Sturla, ásamt Einari Kristni og Adolf Berndsen, var með opinn fund um samgöngumál í Félagsheimilinu á Blönduósi í gærkvöld, sunnudagskvöld.
Sturla hélt í upphafi framsögu um samgöngumálin almennt, rifjaði upp hvað áunnist hefur á kjörtímabili og fór yfir helstu verkefni framunda. Að framsögu lokinni fengu fundargestir færi á frambjóðendunum, og má segja að tvö mál hafi staðið uppúr sem mál málanna á þessum fundi.

Fyrst ber að nefna áhyggjur Húnvetninga af vegstæði Þjóðvegar 1, Hringvegarins, en hugmyndir hafa verið viðraðar um færslu vegarins frá Blönduósi og Varmahlíð, jafnvel alveg úr byggð og þá upp á Arnarvatnsheiði og um Stórasand í Skagafjörð. Skemmst er frá því að segja að allar hugmyndir í þessa veruna voru afskrifaðar með öllu af frambjóðendunum þremur sem á fundinum voru, enda var undirstrikað af þeirra hálfu að Alþingi hefur jú nýverið samþykkt samgönguáætlun til ársins 2014 þar sem engar hugmyndir eru uppi um tilfærslu vegarins.

Hins vegar var greinilegt að fundarmenn lögðu ríka áherslu á að tryggja sem frekast væri unnt öruggt GSM samband á þjóðvegum landsins. Sturla sagði unnið að því verkefni, sérstaklega það er varðar GSM samband á helstu fjallvegum, en Vegagerðinni hefur verið falið að vinna að athugun á því máli í samráði við fjarskiptafyrirtækin.

Sturla ávarpar fundargesti. Á vinstri hönd eru frambjóðendurnir Adolf H. Berndsen og Einar K. Guðfinnsson.