Samgönguráðherra opnaði nýja leið, Vatnaleið (vegur nr. 56) yfir Snæfellsnes formlega s.l. föstudag með því að klippa á borða að viðstöddu fjölmenni.
Á undanförnum einum og hálfum áratug eða svo hefur verið unnið markvisst að bættum vegasamgöngum við norðanvert Snæfellsnes. Má þar nefna stórverk á borð við veg um Ólafsvíkurenni (1984) og veg um Búlandshöfða (1999).
Með opnun nýs vegar um svokallaða Vatnaleið bætist við enn einn stóráfanginn í bættum vegasamgöngum á svæðinu. Vegurinn, sem leysir af hólmi eldri veg um Kerlingaskarð, liggur frá Vegamótum í suðri, inn Dufgusdal, austan við Baulárvallavatn, niður Sátudal, austan við Selvallavatn og tengist Snæfellsnesvegi í Helgafellsveit í norðri um 1 km vestan við gömlu vegamótin.
Nýja leiðin liggur mun lægra en gamla leiðin um Kerlingaskarð. Veglínan hefur auk þess mikið betri og jafnari plan- og hæðarlegu. Leiðin að sunnan í Grundarfjörð styttist um 2 km en jafn langt verður í Stykkishólm og áður. Ljóst er að samgöngur á svæðinu, sérstaklega að vetri til, verða mun greiðari og öruggari með tilkomu vegarins.
Næsti stóráfangi í vegamálum á norðanverðu Nesinu er þverun Kolgrafafjarðar, en áætlað er að framkvæmdir við hann hefjist á næsta ári.

Lengd hins nýja vegar um Vatnaleið er 16,4 km, um 770 m styttri en Kerlingarskarðsvegur sem nú verður lagður af. Mesta hæð yfir sjó er 230 m á móti 311 m á Kerlingarskarði. Einungis 3 km vegarins eru yfir 200 m hæð yfir sjó á móti 10 km á Kerlingarskarði.

Helstu magntölur verksins eru þessar:
Skeringar 235.000 m3 (þar af 64.000 bergskeringar)
Fyllingar og fláafleygar 406.000 m3. (þar af sig um 47.000 m3)
Burðarlög 105.000 m3.
Klæðning 102.000 m2.

Verkið var boðið út í apríl 2000. 13 tilboð bárust í verkið. Samið var við lægstbjóðanda, Suðurverk hf, um verkið og hófust framkvæmdir í maímánuði 2000.

Hönnun vegarins var í umsjá áætlanadeildar Vegagerðarinnar í Borgarnesi. Framkvæmdin var tekin í matsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum í mars 1999. VSÓ ráðgjöf annaðist gerð matsskýrslu, en Náttúrufræðistofnun Íslands kannaði gróðurfar og dýralíf. Haraldur Ólafsson sá um veðurfarslegar athuganir og Línuhönnun hf gerði úttekt á umferðaröryggi.
Lokahönnun verksins og gerð útboðsgagna var unnin í samvinnu við veghönnunardeild Vegagerðarinnar í Reykjavík. Brúadeild Vegagerðarinnar annaðist vatnafarsathuganir og hannaði ræsi á Köldukvísl. Veghönnunardeild annaðist jarvegskönnun og sigspár og rannsóknadeild sá um námukönnun og jarvegslýsingar í samvinnu við Jarðfræðistofuna Stapa.
Vegurinn er byggður í vegflokki C2, breidd vegar 6,5 m þar af er breidd slitlags 6,1 m. Áætluð meðalumferð árið 2002 er 300 bifreiðar á sólarhring.

Eftirlit og umsjón með þessari framkvæmd hefur verið í höndum framkvæmdadeildar
Vegagerðarinnar á Vesturlandi. VSÓ ráðgjöf ehf var ráðgefandi varðandi sig á framkvæmdatíma.

MVJ