Sunnudaginn 8. júní árið 2008 var efnt til hátíðar á Snæfellsnesi. Tilefnið var að sveitarfélögin á Snæfellsnesi höfðu fengið svokallaða Green Globe-vottun. Við þetta tækifæri flutti ég ræðu sem má lesa á heimasíðu minni http://www.sturla.is Í þessari ræðu rifjaði ég upp aðdraganda þess að Snæfellingar gengu til þess stórvirkis að fá umhverfisvottun.
Umhverfisvottað Ísland
Umhverfisvottað Snæfellsnes
Green Globe vottunarkerfið byggir á hugmyndafræði Dagskrár 21 og var sett á fót með stuðningi Alþjóðaferðamálaráðsins og Alþjóðaferðamálasamtakanna árið 1994. Ástæður þess að sveitarfélögin á Snæfellsnesi völdu þessa leið, að fá vottun fyrir starfsemi sína, var hin mikla áhersla sem þar er á uppbyggingu ferðaþjónustu. Til þess að ná árangri í ferðaþjónustu er lykilatriði að leggja ríka áherslu á umhverfismálin. Forsvarsmenn annarra atvinnugreina á Snæfellsnesi hafa einnig sýnt verkefninu mikinn áhuga sem og íbúarnir sem taka þátt í því með beinum hætti, svo sem með því að úrgangur frá heimilum er flokkaður.
„Af hverju vottun?“ er spurt. Svarið, sem ég hef fengið, er að það skapi trúverðugleika, það skapi aðhald og eftirfylgni, það skapi góð skilyrði til gæðastjórnunar auk þess sem vottun gefur mikið forskot í markaðssetningu og kynningaraðgerðum. Það er rétt að taka það fram, áður en lengra er haldið, að Sjálfstæðismenn ráða för í meirihluta í bæjarstjórnunum á Snæfellsnesi og hafa leitt þessa þróun með því öfluga fólki sem vinnur á þessum vettvangi á vegum stofnana og atvinnugreinanna, svo sem ferðaþjónustu.
Tillaga um nýtt risastórt skref í umhverfisvottun
Sérfræðingar Náttúrustofu Vesturlands hafa vakið athygli fyrir vönduð vinnubrögð og öfluga framgöngu á því fræðasviði sem þar er fengist við. Starfsmenn Náttúrurstofu Vesturlands hafa nú vakið mikla athygli með nýjum tillögum á sviði umhverfisvottunar.
Í mjög vandaðri skýrslu hafa þau líffræðingarnir Menja von Schmalensee og Róbert Arnar Stefánsson forstöðumaður sett fram tillögur um Umhverfisvottað Ísland. Þau hafa fylgst með og unnið að vottuninni fyrir Snæfellsnes og þekkja því þær kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaganna svo þau haldi þau skilyrði sem sett eru af hálfu vottunaraðila. Vissulega er hér um að ræða mjög róttækar tillögur. Þegar litið er til þess að öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa fengið þessa vottun og leggja ríka áherslu á að halda henni er þess að vænta að önnur sveitarfélög í landinu ættu að geta fallið inn í þann ramma sem reglur vottunar Green Globe-kerfisins setja. Ekkert í þessari vottun ætti að þurfa að takmarka atvinnuuppbyggingu í landinu ef rétt er á spilunum haldið. Ég hvet lesendur Pressunar, sem áhuga hafa á atvinnuuppbyggingu og umhverfismálum, að kynna sér tillögurnar og veita þessum tillögum stuðning. Þær má lesa á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands.
Lífeyrissjóðir fjármagni verkefnið
Í skýrslu Náttúrustofu Vesturlands um Umhverfisvottað Ísland er kostnaður við verkefnið metinn. Við núverandi árferði hjá ríkissjóði er ekki líklegt að ráðuneytin hafi kjark til þess að forgangsraða í þágu slíkra nýrra verkefni. Því tel ég einsýnt að leitað verði til Lífeyrissjóðanna sem eru um þessar mundir að leggja á ráðin um að fjárfesta í langtíma fjárfestingu, svo sem hátæknisjúkrahúsi og samgöngumannvirkjum. Tölur um kostnað við að fá vottun á öllum sveitarfélögum á Íslandi eru smáaurar fyrir lífeyrissjóðina miðað við það sem þeir eru að taka að sér fyrir ríkisvaldið í heilbrigðiskerfinu. Það er sannfæring mín að slík vottun mundi skila sér fljótt fyrir samfélagið með auknum tekjum af ferðaþjónustunni og auðveldari markaðssetningu annarra atvinnugreina sem selja framleiðslu sína á markað og gætu kynnt að hún kæmi frá svæðum sem hefðu hlotið alþjóðlega umhverfisvottun. Það væri glæsilegt verkefni fyrir sjóðina sem eiga að tryggja lífeyri landsmanna að geta kynnt aðild að slíku verkefni þegar þeir leita til sjóða sem taka að sér að ávaxta eignir lífeyrissjóðanna.
Þurfum djarfar tillögur
Við þurfum djarfar tillögur og markvissar aðgerðir til þess að skapa traust á starfi okkar við atvinnuuppbygginu á Íslandi. Við eigum að nýta og jafnframt vernda náttúru okkar með trúverðugum hætti og skapa þannig betri lífsskilyrði fyrir börnin okkar í framtíðinni. Fordómar einstakra stjórnmálamanna og öfgasamtaka mega ekki skemma fyrir okkur Íslendingum sem viljum búa á þessu fagra, ísakalda landi.