Sturla Böðvarsson var nýlega viðstaddur undirritun samninga Umferðarstofu við Hafnarfjarðarbæ annarsvegar og Ölgerð Egils Skallagrímssonar hinsvegar.
Verkefni Umferðarstofu, Vel á vegi stödd í vinnunni, er liður í því að ná meginmarkmiði samgönguráðuneytisins í umferðarmálum: Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum árið 2016.
Verkefnið miðar annars vegar að því að auka öryggi atvinnubílstjóra í akstri og hins vegar að því að lækka rekstrarkostnað fyrirtækja sem reka bifreiðar.
Betra aksturslag atvinnubílstjóra stuðlar að auknu öryggi þeirra sjálfra í umferðinni, sem og annarra vegfarenda. Hagur fyrirtækjanna sem taka þátt í verkefninu gæti einnig verið umtalsverður þar sem það hefur sýnt sig að breytt aksturslag bílstjóra skilar fyrirtækjum umtalsverðum rekstrarsparnaði. Eldsneytisnotkun minnkar, bílar þurfa minna viðhald, hjólbarðar nýtast lengur og síðast en ekki síst munu iðgjöld bifreiðatrygginga mögulega lækka þar sem umferðaróhöppum og slysum kemur til með að fækka. Þess er einnig vænst að atvinnubílstjórar njóti þess á einhvern hátt ef góður árangur næst.
Samgönguráðherra og Umferðarstofa binda vonir við að fleiri fyrirtæki sjái sér hag í því að taka þátt í verkefninu og stuðla þannig að því að fækka slysum í umferðinni.