Samgönguráðherra var boðið að taka þátt í dagskrá Íslensk-Ameríska verslunarráðsins í New York nú fyrir helgi. Ráðherra gat því miður ekki tekið þátt en aðstoðarmaður ráðherra flutti meðfylgjandi ræðu fyrir hans hönd.
Formaður, góðir fundarmenn!

Ferðaþjónusta á Íslandi er ung atvinnugrein. Segja má að hún hafi ekki farið að þróast fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og ekki af neinni alvöru fyrr en síðustu tvo áratugina eða svo. – Íslensk náttúra hefur alltaf verið helsta aðdráttaraflið enda óvíða hægt að sjá svo mikla fjölbreytni í tiltölulega litlu landi. Fólk hefur verið hvatt til að koma og sjá hraun, hveri og fossa og njóta friðsældar í fámennu landi.  Ferðamönnum hefur fjölgað ár frá ári og nú skapar ferðaþjónustan íslenska þjóðarbúinu næst mestar gjaldeyristekjur á eftir sjálfum fiskveiðunum. Þennan vöxt getum við þakkað öflugu markaðsstarfi hér vestanhafs. – Íslensk ferðaþjónusta hefur lengi horft vestur um haf og er komin sterk hefð á tengsl hingað. Bandaríkjamarkaður er langstærsti transit markaður Íslands og smám saman er okkur að takast á fá farþegana til að staldra lengur við.

Það var stigið stórt skref þegar Iceland Naturally-átakið fór af stað á árinu 2000, samhliða umfangsmikilli kynningu á Íslandi í tengslum við árþúsundamótin. Innan vébanda Iceland Naturally tókst að sameina krafta íslensku ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja sem hagsmuna eiga að gæta á þessum erfiða markaði. Stefnt var að almennri ímyndarsköpun sem mismunandi framleiðslu- og þjónustugreinar gætu notið góðs af. Mér heyrist allir sem aðild eiga að Iceland Naturally hæstánægðir með það starf sem unnið hefur verið og hróður átaksins hefur borist víða.

Bandaríkjamarkaður er fullur af tækifærum og sérfræðingar okkar hafa aflað sér þekkingar og reynslu til að standa í eldlínu samkeppninnar. Í kynningu á Íslandi hér í landi hefur áherslan verið á að ná athygli fjölmiðla enda snúið og kostnaðarsamt að herja beint á neytendur. Og nú er svo komið að Ísland nýtur feiknarathygli fjölmiðla. Þetta mun skila sér og ég er þess fullviss að Bandaríkjamenn eiga eftir að heimsækja Ísland í stórum stíl í framtíðinni.

Ég vil nota tækifærið og þakka tryggum vinum Íslands hér í Bandaríkjunum fyrir að hafa trú á landinu sem samstarfsaðila. Einnig þakka ég öllum þeim sem komið hafa að kynningu á Íslandi hér í Bandaríkjunum, Flugleiðum og fulltrúum mínum í Iceland Naturally. Sérstakar þakkir færi ég mönnum sem þið þekkið öll, þeim Einari Gustavssyni og Magnúsi Bjarnasyni.

Það er engum blöðum um það að fletta að náttúran er helsta auðlind ferðaþjónustunnar á Íslandi. Hún er líka undirstaða þess hagvaxtar sem við búum við og ekkert lát er á. Auk fengsælla fiskimiða gefa fallvötnin og hveravatnið okkur hreina og endurnýjanlega orku. Mengun andrúmsloftsins er því svo að segja óþekkt fyrirbæri á Íslandi og við erum sjálfum okkur nóg um rafmagn og heitt vatn til húshitunar. Þetta, ásamt öðru, gerir landið að FRAMTÍÐARáfangastað ferðamanna.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að vernda fjölsótta ferðamannastaði og dreifa gestum sem víðast um landið. Þetta er ekki auðvelt því eðlilega vilja ferðamenn sjá frægustu staðina, þá sem mest eru kynntir. Við erum líka stolt af velgengni einstakra fyrirbæra eins og Bláa lónsins. En… til þess að sporna við því að náttúruperlurnar láti á sjá höfum við lagt mikla áherslu á að vernda þær og jafnframt gera þær aðgengilegar ferðamönnum. Það kallar á göngustíga, merkingar og önnur mannvirki en ávallt er reynt að láta þau falla vel að umhverfinu svo að lítt snortin náttúra landsins skaðist ekki.

Mín framtíðarsýn er að menningin verði í auknum mæli það sem laðar ferðamenn til landsins. Við eigum hvorki frelsisstyttu né píramída en erum samt stolt af sögu okkar og menningu. Þjóðfélag okkar er ungt og gamalt í senn. Við eigum þúsund ára gömul skinnhandrit og tölum hálfgert fornmál. Enskukunnátta er hins vegar almenn og menntun á háu stigi.  Við búum í þjóðfélagi þar sem hugvit í fjarskiptum og upplýsinga- og erfðatækni er á við það besta í heiminum. Þessa ólíku menningu, þessa gjörólíku tíma í sögu lands, vil ég sjá tvinnaða saman svo að úr verði áhugaverður áfangastaður, vetur ekki síður en sumar. Þannig er ég bjartsýnn á að Ísland eigi eftir að státa af söfnum sem fara með fólk í ferðalag til fortíðar með aðferðum nýjustu tækni. – Allt þetta mun síðan styðja við eitt af okkar meginmarkmiðum; lengingu ferðamannatímans! – Ísland glímir við þann vanda, eins og margar aðrar þjóðir, að fjárfestingar í ferðaþjónustu eru vannýttar stóran hluta ársins. Súperjepparnir eru líklega sú fjárfesting sem best er nýtt en fleira þarf að koma til.

Ísland er spennandi land með hrikalega náttúru. Landið er einnig nútímalegt og öruggt. Við teljum okkur því eiga fullt erindi inn á ráðstefnumarkaðinn í heiminum. Hótelin á Íslandi eru mörg góð en okkur vantar fullkomna ráðstefnuaðstöðu til að geta átt möguleika á ráðstefnumarkaðinum. Nú hefur náðst samkomulag um að hefja byggingu ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík, við sjóinn, í hjarta borgarinnar. Mín framtíðarsýn er að þessi miðstöð verði aðdráttarafl í sjálfri sér og að ferðaþjónusta alls staðar á landinu njóti góðs af þeim ferðamönnum sem jafnframt því að koma á ráðstefnur ferðast um landið. Landsbyggðin á Íslandi mun í framtíðinni gegna lykilhlutverki í íslenskri ferðaþjónustu. Alþjóðavæðingunni er að takast að gera borgir um allan heim líkar hver annarrri en sveitirnar og landsbyggðin halda sérkennum sínum. Fólk mun því sækja sér hvíld og endurnæringu í sveitina.

Góðir fundarmenn! – Framtíðarsýn mín er byggð á mikilli trú á Íslandi og stolti yfir því sem landið hefur upp á að bjóða. Velgengni ferðaþjónustunnar, sérstaklega síðustu tíu til fimmtán ár, gefur mér til kynna að ég hafi ástæðu til bjartsýni. Þeir sem starfa í ferðaþjónustu eru óðum að átta sig á gildi strangra gæðakrafna, menntunar og því að hvorki menning okkar né náttúra megi líða fyrir aukinn fjölda ferðamanna. Hugtakið sjálfbær þróun er því að síast inn. Ferðaþjónustan á Íslandi tjaldar því ekki til einnar nætur. Hún er atvinnugrein sem er komin til að vera, efnahagslífi þjóðarinnar til heilla!