Ræða sem ég flutti 17. febrúar sl. við umræður á Alþingi um frumvarp til stjórnskipunarlaga. Allir þingmenn Framsóknarflokksins eru flutningsmenn þess frumvarps sem fjallar einkum um kosningu stjórnlagaþings. Ég hef miklar efasemdir um þetta frumvarp eins og fram kemur í ræðu minni hér á eftir.
Hæstvirtur forseti.

Það hvílir mikil ábyrgð á okkur alþingismönnum þegar kemur að umfjöllun um stjórnarskrá lýðveldisins. Til þeirra verka má ekki kasta til höndunum eða semja um breytingar á stjórnarskránni í fullkomnum ófriði undir leiðsögn og forystu minnihluta stjórnar sem situr um stundarsakir  í skjóli flokks sem er fjarstýrt utan Alþingis.

Það hefði verið góður bragur yfir nýrri forystu Framsóknarflokksins að koma með öflugt umboð þjóðarinnar inn í þingið. Hafa forystu um málið í þinginu með því að ná sátt um breytingar á stjórnaskránni eftir að hafa lagt hugmyndir sínar fyrir þjóðina og standa síðan að breytingum og efna til kosninga svo sem lög gera ráð fyrir. Þau vinnubrögð sem hér er lagt upp með, af hálfu Framsóknarflokksins, eru ekki vænleg til árangurs.

Í fræðiritinu Stjórnskipunarréttur eftir Gunnar Schram  er vitnað til  hugmynda  Ólafs Jóhannessonar  lagaprófessors og fyrrum formanns Framsóknarflokksinns. Þar segir,  með leyfi forseta:
,,Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsin og öðrum lögum æðri. Af þeim sökum er hún sett með öðrum og vandaðri hætti en venjuleg lög. Því er ekki rökrétt að stjórnarskránni sé breytt á sama hátt og venjulegum lögum. Hyggja þarf vel að fyrirhuguðum breytingum og ráðrúm að gefast bæði innan þings og utan til þess að gaumgæfa þær breytingar sem á henni eru gerðar“…..Tilvitnun lýkur.

Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar hefur ekki hlotið þá skoðun eða verið unnið með þeim hætti, sem við verðum að gera kröfu til, þegar kemur að grundvallarbreytingum á stjórnskipun  okkar. Flytjendur eru allir þingmenn Framsóknarflokksins. Ég hef ekki orðið þess var áður að sá flokkur hafi beint sjónum sínum mjög að slíkum og þvílíkum breytingum á stjórnarskránni sem þeir gera núna með því frumvarpi sem hér er til meðferðar. Þær breytingar sem háttvirtur 10. þingmaður Suðvesturkjördæmis, Siv Friðleifsdóttir, hefur lagt til varðar setu ráðherra á Alþingi og er annars eðlis og ég hef fullan skilning á þeirri hugmyndafræði sem þingmaðurinn hefur mælt fyrir hvað það varðar.

Framsóknarflokkurinn hefur hinsvegar haft betri tækifæri til þess að láta verkin tala við vandaða endurskoðun á stjórnskipun okkar. Hafandi haft úr sínum röðum formann stjórnarskránefndar árum saman.

Því miður náði stjórnarskrárnefndin  ekki samstöðu um teljandi breytingar og formaður hennar kom ekki fram breytingum sem sátt náðist um.

Það ber að harma að þessi mál beri að með þeim hætti sem hér hefur orðið í kjölfar umróts í samfélaginu.  Að óreyndu hefði ég ekki gert rá fyrir því að Framsóknarflokkurinn minntist verka fyrrum formanns flokksins, Ólafs Jóhannessonar lagaprófessors, sem er og hefur verið, höfundur megin fræðirits um stjórnskipun landsins, með því að leggja fram frumvarp sem kollvarpar stöðu Alþingis og setur stjórnskipun okkar í mikla óvissu. 

Með þessu frumvarpi er verið að svipta Alþingi því hlutverki að vera stjórnarskrárgjafi og viðhafa vinnubrögð  hér á Alþingi  sem forðast ber, við svo viðamikla breytingu á stjórnskipan okkar.  Við verðum að gæta þess að láta ekki óróleika á vettvangi viðskiptalífsins leiða okkur út í ófæru á sviði stjórnskipunar landsins. Næg eru þau vandræði sem við glímum við vegna hruns bankanna .
Þegar litið er á frumvarpið má segja að tólfunum sé kastað strax í fyrstu grein frumvarpsins en þar segir  að við stjórnarskránna bætist nýtt ákvæði um stundarsakir. Ákvæðið á að gilda um stundarsakir. Hér er tjaldað til einnar nætur. 
Það er vissulega rétt að samfélag  okkar hefur þróast þannig og  þær aðstæður hafa skapast  að margskonar breytinga er þörf. Þar á meðal á stjórnarskránni.   Þær verðum við a gera  af fyrirhyggju og yfirvegun með svipuðum hætti og við gerðum með bærilegri sátt þegar við breyttum þingsköpum og  komum á nýjum, breyttum og betri vinnubrögðum hér í þinginu.  Þær breytingar voru gerðar í góðu samstarfi við Framsóknarflokkinn og báru árangur.
Það blasir auðvitað við að ýmislegt   í stjórnarskránni sem gera þarf breytingar á  vegna þess að það er úrelt, ekki síst það er  varðar vald Forseta Íslands og það er vissulega þörf  á  skýrari skilum milli framkvæmdavaldsins  og löggjafavaldsins.  Mér virðist sem krafan um breytingar hafi einkum vaknað þegar mönnum varð ljóst að Forseti Íslands getur blandað sér með afgerandi hætti inn á verksvið Alþingis  velji hann að túlka  valdsvið  sitt á þann veg.
Í annan stað er rót  umræðu  og kröfu um breytingar á stjórnarskránni  runnin undan rifjum þeirra sem fljóta með þeim straumi sem umræður í fjölmiðlum hefur sett af stað og er beint gegn Alþingi sem stofnun og þeim sem þangað eru kjörnir. Sífelldur og stöðugur áróður gegn löggjafasamkomunni virðist  runnin undan rótum þeirra sem ekki hafa náð þeim trúnaði að vera kjörnir til setu á Alþingi  og hinsvegar frá þeim sem sætta sig ekki við þá löggjöf sem við höfum sett  hér á Alþingi. Aðferð þeirra við breytingar er að grafa undan þinginu.

Ég er  þeirrar skoðunar að við eigum að gera breytingar á  stjórnarskránni að afloknum næstu kosningum þegar þingið hefur fjallað um stjórnskipun okkar   og breytt og ganga aftur til kosninga þegar því vandasama verki er lokið.
Við eigum ekki að taka stjórnarskrárgjafan frá Alþingi.
Áköfustu fylgismenn mikilla breytinga á stjórnarskránni tala um að litlar sem engar breytingar hafi verið gerðar. Það er ekki rétt enda vita þeir sem hafa kynnt sér það hvaða breytingar hafa verið gerðar og þær hafa vissulega haft afgerandi áhrif svo sem breytingar á kjördæmaskipan og þegar deildarskiptingu Alþingis var breytt.  En það er  þörf á að ná sátt um breytingar sem gætu orðið til þess að efla Alþingi  og setja framkvæmdavaldinu þær skorður sem þarf að setja.
Þær breytingar sem hafa verið gerðar á Alþingi síðust u árin er liður  á þeirri vegferð. Það blasir við að með því  að auka  eftirlitshlutverk  þingsins og styrkja störf þingmanna  er staða  löggjafasamkomunnar  bætt og  er vissulega mikil þörf á því.

Alþingi verður að bera þá virðingu fyrir stjórnarskránni að henni verði ekki breytt með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir . Ella gæti komið til þess að Forseti  Íslands teldi sig knúinn til þess að stöðva malið með því að synja  lagafrumvarpinu staðfestingar. Við þær aðstæður gæti komið upp áhugaverð staða sem vert er að hugleiða í ljósi þess hvernig til þessa frumvarps er stofnað.
Ég hvet til þess að þetta frumvarp verði skoðað betur og  stuðningsmenn minnihluta stjórnarinnar sem situr við völd gefi nýju þingi tækifæri til þess að  vinna málið frá grunni í kjölfar þeirra kosninga sem framundan eru.