Það má með sanni segja að fyrirhuguð Sundabraut mun opna höfuðborgarsvæðið til norðurs og stækka atvinnusvæði borgargarinnar í átt að Akranesi, Grundartangasvæðinu og upp í Borgarfjörð.

Langur aðdragandi og margar leiðir skoðaðar

Víða hefur verið rætt um fyrirhugaða Sundabraut að undanförnu og hefur ekki síst verið staldrað við væntanlega legu hennar, framkvæmdatíma og fjármögnun. Málið hefur verið  rætt á Alþingi og á fundi borgarstjórnar og þykir mér rétt í framhaldi af því að gera grein fyrir því hvernig málið raunverulega stendur frá sjónarhóli samgönguyfirvalda.

Rétt er að langt er síðan fyrst komst á dagskrá að leggja þyrfti Sundabraut, nýja leið milli Kjalarness og Reykjavíkur, leið sem tengja á höfuðborgarsvæðið betur við Vesturlandsveg. Sundabraut er samgöngubót sem jafna á umferðarálag að og frá borginni og hún er jafnframt öryggisleið ef vá er fyrir dyrum. Undirbúningur hófst við gerð brautarinnar á vettvangi borgar og Vegagerðarinna fyrir tíu árum.

Ýmsar leiðir hafa verið til umræðu um hvernig Sundabraut skuli liggja, ekki síst um Kleppsvík og hvernig hún skuli tengjast hverfunum beggja vegna sundanna, Grafarvogshverfi, Laugarneshverfi og Vogahverfi. Tvær leiðir hafa einkum verið til skoðunar, annars vegar hábrú á svokallaðri ytri leið og hins vegar lágbrú eða eyjalausn á innri leið. Þessar leiðir, ásamt þeirri þriðju, botngöngum, fóru í umhverfismat.
 
Ákvörðun um skipulag á valdi sveitarfélagsins

Í 29. gr. Vegalaga segir:Vegir skulu lagðir í samræmi við skipulag. Við gerð skipulags skal haft samráð við Vegagerðina um val á legu þjóðvega og tengingar við þá. Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun. Rísi ágreiningur um réttmæti slíkrar kröfu eða um fjárhæð skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.


Augljóst er að áður en til hönnunar og framkvæmda kemur verður að liggja ljóst fyrir hvar leggja skal Sundabraut og hvernig einstök hverfi tengjast henni. Vegagerðin leiðir undirbúning hönnunar enda kostar ríkið gerð þessa þjóðvegar sem Sundabrautin er. Það er hinsvegar á valdi sveitarfélagsins, Reykjavíkurborgar, að leiða skipulagsþáttinn og samráð við íbúa og taka  ákvörðun um legu stofnbrauta í aðalskipulagi. Undirbúningur Sundabrautar hófst fyrir tíu árum. Ekki liggur enn fyrir hvar Sundabrautin megi liggja um Kleppsvík. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, hefur ítrekað haldið því fram að málið hafi tafist vegna þess að enn sé óvissa um fulla fjármögnun verkefnisins. Hann virðist hins vegar sjálfur vera óviss um hvaða leið eigi að fara og hefur til dæmis varpað fram hugmynd um eina akrein í hvora átt. Síðan kemur hann með hugmynd um jarðgöng sem fyrsta kost í nýjum umhverfismatsferli. Hann hefur einnig verið þeirrar skoðunar að kjósa eigi um legu Sundabrautar. Varla verður það til að flýta framkvæmdum, miklu frekar verður það til þess að tefja málið enn um sinn. Það er ekki auðvelt að henda reiður á hvað formaður skipulagsráðs vill raunverulega. Borgarstjórnarmeirihlutinn er því aðeins að flýja undan því að taka ákvörðun um málið.

Jarðgangakostur var skoðaður

Á sínum tíma var jarðgangakosturinn kannaður mjög rækilega. Niðurstaðan varð sú í fullu samráði borgar og Vegagerðar að í umhverfismati yrði valið milli hábrúar, botnganga og eyjaleiðar.
Nú hefur komið fram innan samráðshópsins um legu Sundabrautar að ekki hafi verið nægur gaumur gefinn að jarðgangalausn við undirbúninginn. Ákvað hópurinn að láta fara aftur yfir tillögur um jarðgöng og kanna ýtarlegar en áður hvort aðrar útfærslur jarðganga gætu verið góð lausn. Nokkrar vikur munu líða áður en niðurstaða um málið liggur fyrir. Í þessu sambandi má minna á  að í úrskurði umhverfisráðherra um legu Sundabrautar var bent á að leita yrði samráðs við íbúa Reykjavíkur vegna framkvæmdarinnar. Það hafði Reykjavíkurborg ekki gert og því vaknar spurningin hvort borgaryfirvöld hefðu alls ekki ætlað að leita samráðs ef umhverfisráðherra hefði ekki farið fram á það. Slíkt formlegt samráð um skipulagið sem tengist Sundabraut hefði vitanlega átt að hafa farið fram fyrir löngu og því ekki þurft að tefja málið nú eins og formaður skipulagsráðs hefur kvartað yfir.

Sundabraut er viðamikið og fjárfrekt verkefni. Þar sem leiðin hefur ekki verið ákveðin liggur kostnaðurinn ekki ljós fyrir. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja til verkefnisins 8 milljörðum króna af söluandvirði Símans. Jafnframt hefur verið ákveðið að það sem á vantar við fjármögnun verkefnisins verði fengið með einkaframkvæmd. Fjármögnun Sundabrautar verður því tryggð og þetta hefur legið fyrir.

Til greina kemur að byrja að norðanverðu

Þar sem málið hefur tafist hef ég látið mér til hugar koma að kanna hvort hefja má lagningu Sundabrautar að norðanverðu, þ.e. að hefjast handa við framkvæmdir með breikkun vegarins á Kjalarnesi, milli syðri gangamunna Hvalfjarðarganga og þess staðar sem fyrirhugað er að Sundabraut þveri Kollafjörð. Sú framkvæmd mun auka bæði umferðaröryggi og afkastagetu vegarins.

Þessi framkvæmd kæmi þá inní endurskoðaða samgönguáætlun árana 2007 til 2010. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að verkið yrði unnið á fyrri hluta þessa tímabils. Þetta breytir hins vegar ekki því að samgönguyfirvöld bíða enn ákvörðunar Reykjavíkurborgar. Og raunar ekki aðeins samgönguyfirvöld heldur íbúar höfuðborgarinnar og þeir landsmenn allir sem eiga eftir að njóta þeirrar miklu samgöngubótar sem Sundabrautin verður.

Í lokin vil ég benda á að náist ekki samkomulag milli borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar um hvaða leið skuli farin kemur til kasta samgönguráðherra að skera úr um málið samkvæmt vegalögum svo sem að framan er vitnað til. Af þeim sökum hef ég ekki tjáð mig um hvaða kost ég tel æskilegastan en legg aðeins áherslu á legu Sundabrautar sem verður til hagsbóta og í sátt við íbúa.