Jarðgangaframkvæmdir og arðsemi þeirra


Sturla Böðvarsson fjallar um arðsemi jarðgangaframkvæmda: „Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði.“

Á s.l. mánuðum hafa verið stöðugar umræður um forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum. Mestar hafa umræður orðið um jarðgöng og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Af því tilefni er ástæða til þess að bregða upp mynd af því hvernig undirbúningi hefur verið háttað við ákvarðanir um umrædd jarðgöng. Umræðuna um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu læt ég bíða betri tíma.

Umræður um Héðinsfjarðargöng
Í ljósi umræðu, við afgreiðslu samgönguáætlunar á síðustu dögum þingsins og þá sérstaklega umræðum sem spunnust um Héðinsfjarðargöng, tel ég rétt að halda nokkrum staðreyndum til haga. Kristinn H.Gunnarsson, 7. þingmaður NVkjördæmis, hefur dundað sér við að skrifa gegn umræddum jarðgöngum. Kristinn hefur slegið um sig með umræðu um arðsemi framkvæmda, einkum þeirra sem bæta samgöngur við fámennar byggðir svo sem Héðinsfjarðargöngin gera. Hann hefur viðrað sig upp við þá sem hafa leitast við að auka andstöðu íbúa á höfuðborgarsvæðinu gagnvart samgönguáætlun. Tilgangurinn er augljóslega að magna upp andstöðu við jarðagangaframkvæmdir, sem þeir telja vera umdeildar. Í þeirri umræðu hefur Kristinn verið fremstur í flokki og ber fyrir sig ákvörðun um Héðinsfjarðargöngin. Hann hefur væntanlega kynnt sér rækilega fræðin á bak við arðsemisútreikninga fjárfestinga þegar hann var formaður stjórnar Byggðastofnunar. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræddum þingmanni þegar hann tekur til við að mæla fyrir því að hefja framkvæmdir við jarðgöng í kjördæmi okkar, NVkjördæmi. Þar er af mörgu að taka þegar kemur að óskum um framkvæmdir í jarðgangagerð þrátt fyrir takmarkaða umferð.
En einu hefur Kristinn gleymt í skrifum sínum um göngin. Hann samþykkti jarðgangaáætlunina sem setti undirbúning þeirra af stað. Og merkilegt nokk, hann flutti ræðu í þinginu þar sem hann áréttaði að þeim bæri að þakka sérstaklega fyrir, sem væru ábyrgir fyrir því að áætlunin var unnin. Þannig ber ekki allt upp á sama daginn í málflutningi þingmannsins. Hann ætti að fletta upp í þingtíðindum frá 13.maí árið 2000 þegar Alþingi samþykkti áætlun um gerð Héðinsfjarðarganga.

Aðdragandi og ákvarðanir Alþingis
Ég vil í þessari grein fara yfir ákvörðunartökuferli Héðinsfjarðarganga. Verður hér leitast við að svara spurningum þeirra, sem hafa velt þessum framkvæmdum fyrir sér, með því að rekja sögu ákvörðunar um gerð þeirra.
Í tengslum við breytingar á kjördæmaskipun var rætt um að samhliða þeirri ákvörðun að Siglufjörður fylgdi Norðausturkjördæmi yrði að tengja saman kjördæmið með jarðgöngum og efla um leið Eyjafjarðarsvæðið til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Um þá hugmyndafræði var ekki teljandi ágreiningur á sínum tíma. Með sama hætti var talað um Suðurstrandarveg til að tengja saman Suðurkjördæmi.

Þann 11. mars 1999 var samþykkt á Alþingi eftirfarandi þingsályktun: ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum, sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar“.

Jarðgangaáætlun undirbúin
Í framhaldi af þessari samþykkt Alþingis fól samgönguráðherra, Halldór Blöndal, Vegagerðinni málið til afgreiðslu, með bréfi dags. 30. mars 1999. Um vorið nánar tiltekið 28.maí 1999 tók ég við ráðuneyti samgöngumála. Hélt ég áfram við það verk sem forveri minn hafði sett af stað við undirbúning jarðgangaáætlunar.
Strax í maí 1999 skipaði vegamálastjóri vinnuhóp með helstu sérfræðingum Vegagerðarinnar í jarðganga- og áætlanagerð til að leggja drög að langtímaáætlun um jarðgöng.

Í byrjun árs 2000 skilaði Vegagerðin til mín jarðgangaskýrslu. Í henni var lagt mat á ýmsa jarðgangakosti á vegakerfinu sem nefndir höfðu verið. Var þar fjallað um tuttugu og fjögur hugsanleg jarðgöng og reynt að meta þau á kerfisbundin hátt. Á vorþingi sama ár legg ég, sem samgönguráðherra, fram tillögu til þingsályktunar að jarðgangaáætlun 2000-2004. Þar voru 3 jarðgöng tekin út úr og eru það göngin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, Héðinsfjarðargöng og milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Í meðförum Alþingis breyttist tillagan og bætt var við að hefja ætti rannsóknir vegna jarðganga á Austurlandi. Í öllum umræðum um jarðgöng hef ég lagt áherslu á að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar ættu að vera næst á eftir Héðinsfjarðargöngum og síðan ný göng í stað Oddsskarðsganga. Jarðgöng undir Vaðlaheiði kæmu vel til greina sem einkaframkvæmd líkt og Hvalfjarðargöngin. Í tillögunni er tiltekið að fyrst og fremst verði lögð áhersla á verkefni sem styrki og stækki byggðakjarna með styttingu vegalengda. Í fyrsta lagi sé verið að sporna við viðstöðulausri fólksfækkun á landsbyggðinni með því að efla byggðakjarna, sem eru nógu stórir til þess að halda uppi atvinnu-, mennta- og menningarlífi. Í öðru lagi hafa framfarir orðið slíkar í vegagerð að hægt sé að halda uppi vetrarsamgöngum á veluppbyggðum fjallvegum þar sem það á við.
Nefnt er að meginröksemd fyrir tillögu um jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sé sú að með þeim tengist Siglufjörður við Eyjafjarðarsvæði þannig að Eyjafjarðar-svæðið í heild sinni verði öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Þá er gert ráð fyrir að jarðgöngin þrjú verði einbreið en þó er settur sá fyrirvari að seinni göngin tvö geti allt að eins orðið tvíbreið.
Svo fór að Alþingi samþykkti tillöguna sem ályktun Alþingis 13. maí árið 2000 með öllum greiddum atkvæðum.

Í nefndaráliti samgöngunefndar er áhersla á að fjár, til að standa straum af kostnaði við jarðgangagerð skv. tillögunni, verði aflað sérstaklega, m.a. með sölu ríkiseigna.

Þessi samantekt sýnir að ákvörðun um gerð Héðinsfjarðaganga var tekin annars vegar í tengslum við breytta kjördæmaskipan og hins vegar byggða á pólitískum forsendum þar sem litið var fyrst og fremst til eflingar Eyjafjarðarsvæðisins.

Héðinsfjarðargöngin og arðsemi framkvæmda
Eins og þekkt er var ekki hafist handa við gerð Héðinsfjarðaganga á þeim tíma sem fyrsta þingsályktunartillagan gerði ráð fyrir. Jarðgangaáætlun var felld inn í fyrstu samgönguáætlunina fyrir tímabilið 2003-2014, en hún var samþykkt vorið 2003. Í samgönguáætluninni er vísað til þeirrar jarðgangaáætlunar, sem samþykkt hafði verið árið 2000 af Alþingi.

Þeim arðsemistölum, sem verið hafa í umræðunni, hefur hvorki verið haldið á lofti af mér né Vegagerðinni á neinu stigi málsins. Arðsemi þessi var reiknuð árið 1998 í tengslum við vinnu s.k. Lágheiðarhóps, sem hafði það verkefni að kanna kosti í samgöngumálum á utanverðum Tröllaskaga. Hópurinn bar saman ýmsa valkosti á svæðinu og niðurstaða hans var að besti kosturinn væri þessi s.k. Héðinsfjarðargöng.

Vegagerðin gaf út skýrslu árið 1998 sem nefnist ,,Vegtengingar milli byggðalaga við norðanverðan Tröllskaga“. Þar eru þessar niðurstöður allar vel tíundaðar. Enginn samanburður var gerður við aðra kosti í uppbyggingu samgöngukerfisins annars staðar á landinu. Réttilega hefur fram komið að hópurinn gerði sína útreikninga miðað við einbreið göng. Vegna umræðunnar óskaði ég eftir því við Vegagerðina að gerð yrði gróf tilraun til þess að setja inn í það reiknimódel, sem notað var, um 20% kostnaðarauki vegna tvíbreiðra ganga. Niðurstaða þeirra útreikninga Vegagerðarinnar gefur arðsemi upp á 12,5% fyrir tvíbreið göng m.v. 14,5% skv. eldri útreikningum fyrir einbreið göng. Þetta er ekki ýkjamikill munur. Fram hefur hins vegar komið hjá þeim, sem að þessum útreikningum stóðu, að það var umferðarspáin en ekki fjárfestingarkostnaðurinn sem hafði mest áhrif á arðsemina og styður þessi niðurstaða þá staðhæfingu.

Einbreið jarðgöng ekki lengur á dagskrá
Ég held að umræðan um tvíbreið og einbreið göng falli um sjálfa sig í ljósi breyttra tíma. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er hvergi, svo vitað sé, verið að grafa einbreið göng í heiminum í dag. Hönnun jarðganga hér er miðuð við norska staðla. Ákvörðun um að gera Héðinsfjarðargöngin tvíbreið var þó tekin á grundvelli breytinga á norskum stöðlum í jarðgangagerð á árinu 2003. Þar segir að væru jarðgöng lengri en 5 km skyldu þau vera tvíbreið. Í dag eru þetta alþjóðlegar kröfur. Lengri kafli Héðinsfjarðaganga er 6,9 km. Ég tel að í framtíðinni muni engum detta í hug að nefna, hvað þá byggja, einbreið jarðgöng.

Nýjar aðferðir við mat á forgangsröðun framkvæmda í skoðun
Samkvæmt lögum um samgönguáætlanir er það Samgönguráð sem vinnur að undirbúningi samgönguáætlunar. Á vegum þess og í samstarfi við samgönguráðuneytið var ákveðið að hefja samstarfsverkefni haustið 2004 í samvinnu við Hagfræðistofnun HÍ. Með þeirri vinnu er ætlað að kanna aðferðir við forgangsröðun framkvæmda hjá Vegagerðinni, Flugmálastjórn og Siglingastofnun, bera þær saman við aðferðir nágrannaþjóða okkar og leggja mat á það hvort þörf er á að endurskoða þær aðferðir sem nú eru notaðar við mat á framkvæmdum. Nýtt kerfi getur þannig leitt af sér nýja forgangsröðun á stærri verkefnum þar sem vægi t.d. umhverfisþátta og slysatíðni verður endurmetið. Vonast er til að endurskoðað kerfi fyrir forgangsröðun og arðsemismat muni veita stuðning við ákvarðanatöku um verkefni á samgönguáætlun í framtíðinni.