Þann 7.janúar síðastliðinn var nýtt og glæsilegt húsnæði Fjölbrautarskóla Snæfellinga formlega tekið í notkun. Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, lét sig að sjálfsögðu ekki vanta við vígsluna og hélt þar eftirfarandi ræðu fyrir hönd þingmanna kjördæmisins:

Menntamálaráðherra, Snæfellingar, ágætu gestir.

Það er vissulega stór dagur á Snæfellsnesi í dag þegar við tökum í notkun þetta glæsilega húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem er byggt á undra skömmum tíma. Og það má með sanni segja að, loksins, loksins höfum við Snæfellingar eignast sameiginlegt musteri menntunar, þangað sem ungmenni okkar geta sótt menntun í framhaldsskóla og undirbúið sig fyrir lífsstarfið.

Fyrir hönd þingmanna Norðvesturkjördæmis óska ég nemendum og kennurum skólans til hamingju, einnig vil ég óska sveitarstjórnum og bygginganefnd Jeratúns til hamingju með frábært verk svo og verktökum sem að byggingu hafa komið. Slíku stórvirki sem að reisa og hefja rekstur skólastofnun sem Fjölbrautaskóla Snæfellinga er ekki komið á þrautalaust. Þingmenn hafa staðið einhuga að baki heimamönnum við allan undirbúning. Við þetta tækifæri vil ég þakka samstarfið við núverandi menntamálaráðherra sem hefur frá fyrsta degi sýnt skólanum mikinn áhuga og velvilja. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er hinsvegar þriðji menntamálaráðherrann sem kemur að þessu máli og er rík ástæða til þess að færa þeim þakkir fyrir samstarfið svo og fjármálaráðherra sem staðfesti vilja sinn gagnvart skólanum með samningum um fjármögnun.

Það er von mín sem þingmanns, sem hef fylgst með þessu máli frá upphafi að hér megi ríkja andi mennta og menningar í þessum glæsilegu sölum.

Forsendan fyrir samstarfi sveitarfélaganna um rekstur framhaldsskóla hér eru bættar samgöngur. Allan tímann sem skólinn var á undirbúningsstigi lá það ljóst fyrir að hann yrði ekki að veruleika án þess að samgöngurnar væru bættar. Það var í því samfélagslega ljósi sem ég tók þá ákvörðun sem samgönguráðherra að leggja svo ríka áherslu á byggingu vegarins milli bæjanna hér á norðanverðu Nesinu. Sú ákvörðun byggði á vitnesku minni um vilja sveitarstjórnanna að tenging bæjanna ætti að njóta forgangs. Á undirbúningstíma skólans var lokið við endurbyggingu vegarins fyrir Búlandshöfða, tekin ákvörðun og framkvæmdum lokið við nýjan veg um Vatnaleið og brú á Kolgrafafjörð.

Í dag stöndum við með pálmann í höndunum Snæfellingar og getum fagnað breyttum aðstæðum.

Skólahús er vissulega mikilvægur rammi um starfið. Það mikilvægasta er hinsvegar árangur nemenda og það skjól sem skólinn á að veita þeim til að þroskast og eflast með leik og starfi á vettvangi skólans.
Það er ekki langt síðan að unglingar á Snæfellsnesi þurftu að sækja allt sitt nám í önnur héruð í héraðsskólanna í Reykholti, Skógum, Laugarvatni eða Reykjum í Hrútafirði eða til að ljúka grunnsólanum og fara síðan suður til Reykjavíkur eða norður til Akureyrar til að ljúka framhaldsnámi. Ég sé hér mörg andlit sem ég þekki og veit að urðu að fara að heiman fjórtán eð fimmtán ára til að sækja skóla í fjarlægum héruðum fjarri fjölskyldum sínum.

Framhaldsskólinn hér á Snæfellsnesi breytir þessu öllu í dag.

Það hefur ekki gengið þrautalaust að ná þessum áfanga. Það hefur þurft þrautseigju og hörku. Snæfellingar vita sem er að þeir fiska sem róa. Engar framfarir verða nema hart sé sótt af forystumönnum sem lýsa vilja sínum umbúðalaust. Sveitarstjórnarmenn og skólafólk hefur sótt það fast að ná þeim áfanga sem hér er fagnað í dag. Það er ríkt í eðli Snæfellinga að láta ekki deigan síga. Sækja fast rétt sinn og lífsbjörg. Séra Árni Þórarinsson prófastur á Stórahrauni sagði í ævisögu sinni sem meistari Þórbergur Þórðarson skráði að það fyrsta sem Snæfellingar lærðu að segja væri „nei“. Það kann vel að vera. Snæfellingar hafa notað þá eðliskosti sína vel í sókn til að koma upp menntastofnun sem nýttist ungmennum okkar. Því fögnum við í dag.

Við skulum sameinast um það að líta til fjallanna okkar Kirkjufells, Helgafells og Snæfellsjökuls og heita á allar góðar vættir og biðja nemendum blessunar í leik og í starfi innan vébanda Fjölbrautaskóla Snæfellinga.