Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti ráðherra tímaramma útboðs vegna jarðganga milli Reyðarfjarðar – Fáskrúðsfjarðar og Siglufjarðar – Ólafsfjarðar.
Í samræmi við vegáætlun hefur verið unnið að undirbúningi útboðs á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Gert er ráð fyrir að útboðsferillinn í heild sinni sé rúmir sex mánuðir og gæti hafist um miðjan desember.
Úrskurðir Skipulagsstofnunar vegna beggja jarðganga lágu fyrir 17. október s.l., en undanfarna mánuði hefur verið unnið að rannsóknum og undirbúningi.
Kærufrestur vegna úrskurða Skipulagsstofnunar er fjórar vikur. Kærufrestur vegna ganganna fyrir austan rennur út 21. nóvember en 23. nóvember vegna ganganna fyrir norðan. Verði úrskurðir Skipulagsstofnunar kærðir hefur ráðherra átta vikur til að úrskurða.
Útboðsferlið yrði í grófum dráttum sem hér segir:
Fortilkynning á Evrópska efnahagssvæðinu, 17. des.- 10. feb.
Forval verktaka, 4. mars – 15. apríl. Þessi liður gæti hugsanlega hafist fyrr og stytt ferlið sem því næmi. Þó myndi það vart flýta opnun tilboða, sem er háð vettvangsskoðun (sjá hér á eftir).
Opnun forvals, 15. apríl.
Val verktaka í útboð, 15. apríl – 13. maí.
Útboð með vettvangsskoðun, 14. maí – 24. júní. Í útboðum af þessu tagi er hefð fyrir því að kynna bjóðendum aðstæður á vettvangi. Reynsla sýnir að óráðlegt er að reikna með að það verði hægt t.d. í Héðinsfirði, fyrr en um miðjan maí. Því er allt ferlið á undan og eftir háð þeirri tímasetningu.
Opnun tilboða, 24. júní.
Undirbúningur samninga, 25. júní – 8. ágúst.
Undirritun samninga, 8. ágúst.
Eftir að samningar hafa verið undirritaðir, er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist fljótlega í kjölfar þess. Rétt er þó að árétta að þessi tímarammi getur breyst og framkvæmdir hafist eitthvað fyrr. Aðalatriðið er að undirbúningsframkvæmdir verði það snemma á ferðinni að sjálfur gangagröfturinn geti hafist áður en vetur leggst að. Það á að vera tryggt miðað við framangreindar tímasetningar.