Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2008.
Sturla Böðvarsson skrifar um samgönguáætlanir:
„Þingmenn Norðausturkjördæmis ættu allra þingmanna síst að kvarta undan því að ekki hafi verið hugsað fyrir jarðgangagerð í þeim landshluta.“
Það getur stundum verið erfitt að sitja á forsetastóli Alþingis og hlusta á umræður, án þess að eiga þess kost að bregðast við því sem til umræðu er hverju sinni. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma mánudaginn 3. mars sl. bar varaþingmaður Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi upp fyrirspurn til samgönguráðherra. Þingmaðurinn spurðist fyrir um jarðgangagerð á Austurlandi. Mátti ætla af málflutningi að í þeim landshluta hafi nánast ekkert verið gert og ekkert hafi staðið til að gera í nánustu framtíð. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir.
Á síðasta kjörtímabili var lokið við gerð jarðganga í Almannaskarði og einnig jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Báðar þessar framkvæmdir hafa haft mikla þýðingu fyrir byggðina á Austurlandi.
Á síðasta kjörtímabili var boðin út gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, svokölluð Héðinsfjarðargöng, sem allnokkur umræða hefur orðið um og ætti því að vera í fersku minni margra ekki síst þingmanna. Það verk er í fullum gangi og sér fyrir enda þess risavaxna verkefnis á næsta ári.
Í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2007–2010, sem samþykkt var 17. mars 2007, var gert ráð fyrir fjármögnun Héðinsfjarðarganga og einnig Bolungavíkurganga sem nú er búið að bjóða út. Jafnframt var gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun til jarðgangagerðar við svokölluð Vaðlaheiðargöng sem átti að verða einkaframkvæmd kostuð með veggjaldi með samningum við hlutafélag sem hafði unnið að undirbúningi og lýsti vilja til þess að bora göngin og reka þau.
Í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2007–2018, svokallaðri langtímaáætlun, sem var lögð fyrir þingið var jafnframt gert ráð fyrir framkvæmdum við jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, gerð Norðfjarðarganga í stað Oddsskarðsganga og svokölluð Lónsheiðargöng. Að auki var gert var ráð fyrir öðrum göngum sem áttu að vera á höfuðborgarsvæðinu og var þar um að ræða jarðgöng undir Öskjuhlíðina, en þá var ekki farið að ræða um Sundagöng sem nú er eðlilega gert. Samgöngunefnd Alþingis hafði lokið umfjöllun um þá áætlun sem beið lokaumræðu og atkvæðagreiðslu, en hún var stöðvuð í þinginu vegna deilna við þáverandi stjórnarandstöðu við lok þinghaldsins vorið 2007, í aðdraganda alþingiskosninganna.
Þetta er nauðsynlegt að rifja upp vegna þess að umræður í þinginu gáfu ekki rétta mynd af staðreynd mála. Þingmenn Norðausturkjördæmis ættu allra þingmanna síst að kvarta undan því að ekki hafi verið hugsað fyrir jarðgangagerð í þeim landshluta. Frá því þessar áætlanir voru til meðferðar á síðasta ári hafa stjórnarflokkarnir gripið til sérstakra mótvægisaðgerða, eins og þekkt er, m.a. með því að auka verulega fjármuni til vegagerðar. Þær jarðgangaframkvæmdir sem fyrrnefndar áætlanir gerðu ráð fyrir ættu því að geta komist í gagnið enn fyrr en vonir stóðu til. Ný jarðgangaverkefni á Austurlandi hljóta að bíða uns lokið hefur verið við jarðgöngin sem eru í fyrrnefndum áætlunum, ekki síst jarðgöngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem munu gjörbreyta aðstæðum á Vestfjörðum. Því verkefni má ekki fresta.