Vinna er hafin við gerð ferðamálastefnu samgönguráðuneytisins fyrir tímabilið 2005-2015. Núverandi stefnumótun gildir til ársins 2005.

Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur verið skipaður formaður stýrihóps verksins en í honum eru einnig Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Myndað hefur verið bakland 20 aðila þar sem eru 5 fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, 5 frá Ferðamálasamtökum Íslands, 5 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá hverjum stjórnmálaflokki sem á fulltrúa á Alþingi. Framkvæmd verkefnisins er í umsjón skrifstofu Ferðamálaráðs.

Jón Gunnar Borgþórsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn verkefnastjóri. Hann hefur áður unnið fjölmörg verkefni tengd markaðsmálum ferðaþjónustufyrirtækja, sinnt kennslu í HÍ, námskeiðahaldi o.fl. Jón Gunnar hefur störf nú í vikunni.

Þess er að vænta að sá stóri hópur sem kemur að mótun stefnunnar geta náð öflugri niðurstöðu sem styrki stöðu ferðaþjónustunnar á næstu árum. Í starfi ráðuneytisins verður á næstunni lagt allt kapp á að efla þessa mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.