Þann 11. desember síðastliðinn var ný Þjórsárbrú tekin í notkun að viðstöddu fjölmenni. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra klippti á borða Rangárvallasýslumegin og naut aðstoðar Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra.
Nýja brúin er 170 metra löng og 11 metra breið. Brúin er borin uppi af 78 metra löngum boga úr stáli og steinsteypu sem hannaður var af Vegagerðinni. Vélsmiðjan Normi í Vogum sá um smíði brúarinnar og verktakafyrirtækið Háfell sá um vegagerð beggja vegna alls um 4 km leið.
Gamla brúin var einbreið en nú er aðeins ein slík eftir á leiðinni frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs. Heildarkostnaður við mannvirkin er um 550 milljónir króna.