Nýverið var rætt við samgönguráðherra á Bylgjunni um flugöryggismál. Viðtal Þorgeirs Ástvaldssonar við Sturlu Böðvarsson fer hér á eftir.
Þorgeir Ástvaldsson: Sturla Böðvarsson, umræðum um flugöryggismál eða flugmál yfirleitt á Íslandi hefur ekki linnt en þú hefur nú í bréfi og þá væntanlega sem þitt næsta skref í þessu víðfeðma máli leitað til alþjóðlegra flugyfirvalda varðandi starfsaðferðir flugmálayfirvalda hér á landi?
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra: Já ég hef leitað til Alþjóða flugmálastofnunarinnar til þess að fara yfir þetta mál og leggja mat á starfsaðferðir eins og segir bæði Flugmálastjórnar og sömuleiðis Rannsóknarnefndar flugslysa. Ég tel það mjög mikilvægt m.a. í framhaldi af þeim miklu umræðum sem hafa orðið um flugöryggismál hér í þjóðfélaginu og hér á Alþingi og vænti þess að sú skoðun geti orðið okkur að liði í þeim tilgangi að auka öryggi í fluginu hjá okkur.
Þorgeir: Áttu von á skjótum svörum?
Sturla Böðvarsson: Þetta er nú flókið mál og ég þori ekki að segja til um það en ég óska eftir því, bað um það sérstaklega, að þetta mál fengi fljóta afgreiðslu frá stofnuninni.
Þorgeir: Nú hafa skrif og umfjöllun um þetta svona farið inn á almennt öryggi flugs hér á landi og fjölmörg atriði uppi þar. Sérðu fyrir þér að þetta eigi eftir að ganga fram enn um hríð að við þurfum að gera meira í því að gæta fyllsta öryggis?
Sturla Böðvarsson: Umræður um flugöryggismál eru af hinu góða á meðan að þær eru málefnalegar. Ég held að þessar miklu umræður sem hafa orðið núna, að þær ættu að geta styrkt okkur ennþá og enn frekar í þeim vilja flugmálayfirvalda að vinna sem best að þessu. Við eigum mjög mikið undir því að bæði almenningur og allir sem að þessu koma beri traust til þessara fyrirtækja sem að sinna fluginu og til þess er eftirlit flugmálastjórna, til þess er hið alþjóðlega regluverk sem að flugfélögin og allir aðilar eiga að fara eftir og til þess er Rannsóknarnefnd flugslysa sem á sjálfstæðan hátt, óháð stjórnmálamönnum og öllum aðilum skoðar og rannsakar og reynir að leita svara við spurningum sem vakna þegar að flugslys verða – í þeim tilgangi að læra af reynslunni og koma í veg fyrir að slík slys endurtaki sig.
Því má bæta við að faðir manns sem lenti í flugslysinu títtnefnda í Skerjafirði s.l. sumar Jón Ólafur Skarphéðinsson, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þessa áðurnefnda framtaks samgönguráðherra. Jón Ólafur er faðir eina eftirlifandi fórnarlambsins og hann segir samgönguráðherra að reyna að panta traustsyfirlýsingu ICAO á störfum Flugmálastjórnar og sé það með ólíkindum. Það er semsagt að flugöryggismál á Íslandi eru ekki útrædd, langt í frá, og ganga þau út á kannski ekki einvörðungu þetta hörmulega slys heldur að öryggismálum almennt og það umhverfi sem við búum við og hvað býr þar að baki.