Það hefur verið kostulegt að fylgjast með þeirri umræðu sem farið hefur af stað, að undirlagi tiltekinna aðila í Vestmannaeyjum, eftir að viðtal birtist við samgönguráðherra í kvöldfréttum sjónvarpsins 28.desember síðastliðinn. Því vill undirritaður halda nokkrum atriðum til haga.

Ummælin sem fóru svo mjög fyrir brjóstið á tilteknum aðilum voru þau að samgönguráðherra sagði, þegar fréttamaður spurði um göng til Eyja, það sem alltaf hefur legið fyrir, þ.e. að jarðgöng séu ekki raunhæfur kostur miðað við þær kostnaðartölur sem nú liggja fyrir, eða eins og sagði í viðtalinu ,,Ég tel að það sé ekki raunhæfur kostur (jarðgöng) eins og sakir standa, en það kann að vera að í framtíðinni verði það, en ég lít svo á að þær kostnaðaráætlanir sem hafa verið kynntar að þær gefi ekki tilefni til þess að sá kostur sé í spilunum eins og er“ Hvað er nýtt í þessari yfirlýsingu? Nákvæmlega ekki neitt! Það er á hreinu að miðað við það kostnaðarmat sem nú liggur fyrir eru göng ekki raunhæfur kostur.

Samgönguráðherra skipaði nú í haust nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir þá kosti sem eru í stöðunni varðandi framtíðarsamgöngur til Eyja. Sú nefnd skilar af sér, eftir að rannsóknum í Bakkafjöru er lokið, ekki fyrr, eins og einhverjir virðast halda. Ákvörðun um hvernig framtíðarsamgöngum við Vestmannaeyjar verður háttað, verður ekki tekin fyrr en að þessari vinnu lokinni. Upphlaup alþingismannanna Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Lúðvíks Bergvinssonar dæma sig sjálf og opinberaði Lúðvík Bergvinsson vanþekkingu sína á málinu þegar hann sagði í viðtali á www.eyjar.net að Alþingi hafi tekið ákvörðun um að færa fjármuni úr Bakkavegi í rannsóknir á jarðlögum á milli lands og Eyja. Það er auðvitað alrangt, þá ákvörðun er ekki hægt að taka nema með endurskoðun samgönguáætlunar sem á sér stað á vorþingi. Undirritaður vildi gjarnan vita hvenær Lúðvík Bergvinsson tók þátt í umræðum um flutning fjármuna úr Bakkavegi í jarðlagarannsóknir milli lands og Eyja á Alþingi. Hið rétta er að þingmenn suðurkjördæmis óskuðu eftir því við samgönguráðherra að hann tæki það til greina við endurskoðun samgönguáætlunar að færa allt að 60 milljóna fjárveitingu úr Bakkavegi í jarðlagarannsóknir. Í þá ósk þingmannanna tók ráðherra vel og hefur áætlað að taka málið upp við endurskoðun samgönguáætlunar á vorþingi. Það er lágmarkskrafa á þingmann sem vill láta taka sig alvarlega að hann þekki þetta verklag við úthlutun fjármuna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Í þessu ljósi er rétt að halda því til haga að í kjölfar óskar þingmanna suðurkjördæmis um að fjármunir verði færðir úr fyrirhuguðum framkvæmdum við Bakkaveg í rannsóknir á jarðlögum milli lands og Eyja fékk vegamálastjóri Birgi Jónsson, jarðverkfræðing, dósent í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands til að undirbúa rannsóknaráætlun fyrir verkið. Niðurstaða þeirrar vinnu mun leggja grunnin að því hvernig rannsóknir á jarðlögum verða unnar.

Í lok árs vildi ég koma þessum atriðum á framfæri í kjölfar þeirrar undarlegu umræðu sem fór af stað og er það mat mitt að tilteknir aðilar sjái sér hag í því að standa í ófriði við samgönguráðherra um samgöngur til Eyja. Hafi þeir aðilar ekkert betra að gera þá verður svo að vera.

Nú hefur samgönguráðherra orðið við óskum bæjarstjórnar Vestmannaeyja um að fjölga ferðum Herjólfs á meðan vetraráætlun er í gildi. Í mars 2003 skilaði nefnd sem samgönguráðherra skipaði af sér skýrslu um samgöngur til Vestmannaeyja. Í skýrslunni gerði starfshópurinn sex tillögur til úrbóta er varða samgöngur til Eyja. Skemmst er frá því að segja að öllum tillögunum hefur verið hrint í framkvæmd og reyndar hefur ferðum Herjólfs verið fjölgað meira en þar var lagt til.

Í ljósi þess að nú hefur verið boðin út bygging nýrrar flugstöðvar á Bakkaflugvelli, ferðum Herjólfs hefur fjölgað um 42%, eða úr 419 ferðum á ári, þegar Sturla Böðvarsson tók við sem samgönguráðherra í 595 á næsta ári, þá er mér til efs að jafn mikið hafi þokast í framfaraátt, er varðar samgöngur til Vestmannaeyja, í tíð nokkurs annars samgönguráðherra og Sturlu Böðvarssonar. Á sama tíma er unnið að metnaðarfullum rannsóknum í Bakkafjöru þar sem lagt er mat á hvort mögulegt er að byggja þar ferjulægi og sérfræðingar hafa verið fengnir til að meta kosti jarðganga til Eyja.

Að þessu sögðu vil ég óska öllum Eyjamönnum gleðilegs nýs árs og þakka samstarfið á því liðna.

Með kveðju,
Bergþór Ólason
Aðstoðarmaður samgönguráðherra