Samgönguráðherra hefur sent framkvæmdanefnd um einkavæðingu bréf í framhaldi af því að hinn 22. febrúar 2000 kynnti ráðherra fyrir ríkisstjórn minnisblað um undirbúning að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Efni bréfisins fer hér á eftir.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu
Arnarhvoli
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. febrúar 2000

Hinn 22. febrúar 2000 kynnti samgönguráðherra fyrir ríkisstjórn minnisblað um undirbúning að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Í minnisblaðinu er vitnað til ákvæðis stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að á kjörtímabilinu verði hafinn undirbúningur að sölu Landssíma Íslands hf.

Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna er framkvæmdanefnd um einkavæðingu hér með falið að gera tillögu um hvernig standa skuli að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. Ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, aðstoðarmaður samgönguráðherra og stjórnarformaður Landssíma Íslands hf. verða tengiliðir samgönguráðherra við nefndina.

Lögð er áhersla á að nefndin skoði eftirfarandi:
1. Að tryggja starfsfólki kauprétt á hlutafé í fyrirtækinu með hliðsjón af sambærilegum tilvikum við sölu annarra ríkisfyrirtækja.
2. Að ákveðinn hluti verði seldur í almennri dreifðri sölu og þá sérstaklega símnotendum.
3. Að kanna kosti og galla þess að selja umtalsverðan hlut í fyrirtækinu til eins aðila.
4. Að meta hagkvæmni þeirra hugmynda sem fram hafa komið um að skilja að einstaka þætti í starfsemi fyrirtækisins, svo sem hið almenna fjarskiptanet.

Þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir verður málið lagt fyrir ráðherranefnd um einkavæðingu.

Sturla Böðvarsson