Ríkisstjórn Jóhönnu er tvístruð og landið virðist stjórnlaust.

Landið virðist stjórnlaust. Ríkisstjórnin er tvístruð og henni hefur ekki tekist að vinna í samræmi við samkomulagið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, ekki í samræmi við eigin áform og ekki samkvæmt hinu mikilvæga samkomulagi sem Stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir. Og það er nánast engu komið í verk á vegum fagráðuneytanna sem séð verður. Forsvarmenn atvinnulífsins og almenningur bíður en sér engar lausnir af hálfu stjórnvalda á þeim vanda sem bankahrunið hefur haft í för með sér. Þessi staða er mjög alvarleg ekki síst þegar aðstæður eru eins og þær eru í samfélaginu. 

Stjórnarkreppan var fyrirséð

Þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta lögin sem áttu að tryggja ríkisábyrgð á skuldir tryggingasjóðs innlána vegna  Icesave reikninganna hefur hann væntanlega áttað sig á því að ríkisstjórnin hafði ekki vald á framvindunni og hafði samið af sér. Hún hafði látið knésetja sig í samningum við Hollendinga og Breta.

Forsetinn hefði auðvitað átt að sjá þessa stöðu fyrir. Hann stuðlaði að myndun minnihluta stjórnarinnar sem Jóhanna Sigurðardóttir fékk umboð til að mynda. Hún fékk tækifæri til þess að verða þjóðarleiðtogi á örlagastundu um leið og Samfylkingin fékk aðstoð forsetans og velþóknun VG við að snúast gegn Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðismenn höfðu í góðri trú myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni eftir kosningarnar 2007, en sá stjórnmálaflokkur hefur sýnt að hann er ekki fær um að taka þátt í ríkisstjórn og láta verkin tala.

Rétt er að minnast þess að þegar Samfylkingin hóf að starfa í ríkisstjórn hafði verið staðið þannig að málum að Ísland var meðal þeirra þjóða sem best stóð á flestum sviðum. En það var alið á óánægju með Borgarnessræðum og  Samfylkingin gekk hart fram í að verja forsvarsmenn stórfyrirtækjanna sem mesta áhættu tóku.

Eftir stjórnarmyndun 2007 var það mat Samfylkingarinnar að staða ríkisfjármálanna væri einstaklega traust og ríkisútgjöldin voru aukin um fimmtung í fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin bar ábyrgð á með Sjálfstæðisflokknum. Innan Sjálfstæðisflokksins voru miklar efasemdir um þessi auknu ríkisútgjöld en það var látið eftir Samfylkingunni í þeirri trú að þar á bæ væri að mæta ábyrgum stjórnmálaflokki sem hefði metnað og ætti því að fá tækifæri til þess að beita sér í samstarfi þessara flokka. En annað kom í ljós og Samfylkingin hóf sönginn um aðild að Evrópusambandinu og talaði bæði gegn stjórnarsáttmálanum og gegn hagsmunum okkar með því að tala niður gjaldmiðilinn í sókn sinni til Evrópusambandsins.

Bankarnir hrundu yfir atvinnulífið og heimilin
Þegar hin alþjóðlega bankakreppa skall á okkur og eftir að því er virðist ábyrgðarlausa stjórnun viðskiptabankanna hrundu þeir yfir atvinnulífið og heimilin í landinu þrátt fyrir regluverk Evrópusambandsins. Vert er að minna á að Samfylkingin fór með bankamálin og Fjármálaeftirlitið í þeirri ríkisstjórn sem var við völd þegar bankarnir hrundu. Í ljósi alls þess sem hefur gerst var mikilvægt að hér tæki við sterk stjórn eftir hrunið. Ég var einn þeirra sem töldu að þjóðstjórn hefði verið besti kosturinn. Forseti Íslands og spunameistarar Samfylkingarinnar voru á öðru máli og töldu að nú væri tækifærið til þess að leggja Sjálfstæðisflokkinn að velli og því var hagsmunum þjóðarinnar fórnað í þeim tilgangi að koma vinstriflokkunum til „varanlegra“ valda á Íslandi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð.  Vinstrihreyfingin grænt framboð  fórnaði öllum sínum grundvallar hugsjónum og samþykkti m.a. í stjórnarsáttmálanum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og nú ríkir bæði efnahagsleg og stjórnmálaleg kreppa sem var staðfest þegar forsetinn neitaði að staðfesta lögin.


Hver á að taka við af Jóhönnu?
Allar þjóðir sem lenda í alvarlegri stjórnmálalegri og efnahagslegir kreppu þurfa leiðtoga til þess að leiða sig út úr vandanum og skipuleggja sókn og uppbyggingu. Ísland er í þeirri stöðu að við þurfum traustan þjóðarleiðtoga. Jóhanna Sigurðadóttir var valin til þess af Samfylkingunni og forsetanum að leiða þann leiðangur sem fyrr er nefndur og var farinn til þess að tryggja vinstristjórn. Henni hefur mistekist þrátt fyrir að njóta krafta og hollráða utanríkisráðherra sem vílar ekki fyrir sér hlutina og virðist ráða för hjá Samfylkingunni, en verður vart formaður aftur.

Heyrst hefur að arftaki Jóhönnu Sigurðardóttur á formannsstóli  verði félagsmálaráðherrann Árni Páll Árnason. Eftir að hafa hlustað á Borgarnessræðu hans í gær sannfærðist ég um að hann er ekki efni í þann þjóðarleiðtoga sem við þurfum. Þar mætti hann sem talsmaður ríkisstjórnarinnar á fund um svokallaða Sóknaráætlun20/20 sem ríkisstjórnin stendur fyrir og hefur kallað fólk úr öllum kimum samfélagsins til að leita samráðs sem er ágætt og góðra gjalda vert. Tækifærið notaði félagsmálaráðherra vandlega og talaði eins og hann væri á fundi byltingarsinna hjá Fylkingunni. Yfirlætið og hrokinn réðu för. Allt var öðrum að kenna. 

Fundarmenn voru vægast sagt undrandi og margir  vonsviknir, áttu ekki von á þvílíkri ræðu á þessum vettvangi þar sem fólk úr öllum flokkum og utan flokka var saman komið til þess að leggja á ráðin um hvernig við vildum efla byggðina og fjölga atvinnutækifærum á Vesturlandi í þjóðar þágu. Vonir einhverra um að þar færi nýr efnilegur leiðtogi Samfylkingarinnar hafa brugðist.

Nýtt fólk til valda
Sem betur fer hefur tekist vel til með endurnýjun í forystu Framsóknaflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins eru vel til forustu fallnir og Bjarni hefur sýnt það eftir að hann tók við formennskunni við einstaklega erfiðar aðstæður að hann er efni í þjóðarleiðtoga komist hann til valda.

Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð þurfa að vera tilbúnir hvenær sem er að taka við og koma þjóðarskútunni  á réttan kjöl. Þeim tókst að koma viðræðum um Icesave í nýjan farveg og þeir þurfa að halda áfram og laða aðra áhrifamenn flokkanna til nauðsynlegra aðgerða og til þess að þjóðin fái aftur sjálfstraustið sem við þurfum til þeirra átaka sem framundan eru.
Við þurfum öfluga leiðtoga til þess að koma okkur út úr vandanum og nýta til viðspyrnu þær góðu aðstæður og innviði sem við vorum búin að byggja upp í samfélaginu fyrir bankahrunið. Það er þjóðarnauðsyn að til valda komist fólk sem getur ráðið við stjórn landsins og komið á þeim breytingum og endurbótum sem þjóðin kallar eftir. Til þess þurfum við að nýta það besta úr hugmyndafræði allra flokka í þágu endurreisnar á  Íslandi við einstakar og fordæmalausar aðstæður.

Til þess þurfum við leiðtoga sem kann, vill og getur laðað fólk til samstarfs.