Síðastliðinn föstudag var skrifað undir samning um byggingu Fáskrúðsfjarðarganga. Um er að ræða verulega samgöngubót sem stytta mun Suðurfjarðaveg um Austfirði um 34 km. Jafnframt er öryggi vegfarenda aukið til muna. Ljóst er að samgöngur á Suðurfjarðavegi milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar munu batna verulega með betri, breiðari og öruggari vegi.
Með jarðgöngunum tengjast byggðir, atvinnusvæði stækka og möguleikar aukast á samstarfi sveitarfélaga og fyrirtækja á Austurlandi. Samgönguráðherra, vegamálastjóri, fulltrúar verktaka og sveitarstjórar Búðahrepps og Fjarðabyggðar voru viðstaddir undirskriftina.

Með Fáskrúðsfjarðargöngum og tilheyrandi vegagerð er verið að stytta leiðina suður með Austfjörðum um 34 km. og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um 31 km. Aðeins verða nú 18 km. á milli þessara tveggja staða í stað 54 km. í dag. Um leið verða leystir af hólmi hættulegir vegarkaflar með erfiðum beygjum, blindhæðum og takmörkuðu burðarþoli.

Fáskrúðsfjaraðargöng verða tvíbreið, 5,7 km. löng sprengd göng, með 200 m. löngum forskálum, samtals 5,9 km. Fyrir miðju ganganna ná þau mestri hæð yfir sjó, eða 124 m. Verktaki við gerð Fáskrúðsfjarðarganga er Ístak hf., ásamt E.Pihl og Sön AS. Framkvæmdir hefjast væntanlega í apríl, en framkvæmdatími er áætlaður tvö og hálft ár og göngin eiga að vera tilbúin haustið 2005. Áætlaður kostnaður við gerð ganganna er 3,8 milljarðar króna.

 

Verksamningur um byggingu Fáskrúðsfjarðarganga undirritaður