Höfundur Staksteina Morgunblaðsins veltir fyrir sér í blaðinu 18.2. s.l. hvers vegna samgönguráðherra hafi ekki leitað heimilda með lögum frá Alþingi til að selja útvarps- og sjónvarpsrásir fremur en að þeim verði úthlutað með útboði.

Og höfundur Staksteina spyr: ,,En ef tíðnir til útsendinga eru ekki takmarkandi þáttur, hvers vegna er UHF-tíðnisviðið þá svona ,,umsetið“? Hvers vegna er þá yfirleitt nokkur þörf fyrir útboð, hvort sem það er fegurðarsamkeppni eða gengur út á að rásirnar falli í skaut hæstbjóðenda? Ef eftirspurnin eftir rásum er meiri en framboðið, er þá ekki augljóslega um takmörkuð gæði að ræða, sem eðlilegt er að borgað sé fyrir? Hefði samgönguráðherra ekki átt að beita sér fyrir lagasetningu um slíkt?“

Svo mörg voru þau orð. Vegna þessara skrifa Staksteina, sem er víðlesinn þáttur í blaðinu vil ég gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Það hefur legið fyrir lengi að afstaða mín og Morgunblaðsins hefur verið ólík til gjaldtöku vegna úthlutunar fjarskiptatíðna. Það hefur komið fram í tengslum við lagasetningu um úthlutun þriðju kynslóð farsíma. Morgunblaðið hefur viljað selja rásirnar hæstbjóðendum en ég hef viljað fara leið ,,fegurðarsamkeppni“ sem byggir á því að úthluta ákveðnum fjölda tíðna, gera ríka kröfu til útbreiðslu um landið og láta félögin keppa um að bjóða sem hraðasta og mesta útbreiðslu. Hvað varðar úthlutun leyfa til að starfrækja svokallaða þriðju kynslóð farsíma er rétt að minna á að fyrir þau leyfi er símafyrirtækjunum gert að greiða umtalsvert gjald en veittur afsláttur með aukinni dreifingu. Reynsla nágranna þjóða okkar af uppboðum á þessum leyfum er vægast sagt döpur og hefur sett símafyrirtæki í mikinn vanda þegar verðið var spennt upp.
 

Almennt um útboð UHF


Fyrir liggur að Póst- og fjarskiptastofnun er að undirbúa útboð á UHF tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp. Í þessum áfanga útboðsins verða boðnar út 10 UHF tíðnir sem hver rúmar allt að fimm dagskrár. Hverjum umsækjanda verður aðeins heimilt að bjóða í 2 tíðnir.
Útboðið gerir ráð fyrir að hver bjóðandi, sem fær úthlutað tíðni, byggi upp stafrænt dreifikerfi á landsvísu. Útsendingar dreifikerfisins eiga að ná til 40 sveitarfélaga innan eins árs og til 98% (á einni rás) landsmanna eftir tvö ár. Í 7. grein fjarskiptalag stendur „Einnig má úthluta réttindum fyrir notkun tíðna til útvarpsstöðva að lokinni opinni og gegnsærri málsmeðferð án mismununar, enda þjóni slík úthlutun markmiðum stjórnvalda.“ Það er einmitt markmið stjórnvalda að sem flestir landsmenn fái notið stafræns sjónvarps. Því er lögð áhersla á útbreiðslu í útboði þessu í stað almennrar gjaldtöku.
 

Samanburðarútboð


Við úthlutun verður valin sú leið að nota samanburðarútboð (fegurðarsamkeppni). Í því fellst að þeir, sem uppfylla skilyrði útboðsins og m.a. um uppbyggingarhraða, fá úthlutað tíðnum. Ef margir sækja um sömu tíðni verður m.a. litið til uppbyggingarhraða við úthlutun. Þeir, sem bjóða best í hraða uppbyggingar og útbreiðslu, fá úthlutun.
 
 

UHF er ekki umsetið hér á landi til sjónvarpsútsendinga.


Á UHF tíðnisviðinu eru alls 49 tíðnir ætlaðar fyrir dreifingu sjónvarps og til dreifingar stafræns sjónvarps í framtíðinni. Af þessum tíðnum eru nú 34 í notkun vegna hliðrænna sendinga sjónvarps eða annarra nota. Af þeim 15 tíðnum sem eru lausar er, eins og áður sagði, gert ráð fyrir að bjóða tíu rásir út á næstunni. Það ber að hafa í huga að þessar tíðnir eru mis ,,góðar“ þ.e. að aðrar tíðnir, beggja vegna við þá tíðni sem úthlutað er, getur haft áhrif á uppbyggingu dreifikerfisins. Þá bíður stafræn tækni, ólíkt hinni hliðrænu, upp á dreifingu um allt land á einni tíðni, sem dregur úr eftirspurn fyrir tíðnir til að stoppa í göt í dreifingu eins og nú er. Stafræn tækni bíður upp á að allt að fimm dagskrár verði sendar út á hverri tíðni, þar sem ein dagskrá er í dag. Þannig munu á næstu árum losna fjöldi tíðna sem nú eru í hliðrænni notkun. Ljóst er að þegar fram í sækir verður framboð nægt hér á landi, ólíkt því sem er erlendis þar sem tíðnir eru mjög umsetnar.

Ekki innheimt gjald vegna tíðna


Eins og áður sagði eru 15 rásir lausar og þar af 10 boðnar út nú. Auk þess munu á þriðja tug tíðna losna á næstu árum. Samkvæmt heimildatilskipun ESB nr. 2002/20/EB um gjöld sem innheimt eru af fjarskiptafyrirtækjum er meginreglan sú að gjöldin eigi aðeins að standa straum af nauðsynlegum stjórnsýslukostnaði sem tengist almennum heimildum og sérstökum réttindum fjarskiptafyrirtækja eða til að tryggja besta notkun á þessum auðlindum.
Undantekning er heimiluð þegar um er að ræða takmarkaða auðlind og er þá heimilt að taka sérstakt gjald fyrir afnot af tíðnum. Við gjaldtöku skal gæta jafnræðis milli rétthafa og taka tillit til sjónarmiða varðandi samkeppni og þróun þjónustu. Þar sem ekki er um takmarkaða auðlind hér á landi að ræða þá er ekki innheimt gjald vegna þessa. Það er mitt mat að ekki séu tilefni til þess að auka kostnað við fjarskipta- og sjónvarpsrekstur. Há leyfisgjöld með uppboði sjónvarps- og útvarpsrása munu koma beint úr vasa neytenda án þess að tryggð verði útbreiðsla og því get ég ekki mælt með þeirri leið.

Í þágu allra landsmanna


Sú aðferð sem ég hef lagt áherslu á er til þess að auðvelda og tryggja dreifingu um landið allt. Það ætti ekki að koma lesendum á óvart. Það er í samræmi við þá stefnu sem ég hef haft sem samgönguráðherra. Við eigum að stuðla að eflingu byggðanna m.a. með því að bæta búsetu skilyrðin t.d. með betri aðgangi íbúa landsbyggðarinnar að fjarskiptum. Í þeim tilgangi var sett í fjarskiptalög það ákvæði að markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki hefði þá skyldu að tryggja lágmarks bitahraða í gagnaflutningum. Það ákvæði leiddi til þess að ADSL-væðingin var innleidd mun hraðar á landsbyggðinni en nokkurn óraði fyrir. Sú framvinda hefur nú tryggt Símanum möguleika á því að veita aðgang að gagnaveitum á borð við Skjá 1 um koparheimtaugarnar með ADSL tengingum.
Þessi framvinda hefði vart orðið ef ríkisstjórnin hefði staðið fyrir sérstakri skattlagningu fjarskiptanna eins og þeir vilja sem leggja til uppboðsleiðina. Og það er ekki líklegt að okkur tækist að byggja þessi kerfi upp um landið allt og koma á samkeppni sem er nauðsynleg í þágu neytenda ef úrhlutun fjarskiptarása væri notuð sem sérstök tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð.