Björgvin G. Sigurðsson hóf máls á tvöföldun Suðurlandsvegar í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann spurði Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra hvort einkaframkvæmd kæmi til greina við tvöföldun Suðurlandsvegar sem hann telur eitt stærsta hagsmunamál samfélagsins í dag.
Samgönguráðherra svaraði því til að leiðirnar út frá höfuðborginni, bæði til Suðurnesja, austur fjall um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg í norðurátt, verði tvöfaldar með aðgreindum akstursstefnum. ,,Það er hin pólitíska stefnumörkun af minni hálfu sem samgönguráðherra.Að þessum undirbúningi er unnið og ég hef talið koma vel til greina að standa að einkaframkvæmd hvað þetta varðar vegna þeirra spurninga sem hv. þingmaður lagði hér fyrir. Ef það gæti bent til þess að framkvæmdum mætti hraða tel ég að það eigi að skoða það. Ég hef lýst því yfir að ég sé tilbúinn til þess og það mun verða kynnt í samgönguáætlun sem verður lögð fyrir þingið hvaða leiðir ég tel að eigi að fara til að tryggja sem hraðasta framvindu þessarar framkvæmdar ”, sagði ráðherra ennfremur.
Sjá nánar í fréttum Ríkisútvarpsins, mbl.is og á visir.is.
KB