Í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis frá 1. júlí sl. vegna kvörtunar Náttúruverndarsamtaka Íslands varðandi lagningu nýs vegar nr. 56 yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi verið vanhæfur, þykir rétt að gera grein fyrir afstöðu ráðuneytisins.
Ráðuneytið vill leggja áherslu á að skilningur ráðuneytisins og Vegagerðarinnar hefur ætíð verið sá að samkvæmt vegalögum er það vegamálastjóri sem er til þess bær að taka afstöðu og ákvörðun um legu vega og þá jafnframt áður en sótt er um framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi, sé um óskipulagt svæði að ræða. Gert er ráð fyrir því í lögum að staðsetning vega sé almennt ákveðin af skipulagsyfirvöldum. Er sá skilningur staðfestur í áliti umboðsmanns Alþingis. Ráðuneytið hefur jafnframt litið svo á að ákvarðanir vegamálastjóra um staðarval væri ekki hægt að framsenda til ráðherra til ákvörðunar þ.e. samþykkis eða synjunar, heldur eingöngu til staðfestingar á þegar tekinni ákvörðun.

Af hálfu samgönguráðuneytis var litið svo á að ekki væri verið að taka þátt í meðferð máls eða ákvarðanatöku vegna staðarvals um lagningu vegar um Vatnaheiði á Snæfellsnesi. Skilningur ráðuneytisins á bréfi vegamálastjóra var sá, að af hálfu Vegagerðarinnar væri búið að taka ákvörðun um staðarval vegarins enda í samræmi við upphaflegar tillögur og ákvarðanir Vegagerðarinnar, orðalag bréfsins, svo og gildandi vegáætlun fyrir árin 1999-2002. Sú vegáætlun var hins vegar til endurskoðunar í ráðuneytinu. Því var leitað staðfestingar ráðherra á ákvörðun Vegagerðarinnar enda hefði slíkt í för með sér að tillagna væri að vænta um fjárveitingar til verksins, sem síðan voru lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Ráðuneytið lagði ekki þann skilning í bréf vegamálastjóra að verið væri að framsenda endanlegt ákvörðunarvald um það hvaða leið skyldi verða fyrir valinu, enda ekki tekið fram í bréfinu. Af þeim sökum kom það aldrei til álita að vanhæfisreglur stjórnsýslunnar gætu átt við, þar sem ekki var talið að ráðuneytið væri með málið til efnislegrar meðferðar.

Álit umboðsmanns Alþingis felur hins vegar í sér að hann leggur annan skilning í bréf vegamálastjóra og samgönguráðherra og að samkvæmt vegalögum og almennum reglum stjórnsýsluréttar sé heimilt fyrir vegamálastjóra að framsenda ákvarðanir um staðarval til ráðherra, sé um veglagningu á óskipulögðu svæði að ræða. Þó að ráðuneytið geti ekki fallist á þá skoðun umboðsmanns að í máli þessu hafi ákvarðanataka um staðarval verið framsend til ráðuneytisins, mun það taka tillit til niðurstöðu umboðsmanns í framtíðinni og gæta þess að orðalag bréfa geti ekki verið skilið á víðtækari hátt en þeim er ætlað.

Samgönguráðuneytið hefur farið yfir álit umboðsmanns Alþingis og mun taka tillit til ábendinga, sem fram koma í áliti hans þann 1. júlí sl.