Samgönguráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í dag minnisblað um útboð á dýpkun á Þórshöfn og Raufarhöfn
Í samræmi við Hafnaáætlun og samkvæmt óskum sveitarstjórna Þórshafnar og Raufarhafnarhrepps hefur verið unnið að undirbúningi og rannsóknum vegna fyrirhugaðra hafnaframkvæmda. Gert hefur verið ráð fyrir því að bjóða sameiginlega út framkvæmdir við dýpkun á Þórshöfn og á Raufarhöfn og ná þannig fram verulegri hagkvæmni. Í fjárlögum á þessu ári eru ætlaðar 8,7 mkr. til hafnaframkvæmda á Raufarhöfn og 117,8 mkr. á Þórshöfn. Verulegum fjárhæðum verður varið til framkvæmda í þessum höfnum á árunum 2003 og 2004 samkvæmt hafnaáætlun.
Bæði á Þórshöfn og Raufarhöfn er loðnuvinnsla undirstaða atvinnulífsins. Vegna stærðar og djúpristu loðnuskipa er nú svo komið að dýpi í innsiglingu og aðstaða í höfnunum kemur í veg fyrir að loðnuskipin geti landað afla í þessum höfnum án þess að taka verulega áhættu.
Með hliðsjón af slæmri stöðu þessara byggðalaga er hér með lagt til að ríkisstjórnin heimili að bjóða út þessar framkvæmdir sem fyrst. Gera má ráð fyrir að hægt verði að ljúka 2/3 framkvæmda á Þórshöfn á þessu ári og öllum framkvæmdum á Raufarhöfn.