Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Osló fyrir stuttu var fjallað um stefnumörkun norðurlandaþjóðanna á sviði upplýsingatækni, og þá helst um útbreiðslu breiðbands. Á fundinum gerði ég grein fyrir stöðu mála hér á landi og þeirri stefnu sem ég hef fylgt sem ráðherra fjarskiptamála, það er að tryggja örugg, ódýr og aðgengileg fjarskipti fyrir alla.
Á fundinum kom glöggt fram að við Íslendingar erum framarlega á sviði upplýsingatæknimála. Við höfum verið á réttri leið, en mikils er um vert að uppbyggingu fjarskiptakerfisins um land allt verði haldið áfram með þarfir landsmanna allra í huga, um greiðan aðgang að öruggum og traustum fjarskiptum.

Breiðbandsþjónusta um allt land

Atvinnufyrirtæki, menntastofnanir og heimilin í landinu eiga stöðugt meira undir góðri flutningsgetu fjarskiptakerfanna. Okkur hefur miðað vel eftir að nýju fjarskiptalögin skylduðu símafyrirtækin að veita öllum þeim, sem þess óska að lágmarki ISDN. Lækkun kostnaðar við gagnaflutninga skipti einnig miklu máli, en með samningi milli samgönguráðuneytis og Símans var stigið mikilvægt skref í átt að jöfnun gagnaflutningskostnaðar um landi allt.

Næstu skref, sem stefna ber að, er að tryggja Breiðband um land allt, sem gefur öllum færi á 2Mb/s tengingu. Uppbygging þessarar þjónustu verður jafnframt að miðast við að sami kostnaður verði við gagnaflutninga, óháð vegalengd. Þar mun tæknin hjálpa okkur, svo og þeir hagsmunir fjarskiptafyrirækjanna að nýta sem best fjárfestinguna sem þegar er fyrir hendi í ljósleiðurum og búnaði. Breiðbandsþjónusta um land allt er stefnumörkun sem mun verða einhver sú mikilvægasta byggðaaðgerð sem við getum ráðist í.

Stafrænt sjónvarp

Á vegum samgönguráðuneytisins er unnið að samkomulagi um uppbyggingu á einu dreifikerfi fyrir stafræna útsendingu allra sjónvarpsstöðva landsins. Myndaður hefur verið vinnuhópur undir forystu ráðuneytisins til að leiða saman hagsmunaaðila. Stefnt er að útboði kerfisins strax á næsta ári. Með því yrði stigið mikilvægt skref á sviði upplýsingasamfélagsins, með t.d. gagnvirku sjónvarpi og ýmsum möguleikum fyrir notendur. Þessar hugmyndir mínar byggja á því að tryggja hverjum notanda sem einfaldastan aðgang að dreifikerfi sem getur flutt honum allar þær sjónvarpsstöðvar sem hann kýs að vera áskrifandi að. Með breiðbandi til allra og stafrænu sjónvarpi er stefna mín sú að við verðum í fremstu röð á sviði upplýsingatækni og þar með hvað varðar möguleika til fjarnáms og gagnaflutninga í þágu aukinnar velmegunar og framþróunar.