Þann 28. júní opnaði samgönguráðherra Vaktstöð siglinga í glæsilegum húsakynnum í Skógarhlíð. Við það tækifæri flutti ráðherrann eftirfarandi ræðu:
Ágætu gestir,
Með nýjum lögum um Vaktstöð siglinga, sem sett voru á síðasta ári var lagður grunnur að þeim tímamótum sem við stöndum á í dag.
Markmið þessara laga er að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Til að ná þessu markmiði var Siglingastofnun Íslands falið að setja á fót vaktstöð siglinga, sem vera ætti miðstöð upplýsinga fyrir siglingar í íslenskri efnahagslögsögu.
Með samkomulagi samgönguráðuneytis og dómsmálaráðuneytis frá 26. mars sl. var ennfremur stigið mikilvægt skref í átt að koma á fót Vaktstöð siglinga.
Samkvæmt því samkomulagi sameinast þessi tvö ráðuneyti um að tryggja verkaskiptingu og hagkvæma framkvæmd rekstursins.
Með þessum breytingum hefur tekist að sameina í einni stöð þá aðila sem mestu máli skipta varðandi vöktun, upplýsingamiðlun og leit og björgun skipa og báta á Íslandi.
Það eru margir sem koma að rekstri Vaktstöðvar siglinga.
Samgönguráðuneytið hefur átt farsælt samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörgu í gegnum árin, sem mun leggja stöðinni lið sitt og þekkingu, og skiptir þar miklu máli reynsla þeirra og uppbygging sjálfvirku tilkynningarskyldunnar í samstarfi við samgönguráðuneytið og ekki síst uppbygging þeirra á björgunarbátasjóðum víða um land sem margsannað hafa gildi sitt.
Landhelgisgæslan mun tryggja að fagleg yfirstjórn og reynsla þeirra til sjós mun nýtast stöðinni sem best.
Aðkoma og reynsla Neyðarlínunnar við uppbyggingu fjarskipta og boðunarkerfa mun tryggja tæknilega getu stöðvarinnar.
Reynsla og þekking stöðvarinnar mun því byggja á reynslu allra þessara aðila sem og síðast en ekki síst á reynslu núverandi starfsmanna sjálfvirku tilkynningarskyldunnar og starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar í Gufunesi.
Siglingastofnun mun hafa fjárhagslegt og faglegt eftirlit með rekstri Vaktstöðvar jafnframt því að annast samskipti við stjórnvöld og alþjóðlegt samstarf.
Ég er ekki vafa um að með allt þetta hæfa og öfluga lið samankomið í Vaktstöðinni mun stöðin verða fremsta stöð sinnar tegundar á Vesturlöndum og að því markmiði stefnum við.
Með sameiginlegum rekstri þessara aðila í Vaktstöð Siglinga er ekki aðeins verið að tryggja að öll þekking og reynsla á þessu sviði er samankomin í Vaktstöðinni heldur nýtast fjármunir betur vegna samlegðar í starfsemi þessara aðila.
Óhætt er að fullyrða að þetta er eitt stærsta framfaraskref í öryggismálum sjómanna. Með þessum breytingum er verið að tryggja öryggi enn betur en nú er gert og ég geri mér miklar vonir um að þjónusta við sjófarendur í hinni nýju Vaktstöð verði enn betri en áður.
Ég vil geta þess, að í dag var undirritaður samningur milli Flugfjarskipta, sem er fyrirtæki í eigu Flugmálastjórnar, í umboði samgönguráðuneytisins og Símans um kaup á stöðinni í Gufunesi. Í stöðinni í Gufunesi fer fram öll fjarskiptaþjónusta við skip og flugvélar.
Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem að þessu hafa komið og gert þetta að veruleika og óska okkur öllum til hamingju með það samkomulag sem við skrifum undir hér á eftir um starfsemi Vaktstöðvar siglinga hér í glæsilegum húsakynnum í Skógarhlíð.