Nú stendur yfir utandagskrárumræða á Alþingi um reglur og notkun flugvélar Flugmálastjórnar. Ræða ráðherra fer hér á eftir.
08. nóvember 2001:
Utandagskrárumræða um reglur og notkun flugvélar Flugmálastjórnar.

Hæstvirtur forseti,
hér er að nýju efnt til umræðu um notkun ráðherra og ráðuneyta á flugvél Flugmálastjórnar. Umræðan sem þingmaðurinn hefur efnt til – og endurtekið – hefur borið öll einkenni þess að hann gerir eðlilega notkun flugvélar Flugmálstjórnar tortryggilega.

Flugvél Flugmálastjórnar er fyrst og fremst rekin til að sinna verkefnum stofnunarinnar, svo sem flugprófunum, flutningi á starfsmönnum og leitar- og björgunarflugi. Jafnframt er stofnuninni ætlað að sinna ýmsum verkefnum fyrir aðra opinbera aðila í samræmi við fyrirmæli samgönguráðherra.

Í skýrum og einföldum viðmiðunarreglum fyrir útleigu á flugvél Flugmálastjórnar eru helstu verkefni flugstarfseminnar skilgreind og jafnframt tilgreint hverjum Flugmálastjórn veitir slíka þjónustu. Meðal þeirra verkefna er að flytja æðstu embættismenn þjóðarinnar, þegar þess er óskað.
Aðrir opinberir aðilar sem geta fengið afnot af flugvél Flugmálastjórnar eru:
Stofnanir samgönguráðuneytisins
Landhelgisgæzlan
Almannavarnir ríkisins
Ratstjárstofnun,
og loks aðrir aðilar samkvæmt ákvörðun flugmálastjóra.

Flugmálastjórn leggur áherslu á að hún er ekki í samkeppni við flugrekendur um verkefni á almennum markaði heldur sinnir aðeins vel skilgreindum verkefnum fyrir opinbera aðila.

Herra forseti.
Samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru þá er gert ráð fyrir því sem einu af verkefnum flugvélar Flugmálstjórnar að flytja æðstu embættismenn þjóðarinnar – þegar þess er óskað og hægt er að verða við því. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir þessu verkefni.
Það fer ekki á milli mála að það er hagkvæmt fyrir ríkið að nýta flugvélina í þágu ráðuneytanna þegar þörf er á og hún er ekki að sinna öðrum verkefnum.
Ég tel að það séu ekki miklar fréttir fyrir þingmenn að tími ráðherra er oft knappur til þeirra mörgu verkefna sem þeim er ætlað vítt og breytt um landið. Þá skiptir verulega miklu máli að velja ferðamáta sem sparar tíma og auðveldar ráðherrum að gegna störfum sínum.

Flugið skapar möguleika á því að fara um landið og sinna erindum og verða við óskum að mæta á mannamót – sem er jú hluti af skyldustörfum ráðherra. Að þingmaðurinn skuli hafa leyft sér að tala um þægindaflug ráðherra, líkt og hann hefur látið hafa eftir sér, er óskiljanleg afstaða til verkefna ráðherra og starfsaðstöðu þeirra.

Þingmaðurinn hefur einkum beint spjótum sínum að notkun ráðherra á vélinni. Þess er að geta að á árunum 1998-2001 er notkun ráðuneytanna einungis 12% af flugtíma vélarinnar sem er flogið um 550 tíma á ári.

Þingmaðurinn leggur sig allan fram við að gera notkun ráðherra á vélinni tortryggilega Hann virðist vanmeta hagkvæmni þess að nýta flugið og halda að tími ráðherra sé lítils virði og því óþarfi að nýta flugvélina þegar það er hægt. Það er undarleg þráhyggja þingmannsins að reyna að gera störf samgönguráðherra tortryggileg með því að höfða til þeirra gamaldags viðhorfa að flugferðir hljóti að vera munaður.
Ráðherrar hér á landi hafa mikil samskipti við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir sem koma að þeim málaflokkum sem undir þá heyra. Miklu skiptir að ráðherra geti nýtt tíma sinn sem allra best og haldið góðu sambandi við fólkið í landinu. Það er augljóst að ráðherra samgöngumála þarf öðrum fremur að sinna málum utan höfuðborgarsvæðisins. Tímafrek ferðalög skerða möguleikann á slíku og því er nauðsynlegt að stytta ferðatímann sem mest. Oft er það gert með áætlunarflugi eða með því að nýta flugvél Flugmálstjórnar þegar áætlunarflug nýtist ekki sem skyldi og notkun flugvélar Flugmálstjórnar talin hagkvæm. Þetta eru svo augljós og einföld sannindi að vart þarf að ræða þau.

Sú umræða sem þingmaðurinn hefur komið hér af stað ber því vott um að hann velur að rangtúlka hlutina vegna þess að slíkt hentar honum betur. Hann gerir það í skjóli þess að hann sé að sinna eftirlitshlutverki. Með þessum málflutningi ýtir þingmaðurinn undir fordóma gagnvart stjórnmálamönnum en lýsir umfram allt málefnafátækt Samfylkingarinnar.

Málshefjandi gerði grein fyrir áliti sem lögfræðingur hjá Ríkisendurskoðun hefur sett fram um að ef lagaboð eru túlkuð rúmt verði að telja líklegra en hitt að Flugmálastjórn skuli varðveita farþegalista og leggja inn meðal gersema Þjóðskjalasafnsins. Vegna þessa álits – sem raunar er umdeilt meðal lögfræðinga – tel ég eðlilegt að Flugmálastjóri fari yfir málið með þjóðskjalaverði. Samgönguráðuneytið mun auðvitað, hér eftir sem hingað til, fara að þeim reglum um meðferð bókhaldsgagna, sem Ríkisendurskoðun setur hverju sinni.

Ég vil að lokum geta þess að í samgönguráðuneytinu er í smíðum reglugerð um mannflutninga í loftförum. Þar verða m.a. settar reglur um varðveislu farþegalista í atvinnuflutningum í flugi. Þó er rétt að taka fram að sú reglugerð hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma og er setning hennar á engan hátt tengd þessari umræðu.