Kynningarverkefninu Iceland Naturally var formlega hleypt af stokkunum í Frankfurt í Þýskalandi fimmtudaginn 28. september. Sturla Böðvarsson flutti ávarp við opnun jarðvísindasýningar þar sem Íslandi eru gerð skil í sérstakri deild. Sýningin fer síðan til fleiri borgar í Þýskalandi. Hér á eftir er ávarp ráðherra í heild:
Samskipti Þjóðverja og Íslendinga eiga sér langa sögu. Við getum byrjað á Marteini Lúther því það liðu ekki margir áratugir frá því hann hóf baráttu sína hér þar til siður hans var tekinn upp á Íslandi. Frá Þýskalandi komu líka Hansakaupmenn og löndin eiga því gamla sögu um viðskipti sín á milli. Þá hafa Íslendingar sótt hingað menntun á ýmsum sviðum. Síðustu áratugina hafa samskiptin ekki síst vaxið á öllum sviðum ferðaþjónustu.

Það er því vel til fundið að taka Ísland með í sýningu sem þessa. Jarðvísindi hafa löngum verið Íslendingum hugleikin vegna þess að þar er jarðskorpan vissulega á hreyfingu. Ég get minnt á nöfn eins og Heklu, Surtsey sem reis úr sæ og Vatnajökul sem dæmi um lifandi eldfjöll. Þá vil ég nefna Snæfellsjökul en ég ólst upp við rætur hans. Jules Verne notaði hann í sögu sinni sem ég drakk í mig á yngri árum. Ég vil þakka forráðamönnum Geoforschungszentrum og Senckenberg Museum fyrir að hafa haft forgöngu um að koma sýningunni í kring.

Náttúran ræður miklu um gjörðir okkar og hag. Hún ræður búsetu okkar og lífsskilyrðum. Þess vegna er mikilvægt að þekkja eðli hennar og vita um hugsanlegar hættur. Þar koma jarðfræðirannsóknir ekki síst til skjalanna og þannig er mikil þróun um þessar mundir í þekkingaröflun á því að geta spáð fyrir um jarðhræringar og eldgos. Þessar rannsóknir hjálpa okkur meðal annars á sviði áætlanagerðar á sviði samgöngumála. Við þurfum líka að vita hvaða áhrif mannvirki okkar hafa á náttúruna og hvort þau geti hreinlega breytt einhverju í hegðan þeirra.

Um leið og ég fanga sýningunni sem nú er opnuð leyfi ég mér að nota tækifærið og staldra aðeins við samskipti landa okkar á sviði ferðamála. Í báðum löndum hefur ferðaþjónustan kynnt viðskiptavinum sínum áhugaverða ferðakosti í hinu landinu. Erlendir ferðamenn sem til Íslands koma sækja helst í að upplifa hina sérstæðu náttúru og þar eru Þjóðverjar engin undantekning. Landið býður síbreytilega náttúru þar sem eldgos og jarðskjálftar, jöklar og ár, halda áfram landmótun sinni og ekki síður setur síbreytilegt veðrið sinn sérstaka svip á umhverfið hvar sem við förum.

Þýskaland verður sífellt mikilvægara markaðssvæði fyrir íslenska ferðaþjónustu enda hefur fjöldi þýskra ferðamanna til Íslands farið sívaxandi síðustu árin. Hátt í 40 þúsund Þjóðverjar hafa sótt Ísland heim ár hvert síðustu ár og eru þýskir ferðamenn í þriðja sæti á eftir Bandaríkjamönnum og Bretum.

Langflestir erlendir ferðamenn koma til Íslands með flugi. Milli Íslands og Þýskalands eru margir möguleikar á flugi. Yfir sumarið bjóða íslensk og þýsk flugfélög uppá ferðir frá alls fimm borgum í Þýskalandi. Í vetur sjáum við fram á að flugfélögin bjóði einnig nokkrar ferðir á viku.

Fyrir nokkrum árum hófst ný sókn Íslendinga á neytendamarkað í Bandaríkjunum undir slagorðinu Iceland Naturally. Markmiðið er að kynna íslenska vörur og þjónustu, ekki síst lambakjötið og mjólkurafurðir, en einnig landið í heild, hreinleika þess og ímynd.

Samgönguyfirvöld hafa lagt fjármagn í þetta kynningarstarf í fimm ár og nú er röðin komin að Evrópu. Verkefninu er nú formlega hleypt af stað hér í Þýskalandi og við bindum vonir við að með því að kynna Þjóðverjum Ísland enn frekar á þennan hátt muni þeir í auknum mæli velja: Island Natürlich.

Ég vil að lokum láta í ljósi þá ósk að þjóðir okkar haldi áfram vaxandi samskiptum sínum á sviði ferðamála, við getum boðið ykkur uppá áhugaverða náttúru og sögu lands okkar og til Þýskalands geta Íslendingar sótt menningu og fjölbreytta afþreyingu.