Ávarp samgönguráðherra við afhendingu umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands 2002 í Stykkishólmi 17 október 2002:

Á undanförnum árum hafa yfirvöld og samtök innan ferðaþjónustunar hvatt til ábyrgrar umgengni um auðlindir greinarinnar, mörg fyrirtæki hafa tekið upp markvissa stefnu í umhverfismálum og er nú svo komið að sennilega hefur aldrei verið jafn erfitt að velja á milli fyrirtækja.
Í ár bárust 15 tilnefningar og hefur Ferðamálaráð Íslands komst að þeirri niðurstöðu að fólksflutningafyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. hljóti verðlaunin að þessu sinni.

Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að vegna stærðar landsins og að áhugaverðir staðir eru vítt og breytt um landið eru umfangsmiklir fólksflutningar einn af þeim þáttum sem einkennir íslenska ferðaþjónustu.  Það er kunnara en frá þurfi að segja að þau tæki sem annast farþegaflutniga  eru fyrst og fremst knúin kolefnisorkugjöfum og má því segja að ferðaþjónustan eigi umtalsveðan þátt í myndun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þessa vegna er metnaðarfull afstaða og aðgerðir fyrirtækja í umhverfismálum afar mikilvæg. Og æskilegt að beina athyglinni að slíku fyrirtæki.

Þann 20. September 1999 samþykkti Guðmundur Tyrfingsson ehf. umhverfisstefnu fyrir fyrirtækið, umhverfisstefnan var síðan endurskoðuð og uppfærð í mars 2001,  aftur í júlí 2002 og núna síðast í byrjun þessa mánaðar.

Í umhverfisstefnu fyrirtækisins er m.a. gerðar kröfur um bifreiðar sem menga minna, um flokkun og endurnýtingu úrgangs, þar á meðal vélaolíu. Þá eru bifreiðastjórar fyrirtækisins hvattir til þess að temja sér “grænt aksturslag”  og eru þeir þjálfaðir sérstaklega með það í huga ásamt því að temja sér snytimennsku, þá hljóta þeir einnig sérstaka þjálfun í notkun á umhverfisvænum vörum.

Í lokaorðum umhverfisstefnu Guðmundar Tyrfingssonar ehf. segir:
“Umhverfismál eru mál okkar allra, aldrei er nóg að gert og alltof margt í okkar samfélagi skaðar náttúruna og þar með talið okkur. Þetta eru dæmi um okkar áherslur og markmið í þessum málaflokki. Þessi mál eru í stanslausri skoðun hjá okkur enda er það skylda okkar að vera meðvituð og opin fyrir öllum leiðum til að draga úr mengun. Við fylgjumst því grant með þróun umhverfismála og erum vakandi yfir þessum málaflokki, framtíðin er jú í húfi.”

Þess má geta að þann 26. júlí 2002 fékk fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. staðfesta vottun og viðurkenningu Green Globe 21 samtakanna á umhverfisstefnu sinni en Green Globe eru alþjóðleg samtök á sviði umhverfismála í ferðþjónustu eins og fram hefur komið hér í morgun.
Guðmundur Tyrfingsson ehf. er verðugur handhafi umhverfisverðalauna Ferðamálaráðs Íslands 2002.

Vil ég að svo mæltu biðja fulltrúa Guðmundar Tyrfingssonar ehf. – Benedikt G. Guðmundsson og Einar Sigtryggsson að koma og taka við verðlaununum sem er höggmynd og ber heitið Harpa unnin af Hallsteini Sigurðssyni myndhöggvara.