðun okkar í umferðinni. Siðferðið í okkar eigin huga skiptir máli. Hvernig vil ég að sé komið fram við mig í umferðinni? Vil ég óvænt mæta bíl á 140 km hraða á rangri ákrein á móti umferðinni? Vil ég sjá bílstjóra setjast undir stýri og aka af stað eftir að hafa setið að drykkju? Vil ég sjá farþega mína koma sér hjá því að nota bílbelti?

Við getum öll svarað þessum spurningum neitandi. Við viljum ekki svona hegðan. Þess vegna hljótum við að vilja gera betur sem ökumenn. Það er eina lausnin sem gagnast okkur á stundinni. Við getum hrint henni í framkvæmd.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.