Hér á eftir fer ræða samgönguráðherra við utandagskrárumræður um sölu Landssíma Íslands hf. á Alþingi í gær 30.janúar 2002.

Herra forseti,

vegna þeirrar umræðu, sem hér fer fram í dag, utan dagskrár um sölu Landssíma Íslands hf., vil ég í stuttu máli rifja upp helstu staðreyndir málsins.

Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands 19. maí á síðasta ári.

Salan Símans er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda beri áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru á samkeppnismarkaði.
Með gildandi fjarskiptalögum, sem ég beitti mér fyrir og tóku gildi 1. janúar 2000, voru sköpuð skilyrði fyrir raunverulegri samkeppni í fjarskiptum á Íslandi – samkeppni sem er nú orðin að veruleika.
Þess vegna segi ég nú, líkt og ég gerði við umræðuna um sölu Símans hér í þinginu í fyrravor, það er ekki aðeins eðlilegt heldur beinlínis nauðsynlegt, að ríkið gefi einstaklingum og félögum færi á að eignast hlut í Símanum og verða þátttakendur í því að starfa á fjarskipta markaði .

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur unnið að sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og ráðherranefndar um einkavæðingu. Ákveðið var að salan færi fram í áföngum, en þannig er auðvelt að bregðast við stöðu á markaði eins og raun hefur orðið. Það er öllum ljóst að þróunin á hlutabréfamarkaði hefur orðið önnur en vænst var þegar söluferlið hófst.

Rík áhersla var lögð á að í fyrsta áfanga yrði selt í áskrift til almennings, ákveðinn hlutur boðinn starfsmönnum til kaups, og að ákveðinn hlutur yrði seldur í tilboðssölu.

Í öðrum áfanga var ákveðin sala til kjölfestufjárfestis, þar sem heimilt var að gera tilboð í 25% heildarhlutafjár. Jafnframt verður honum veittur kaupréttur að 10% heildarhlutafjár.

Á grundvelli verðmats PriceWaterhouseCoopers á Landssíma Íslands hf. var ákveðið að gengi í almennri áskriftarsölu og sölu til starfsmanna yrði 5,75 sem jafnframt var lágmarksgengi í tilboðssölu.

Almenn áskriftarsala og tilboðssala fór fram dagana 19.-21. september 2001. Tæplega 2.000 einstaklingar skráðu sig fyrir hlut í fyrirtækinu og rúmlega 600 starfsmenn. Þá bárust nítján tilboð í tilboðssölunni.

Annar áfangi einkavæðingar Landssíma Íslands hófst sl. sumar. Alls bárust yfirlýsingar frá 17 fjárfestum, sem lýstu sig tilbúna til þess að gera tilboð í 25% hlut. Tilboð bárust frá 7 bjóðendum, sem voru samþykktir. Á meðal þeirra eru sum af öflugustu síma- og fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu.

Þann 7. desember 2001 rann út frestur til að skila inn bindandi tilboði í Landssíma Íslands hf.
Þrír aðilar voru valdir til að taka þátt í þessum síðasta hluta söluferilsins. Tvo tilboð bárust, frá TDC í Danmörku og bandaríska fjárfestingarsjóðnum Providence.

Frá því tilboðin bárust hefur verið farið yfir innihald þeirra í samráði við ráðgjafa einkavæðingarnefndar. Ákveðið var að ganga til viðræðna við TDC. Þær viðræður standa nú yfir og er ekki hægt að greina frekar frá þeim að svo komnu máli.

Varðandi þá spurningu þingmannsins, að hvaða marki íslensk stjórnvöld geti gefið skuldbindingar um að gjaldskrár fyrirtækisins hækki ekki, er það eitt að segja að á þessum markaði ríkir samkeppni, frjáls samkeppni, þar sem einn lykillinn að árangri er að bjóða þjónustu á betra verði en samkeppnisaðilinn. Landssími Íslands hefur sýnt það í gegnum árin, m.a. í opinberum samanburði á milli OECD ríkjanna, að verðlagningu hans hefur verið í hóf stillt. Fjarskiptaþjónusta hér á landi hefur verið tiltölulega ódýr og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram. Ég vil af þessu tilefni árétta, að Landssími Íslands er í dag á samkeppnismarkaði, og þó svo að kjölfestufjárfestir komi að fyrirtækinu verður fyrirtækið að semja sig að þeim reglum sem samkeppnislögin setja.

Og það er hlutverk samkeppnisyfirvalda og Fjarskiptastofnunar að sjá til þess að eðlilegar samkeppnisreglur verði í heiðri hafðar.

Síminn er traust og öflugt fyrirtæki sem veitir þjónustu um allt land – og mun að sjálfsögðu halda áfram að gera það þó hluthöfum í honum fjölgi frá því sem nú er. Starfsleyfið, sem er gefið út með ströngum skilyrðum um þjónustu, og hin framsækna fjarskiptalöggjöf munu tryggja hagsmuni símnotenda á Íslandi.

Auk þess verður að gera ráð fyrir að hið umtalaða fyrirtæki Lína Net muni tryggja hagsmuni símnotenda í landinu með öflugri samkeppni og þjónustu. Ég geri ekki ráð fyrir að starfsemi Línu Nets hafi farið framhjá þingmönnum Vinstri Grænna, sem nú standa í einkavæðingu Perlunnar og hafa einkavætt félagsíbúðakerfið í borginni.

Þingmaðurinn gerir tilraun til þess að draga kjarkinn úr ríkisstjórninni og fullyrðir að mikil andstaða sé við sölu hlutabréfa Símans og það eigi að hætta við – gefast upp.
Enda þótt að um stund blási á móti í einkavæðingunni munum við halda okkar striki þrátt fyrir nöldur stjórnarandstöðunnar.

Ríkisstjórnin gaf almenningi færi á að kaupa hlut í Símanum á hagstæðum kjörum sem á þriðja þúsund manns notfærðu sér.

Aðal ástæður þess að hægt hefur gengið að selja ráðandi hlut í Símanum er að Einkavæðingarnefndin hefur viljað vanda það verk og tryggja hagsmuni ríkisins. Ég vænti þess að stjórnarandstaðan geti verið sátt við þau vinnubrögð.

Að lokum vil ég minna á að síma og internet notkun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í veröldinni. Ástæður eru lágt verð og mikil útbreiðsla. Það skapar okkur mikilvægt forskot til vaxtar og framþróunar.