Samgönguráðherra var við opnun Höfuðborgarstofu í nýuppgerðu Geysishúsi síðdegis í gær, föstudag. Þar var jafnframt verið að opna Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík, en gerður hefur verið samningur milli Höfuðborgarstofu og Ferðamálaráðs um rekstur hennar sem ráðherra og borgarstjóri staðfestu sín á milli með handabandi. Jafnframt staðfestu þeir sín á milli samning Ferðamálaráðs og Höfuðborgarstofu um markaðs- og kynningarmál. Með þessum tveimur samningum er treyst samvinna á sviði ferðamála.
Upplýsingmiðstöðvar og gestastofur
Hlutverk upplýsingamiðstöðva er að auka gæði þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn og veita þeim þær upplýsingar sem þeir þarfnast til að auðvelda sér ferðalagið. Þær eru mikilvægar fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu um allan heim og einnig er mikilvægt að stuðlað sé að aukinni dreifingu þeirra um landið. Þannig njóta fleiri tekna af ferðamönnum og álagið á viðkvæma náttúru landsins dreifist.
Upplýsingamiðstöðvarnar eru á fjórða tug talsins, en rúmlega helmingurinn af þeim er aðeins opinn yfir sumarið. Einnig eru á fjölförnustu ferðamannstöðunum reknar svokallaðar gestastofur.
Ferðamálaráð hefur til ráðstöfunar af fjárlögum ákveðna upphæð til Ferðamálasamtaka Íslands og fer stór hluti þeirra til upplýsingamiðstöðva. Á árinu 2003 er þessi upphæð um 31 milljón króna. Auk þessarar beina fjárhagslega stuðnings er á vegum Ferðamálaráðs unninn upplýsingagagnagrunnur, bæði á rafrænu formi og prentaður, sem upplýsingamiðstöðvar nýta í sinni upplýsingagjöf. Stuðningur sveitarfélaga er einnig verulegur og á þar bæði við um beina fjárhagslega aðkomu og einnig stuðning í formi húsnæðis og vinnuafls.
Á undanförnum árum hefur bein aðild ríkis að þessum mikilvæga þætti verið að aukast. Ekki einungis hvað varðar upplýsingamiðstöðvar heldur hefur rekstur gestastofa verið fjárhagslega studdur. Gerðir hafa verið samningar um rekstur gestastofa og upplýsingamiðstöðva í Snorrastofu í Reykholti og í Geysistofu í Haukadal, en auk þeirra hafa verið gerðir samningar um rekstur upplýsingamiðstöðva víðs vegar um landið. Gestastofum er ætlað að veita almenningi og ferðamönnum á fjölförnum ferðamannastöðum víðtækari þjónustu og aðstöðu en er í boði hjá upplýsingamiðstöðvunum.
Veruleg breyting hefur orðið á samsetningu þess hóps ferðamanna sem heimsækir Ísland. Meirihluti hans kemur nú á eigin vegum til landsins og nýtir sér því þjónustu upplýsingamiðstöðva í vaxandi mæli. Þá eru enn fremur sífellt fleiri Íslendingar farnir að leita upplýsinga á upplýsingamiðstöðvum. Til að koma til móts við þessa þróun er það því stefna ferðaþjónustunnar að styrkja enn frekar upplýsingaþjónustu við ferðafólk um land allt og í því sambandi er nú mikil áhersla lögð á vinnslu og stöðuga uppfærslu rafræns upplýsingagrunns á vegum Ferðamálaráðs sem nýtist öllum. Stefnt er að því að upplýsingamiðstöðvar verði áfram efldar og að þeim verði lagðir til auknir fjármunir. Þá hefur verið gerður samningur við Reykjavíkurborg um rekstur Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Reykjavík og verður hún ein af þremur deildum nýstofnaðrar Höfuðborgarstofu.