Með sölu Símans tryggjum við þær framkvæmdir sem mikilvægastar eru.

Það var ekki auðvelt eða einfalt verk að koma saman þeirri Samgönguáætlun sem ég lagði fyrir ríkisstjórn og Alþingi á síðasta vori og fékk samþykkta. Sú áætlun gildir fyrir tímabilið 2005-2008.

Þar voru takmarkaðir fjármunir og í mörg horn að líta í öllum kjördæmum. Engu að síður var þar á ferðinni tímamótaverk þar sem ákvörðun var tekin um að setja af stað framkvæmdir sem tryggðu vel bættar samgöngur við Vestfirði. Væntingar hafa verið miklar um framkvæmdir og þörfin fyrir samgöngubætur hefur blasað við. Nú hefur Síminn verið seldur og er gert ráð fyrir að leggja 15 milljarða af söluandvirðinu til vegagerðar. Þar eru á ferðinni hærri fjárhæðir en við höfum áður sett fram sem viðbót til sérstakra framkvæmda í samgöngumálum. Með þeim munum við breyta Íslandi og bæta lífsskilyrði í landinu öllu.

Ég geri því ráð fyrir að sátt geti tekist um þau áform sem kynnt voru í gær um nýtingu söluandvirðis hlutabréfa ríkissjóðs í Símanum. Við látum úrtöluraddir stjórnarandstöðunnar ekki trufla okkur.

Norðvesturkjördæmi eru tryggðar verulegar fjárhæðir til framkvæmda í vegamálum og þær auðvelda næstu áfanga sem ekki eru enn komnir á áætlun. Má þar nefna verkefni á Vestfjörðum, jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og endurbætur á Óshlíðinni. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að leggja 300 milljónir til að ljúka veginum yfir Þverárfjall, 800 milljónir eru settar til að ljúka í einum áfanga veginum yfir Arnkötludal og settar eru 700 milljónir í Vestfjarðarveg um Barðaströnd. Munar þar mjög um þá fjárveitingu til viðbótar við þá fjármuni sem í Samgönguáætlun eru til þverunar fjarða á Vestfjarðavegi.

Máltækið að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi á vel við um uppbyggingu vegakerfisins á Íslandi. Væntingar eru hvarvetna miklar og við höfum náð miklum og góðum áföngum sem gagnast byggðunum vel. Það fer ekki á milli mála að við getum horft stolt um öxl í lok þessa kjörtímabils og lagt á ráðin um næstu áfanga. Ég vænti góðs samstarfs við Vestfirðinga um þá áfanga í vega- og jarðgangagerð sem við þurfum vissulega að huga að í þeim tilgangi að hlúa að byggðinni og tryggja þær hagsbætur sem fylgja bættum samgöngum. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn eigi innistæðu fyrir loforðum sínum. Ég vænti þess að Vestfirðingar hafi áttað sig á því að sem samgönguráðherra hef ég markað skýra og raunhæfa stefnu í vegamálum Vestfjarða og með mér stendur harðsnúið lið sem vinnur að því mikilsverða verkefni að tryggja fjármuni og framkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum. Með sölu Símans tryggjum við þær framkvæmdir sem mikilvægastar eru sem forgangsverkefni.