Nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarna daga um útboðsmál hins opinbera. Nú síðast blandaði formaður Samfylkingarinnar sér í þá umræðu, með þannig málflutningi að nauðsynlegt er að koma undirstöðuatriðum málsins á hreint.
Formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarpéðinsson, hefur talið ástæðu til þess að koma borgarstjóranum í Reykjavík til hjálpar vegna deilunnar um útboð á gagnaflutningi fyrir grunnskóla borgarinnar. Með aðstoð vina sinna á DV gerir hann tilraun til þess að koma því inn hjá fólki að ég sé á móti útboði á þjónustu símafyrirtækja. Sá málflutningur er all undarlegur þó ekki sé meira sagt. Í viðtali við DV vakti ég athygli á því að almenn símaþjónusta er ódýr hér á landi. Ég sagði einnig að ekki séu sérstakar aðgerðir í gangi um útboð á vegum ríkisins umfram það sem útboðsreglur ríkisins gera ráð fyrir. Með engum hætti er hægt að túlka það sem andstöðu við útboð. Ég hef einnig vakið athygli á því að Íslandspóstur hf. hefur boðið út sína þjónustu og hlaut Íslandssími þau viðskipti. Undirritaður er handhafi hlutabréfsins í Íslandspósti hf. Ég hef sagt í fjölmiðlum að hver stofnun ríkisins geti leitað hagstæðustu viðskipta vegna fjarskiptaþjónustu enda eru viðskipti í fjarskiptum frjáls og komin samkeppni á fjarskiptamarkaði. Öllum má ljóst vera að samgönguráðherra sem hefur hafið undirbúning að sölu Landsímans hlýtur að gera sér grein fyrir því að viðskipti ríkisins vegna síma og fjarskiptaþjónustu verða ekki einskorðuð við eitt fyrirtæki í framtíðinni. Auðvitað hlýtur ríkið að gera samninga um fjarskiptaþjónustu í framtíðinni á grundvelli útboða. Þetta vil ég að komi fram vegna undarlegra yfirlýsinga formanns Samfylkingarinnar um að hann muni beita sér fyrir því á Alþingi að öll fjarskiptaþjónusta verði boðin út vegna þess að ég sé á móti því!

Það er vissulega ánægjulegt að komin skuli á samkeppni í símaþjónustunni. Það er forsendan fyrir því að nýja fjarskiptalöggjöfin sem ég mælti fyrir á Alþingi virki og nái tilgangi sínum. Í dag keppast símafyrirtækin við að bjóða þjónustu sína í GSM kerfinu sem víðst um landið. Í fastlínukerfinu og gagnaflutningum er samkeppnin hinsvegar nær eingöngu á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að einungis Landssíminn stundar þessa þjónustu utan höfuðborgarinnar. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar getur þess ekki hvernig hann ætlar að tryggja samkeppni milli bjóðenda á landsbyggðinni þar sem Landssíminn er einn um að veita þjónustuna. Lína.Net hefur ekki enn sem komið er lagt sína ljósleiðara utan höfuðborgarmarkanna. Samkvæmt fjarskiptalögum skulu símafyrirtæki hafa eina gjaldskrá á öllu landinu fyrir svokallaða alþjónustu sem er hin almenna símaþjónusta, þar á meðal ISDN þjónustan.

Það er von mín að áður en langt um líður geti skapast samkeppni um alla fjarskiptaþjonustu um allt land. Þannig verði á grundvelli alþjónustu og með útboðum hægt að leita hagkvæmustu leiða fyrir notendur á landsbyggðinni jafnt sem á höfuðborgarsvæðinu. Ég geri þá kröfu til formans Samfylkingarinnar að hann telji þörf á hagkvæmum viðskiptum víðar í landinu en einungis umhverfis Austurvöllinn.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa af óskiljanlegum ástæðum lagt sig fram um að vinna gegn Landsímanum hf., sem er í eigu þjóðarinnar. Þeim hefur borist liðsauki þar sem er borgarstjórinn í Reykjavík. Þessir sömu aðilar munu væntanlega gera ríkar kröfur um verðgildi fyrirtækisins ef til sölu kemur. Formaður Samfylkingarinnar og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans er ekki trúverðugur talsmaður frjálsrar samkeppni. Hann ætti að láta það vera að ætla mig sig í þessum efnum.