Þann 28.desember síðastliðinn sagði samgönguráðherra í fjölmiðlum að hann sæi ekki fyrir sér göng til Vestmannaeyja í náinni framtíð miðað við áætlaðan kostnað við þau. Aftur á móti sér hann ferjuhöfn í Bakkaföru sem góðan kost í samgöngumálum Vestmannaeyja. Niðurstöður rannsókna ættu að liggja fyrir á næsta ári.
„Það hefur verið gerð úttekt á kostnaði við jarðgangnagerð og til þess fengnir traustir erlendir aðilar,“ sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra við Fréttir.
„Kostnaðartölur eru það háar að það er ekki réttlætanlegt að fara út í framkvæmdina en það getur auðvitað breyst þar sem tækninni fleygir fram. Vegagerðin hefur ekki talið þörf á frekari rannsóknum á jarðlögum milli lands og Eyja að svo komnu máli. Vegna óska þingmanna Suðurkjördæmis hefur jarðvísindamaður við Háskóla Íslands verið fenginn til að meta og gera úttekt á því hvaða og hvort þurfi að gera frekari rannsóknir.“
Sturla sagði vilja þingmanna Suðurkjördæmis liggja fyrir varðandi frekari rannsóknir en ef flytja eigi fjármuni milli verkefna verði það að afgreiðast með samgönguáætlun í vetur. „Við getum ekki sett tugmilljónir króna í ákveðið verk sem ekki er á samgönguáætlun nema Alþingi samþykki það. Guðjón Hjörleifsson alþingismaður hratt þessu máli af stað að nýju og það er klárt að þar er vilji þingmanna Suðurkjördæmis að frekari rannsóknir fari fram ef talin er ástæða til þess. Rannsóknir á nýjum jarðgöngum fara hinsvegar ekki fram nema fyrir liggi vilji Alþingis til þess. Því verður þetta mál tekið upp við afgreiðslu samgönguáætlunar á næsta ári.“
Nú ber talsvert á milli kostnaðaráætlana Ægisdya og Vegagerðar?
„Forsvarmenn Ægisdyra létu leggja mat á þjóðhagslega hagkvæmi. Ég styðst fyrst og fremst við tölur erlendra jarðgangaráðgjafa sem unnu kostnaðarmat í samstarfi við Línuhönnun. Ég tel ekki ábyrgt að styðjast við önnur gögn og miðað við kostnaðartölur frá þeim þá eru þær allt of háar til þess að það geti verið raunhæfur kostur að grafa göngin. Það liggur fyrir að undirbúningstími jarðgangna er mjög langur og það eru mörg önnur verkefni sem samgönguráðuneytið vinnur að og eru framar á lista. Ég legg því áherslu á rannsóknir í Bakkafjöru en niðurstöður eiga að liggja fyrir á næsta ári. Ef þær eru jákvæðar mun það gjörbreyta möguleikum í samgöngumálum Eyjanna. Ég tel að hægt verði að fara strax í framkvæmdir ef þetta reynist raunhæfur kostur. En það verður ekki gert nema í sátt við Eyjamenn. Ég vil taka fram að allir kostir eru uppi og ég er ekki búinn að slá neitt út af borðinu. Í samgöngumálum við Eyjar gildir eins og í öðru að við verðum að vera raunsæ í væntingum okkar og áætlunum. Við megum ekki kynda undir óraunhæfum kostum. Ég legg áherslu á að vinna að þessum málum í samstarfi við þingmenn Suðurkjördæmis og forsvarsmenn bæjarins. Ég bind vonir við að með nýjum meirihluta takist mönnum að komast á rétt ról. Formaður bæjarráðs Arnar Sigurmundsson hefur unnið að málum með mér af miklum heilindum. Þannig ná forsvarsmenn bæjarfélaga árangri. Auk þess bind ég miklar vonir við starf nýskipaðar nefndar sem hefur það hlutverk að fara yfir framtíðarmöguleika í samgöngum við Vestmannaeyjar.“