Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. júní síðastliðinn.

Í þessari grein vil ég vekja athygli á afstöðu Morgunblaðsins, sem fram kemur í leiðara blaðsins s.l. miðvikudag. Í leiðaranum gerir blaðið athugasemdir við sjónarmið, sem kom fram í sjómannadagsræðu formanns sjómannadagsráðs á Akureyri. Formaðurinn spurði í ræðu sinni:,, …hversu lengi eigi að refsa okkur fyrir að hafa tvö vel rekin útgerðarfélög hér og hvort Vestfirðir séu eina landsbyggðin“. Morgunblaðið spurði: ,,Er þetta sanngjörn athugasemd“ og vakti síðan athygli á sterkri stöðu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins og þeirra landshluta sem eru og hafa verið að byggjast upp m.a. með góðum samgöngum og þar með sterkara atvinnulífi. Vissulega hafa Vestfirðingar oft gert harðar kröfur til stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. Oftast í mikilli nauðvörn. Það réttlætir ekki slíkar sendingar að norðan. Það má með sanni segja að Vestfirðir séu ,,eina landsbyggðin“ þegar litið er til þeirra aðstæðna sem þar eru. Þar ræður mestu hversu Vestfjarðakjálkinn er afskekktur og samgöngur erfiðar á landi. Það er rétt, sem fram kemur í leiðaranum, að Vestfirðir hafa átt og eiga mjög undir högg að sækja þegar litið er til annarra landshluta. Það eru vissulega ríkar ástæður til þess að skapa skilyrði til eflingar byggðarinnar og það er ekki ástæða til að gera lítið úr þeirri stöðu sem þar er. Vestfirðir hafa upp á margt að bjóða þrátt fyrir það að þróun byggðarinnar hafi verið ýmsum erfiðleikum háð.

Það er þekkt að á Vestfjörðum eru kjöraðstæður til þess að nýta auðlindir hafsins. Að mínu mati eru Vestfirðir framtíðarland ferðaþjónustunnar, sem með bættu vegakerfi getur orðið stór atvinnuvegur í fjórðungnum. Það er í því ljósi sem ég hef, sem samgönguráðherra, lagt svo ríka áherslu á bættar samgöngur á Vestfjörðum og ég vænti þess að njóta stuðnings við þau áform sem eru uppi í samgönguáætlun. Þar vil ég nefna í fyrsta lagi lengingu flugbrautar á Þingeyri, sem mun verða sem þverbraut á Ísafjarðarflugvöll og stórauka öryggi í flugi vestur, í öðru lagi endurbyggingu vegar um Barðaströnd og jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar með nýjum vegi um Dynjandisheiði, í þriðja lagi uppbygging þess hluta Djúpvegar sem eftir er og í fjórða lagi vegur um Arnkötludal sem tengir saman Strandir og Reykhólasveit og lokar þannig hringnum um Vestfirði og tengir stystu leið milli Vestfjarða og mesta þéttbýlisins. Auðvitað verður þetta ekki allt gert í einu og allt hefur sinn tíma. Þessar mikilvægu framkvæmdir í samgöngumálum munu ekki einungis breyta Vestfjörðum heldur munu þær breyta Íslandi.