Upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn eru mikilvægur hlekkur í íslenskri ferðaþjónustu og hafa lengi verið starfræktar um allt land. Margir muna eflaust eftir litla turninum á Lækjartorgi sem merktur var i-merkinu í bak og fyrir en þar rak Ferðaskrifstofa ríkisins – síðar Ferðaskrifstofa Íslands – öfluga upplýsingamiðstöð.
Allir eru sammála um að aðgengi að réttum upplýsingum um samgöngur, gistingu og afþreyingu ýmiss konar sé lykilatriði í að fólk geti ferðast öruggt og áhyggjulaust um landið. Það er bjargföst trú ferðamálayfirvalda að þetta sé hluti af þeirri ímynd sem íslensk ferðaþjónusta vill byggja upp og styrkja.
Í dag eru starfandi á fimmta tug upplýsingamiðstöðva um allt land en opnunartími þeirra og starfsemi er gríðarlega mismunandi. Ferðamálaráð styrkir svokallaðar móðurstöðvar en það eru þær stöðvar sem hagsmunaaðilar í hverjum landshluta hafa sameinast um að gegni lykilhlutverki, ekki síst vegna nálægðar við helstu samgönguæðar. Þessar stöðvar eru í Reykjanesbæ. Borgarnesi, Ísafirði, Blönduósi, Varmahlíð, Akureyri, Egilsstöðum, Höfn og Hveragerði. Fjölmargar minni stöðvar eru síðan settar á laggirnar yfir háannatímann. Samgönguráðuneytið styrkir einnig allar þessar stöðvar tímabundið og er það hluti af samstarfi við iðnaðarráðuneytið um uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Í athyglisverði grein Ólafs Sveins Jóhannessonar í Morgunblaðinu 3. janúar s.l. um mikilvægi ferðamálafulltrúa og upplýsingamiðstöðva lýsir hann áhyggjum sínum af því að aðeins ein upplýsingamiðstöð sé rekin á svæði Vesturbyggðar. Talar Ólafur Sveinn um nauðsyn þess að skipuleggja upplýsingamiðstöðvar á svæðinu frá grunni. Undir þetta get ég tekið og tel því eðlilegt að fulltrúar sveitarstjórnar og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á svæðinu leiti ráðgjafar hjá Ferðamálaráði um hvernig best sé að haga þessari upplýsingagjöf. Þó að opinbert fé til stöðvanna hafi stóraukist á undanförnum árum er útilokað að hægt sé að reka þeir nema með myndarlegri aðkomu sveitarstjórna og fyrirtækja sem hagsmuna eiga að gæta þegar ferðaþjónusta er annars vegar. Þessi fyrirtæki eru fjölmörg enda á ferðamaðurinn oftast viðskipti við nákvæmlega sömu aðila og við landsmenn; bensínstöðvar, matvörubúðir og bifreiðaverkstæði. Ferðamaðurinn kaupir útivistarvörur, bækur og minjagripi.
Ég ítreka áhuga ferðamálayfirvalda á uppbyggingu sterkra upplýsingamiðstöðva á landsvísu en til þess að svo megi verða er sameiginlegur skilningur á hlutverki þeirra og mikilvægi nauðsynlegur.
Mig langar til að þakka Ólafi Sveini Jóhannessyni fyrir að koma málefnum upplýsingamiðstöðva svo skilmerkilega á framfæri og benda réttilega á þá staði sem ferðamenn þurfa upplýsingar. Það verður að tryggja aðgang ferðafólks að réttum og fagmannlega fram settum upplýsingum sem víðast um landið.