Ágúst Einarsson, prófessor og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, heldur úti heimasíðu og skrifar um þjóðmál. Flest þau skrif hans eru sett í stjórnmálalegt samhengi. Nýverið skrifar hann um rannsóknir flugslysa. Þar heldur hann því ranglega fram að undirritaður komi í veg fyrir að allir þættir Skerjafjarðarslyssins verði skoðaðir. Hann segir m.a.: „…þvergirðingsháttur hans [samgönguráðherra] í að skoða alla þætti Skerjafjarðarslysins er ólíðandi og særir réttlættistilfinningu fólks“. Það er leitt að Ágúst skuli hefja umræðu um rannsókn flugslysa með þeim hætti sem hann gerir. Hann veitist að mér með órökstuddum fullyrðingum og kröfu um „óháða rannsókn“ án þess að rökstyðja það nánar að öðru leyti en því að vitna til málflutnings aðstandenda þeirra sem fórust í slysinu og hafa fjallað um það opinberlega.
Rannsókn flugslysa er viðkvæmt og vandasamt verkefni. Því er með löggjöf okkar leitast við að tryggja sjálfstæði Rannsóknarnefndar flugslysa – ekki síst gagnvart stjórnvöldum. Hlutverk Rannsóknarnefndar flugslysa er að upplýsa ástæður flugslysa svo af því megi draga lærdóm og koma í veg fyrir slys.

Ég hef lagt áherslu á að rannsóknin og aðgerðir Flugmálastjórnar á sviði öryggismála væru til þess að auka öryggi í fluginu. Í þeim efnum mætti engu til spara og gera ætti ríkar kröfur til flugrekstraraðila. Liður í því var að leysa Leiguflug Ísleifs Ottesen frá samningi um áætlunarflug á vegum ríkisins.

Vegna athyglisverðra ábendinga aðstandenda þeirra sem fórust í slysinu og vegna alvarlegra athugasemda við framgöngu flugrekandans óskaði ég eftir því að Alþjóða flugmálsatofnunin (ICAO) gæfi umsögn um vinnubrögð Flugmálstjórnar og Rannsóknarnendar flugslysa. Jafnframt krafði ég Flugmálstjórn skýringa og óskaði tillagna um úrbætur við eftirlit með flugrekendum. Þá tók ég ákvörðun um að hraða gildistöku hertra reglna gagnvart minni flugfélgum og að auknum fjármunum væri veitt til flugöryggissviðs Flugmálastjórnar í þeim tilgangi að framfylgja hinum hertu reglum sem hafa verið í undirbúningi síðustu misseri.

Skrif Ágústar um flugslysarannsóknir einkennast af óvönduðum flumbrugangi sem honum hættir stundum til. Sleggjudómar hans um vandasöm og viðkvæm málefni, svo sem rannsókn flugslyss, hæfa ekki manni sem ber prófessorsnafnbót. Hefði Ágúst Einarsson kynnt sér málið hefði hann komist að raun um að ég hef lagt áherslu á að vinna faglega að þessu vandasama máli. Það kallar hann „þvergirðingsátt“. Að líkja þessu máli við Geirfinnsmálið og baráttu Magnúsar Leopoldssonar um upptöku þess er með ólíkindum af manni í stöðu Ágústar Einarssonar.

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur skilað skýrslu vegna slyssins og Alþjóðaflugmálstofnunin hefur lagt mat á rannsóknina . Á meðan Rannsóknarnefndin vann að sinni rannsókn, Alþjóðaflugmálstofnunin hafði málið til meðferðar og á vegum lögreglu stendur yfir opinber rannsókn voru og eru engar forsendur til þess að kalla aðra að rannsókninni á vegum samgönguráðuneytisins. Alþjóða flugmálstofnunin komst að þeirri niðurstöðu að ekki virtist ástæða til frekari rannsókna. Að fenginni þeirri niðurstöðu sá ég ekki ástæðu til frekari rannsókna að undirlagi ráðuneytisins að óbreyttu. Tel ég mikilvægast að beina kröftunum að vönduðu starfi Flugmálstjórnar og Rannsóknarnefndar flugslysa í þágu flugöruggis. Að því er nú unnið og liggja fyrir áætlanir um það af hálfu Flugmálstjórnar sem svar við beiðni minni.

Aðstandendur hafa gert samning við sjálfstætt starfandi sérfræðinga í Bretlandi um sérstaka athugun á slysinu og rannsókn þess. Engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu samgönguráðuneytis við þá málsmeðferð. Sá samningur var gerður á meðan Alþóðafugmálastofnunin vann sitt verk eftir minni beiðni. Ég taldi ekki eðlilegt að samgönguráðuneytið yrði beinn aðili að þeirri vinnu á sama tíma og Alþóðaflugmálstofnunin vann að úttekt málsins. Þá er vert að geta þess að sérfræðingarnir sem tóku verkið að sér eftir beiðni aðstandenda hafa starfað hjá Cranfield College for Aeronautics sem hefur séð um þjálfun starfsmanna Rannsóknarnefndar flugslysa. Geri ég ráð fyrir að einhverjum hefði þótt það undarlegt ef samgönguráðherra hefði fengið þá stofnun sem „óháðan aðila“ til frekari rannsóknar á vinnubrögðum RNF. Engu að síður hef ég lýst því yfir að ráðuneytið mun leitast við að auðvelda vinnu sérfræðinganna eftir því sem hægt er og koma þannig til móts við þá aðstandendur sem tóku ákvörðun um að leita til bresku sérfræðingann. Að lokum er vert að geta þess að í ráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun á lögum um Rannsóknarnefnd flugslysa. Verður leitað til erlendra aðila um ráðgjöf vegna hugsanlegra breytinga á löggjöf, m.a. vegna ábendinga Aljóða flugmálastofnunarinnar. Allt það starf miðar að auknu öryggi í flugi. Ágúst Einarsson ætti að kynna sér skýrslu Alþjóða flugmálstofnunarinnar sem forseti ICAO lét vinna að minni beiðni. Hana er að finná heimasíðu samgönguráðuneytisins. Sérfræðingar ICAO komu til landsins og kynntu sér allar aðstæður og ræddu m.a. við fulltrúa aðstandenda þeirra sem fórust í flugslysinu. Það er í hæsta máta óeðlilegt af prófessornum að gera skýrslu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar tortryggilega eða láta að því liggja að hún sé einhverjum háð og því þurfi óháða rannsókn yfir úttekt ICAO.

Með vísan til þess sem að framan er rakið vísa ég á bug gagnrýni Ágústar Einarssonar og annarra þeirra sem hafa verið að skrifa í dagblöð á svipuðum nótum.